Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir sigri í stjórnarskrármálinu. Sá sigur fékkst ekki fram með afli atkvæða – því eftir sem áður er öflugur meirihluti á alþingi að baki tillögunum um stjórnarskrárbreytingar. Sigurinn varð heldur ekki þannig til að almenningur snerist á sveif með minnihluta á þingi og kæmi þannig vitinu fyrir meirhlutann – einsog gerðist til dæmis í vatnalagadeilunni, og með nokkrum hætti í fjölmiðlamálinu. Sigur sinn vann fráfarandi þingflokkur Sjálfstæðisflokksmanna með því að hóta endalausu málþófi – að nota breyttar þingskaparreglur, sem þeir sjálfir stóðu fremstir í að lagfæra á þinginu 2007–2008, í einskonar eilífðarvél, perpetuum mobile, einsog vísindamenn dreymdi um á fyrri öldum:, þannig að þingið stöðvaðist aldrei þangað til nýjar kosningar ryddu öllu úr vegi.
Aðal-sigurvegarinn er auðvitað Björn Bjarnason: Hann lauk þingferli sínum með yfirlýsingum um að hann mundi tala eins oft og hann þyrfti til að stöðva stjórnarskrárbreytingarnar. Björn var staðráðinn í að koma með fundarskapaklækjum í veg fyrir að meirihlutavilji næði fram á þinginu. Þetta er athyglisvert. Ég hef staðið í langvinnum umræðum á þingi, og í RÚV-málinu hafði ég á hendi forustuhlutverk fyrir hönd þáverandi stjórnarandstöðu. Svona yfirlýsing kom aldrei úr mínum munni – þvert á móti lýsti ég því yfir að meirihlutinn réði, afgeiðsla málsins færi eftir því hvað hann teldi það mikilvægt. Og þá taldi meirihlutinn málið svo mikilvægt að það varð að lokum að lögum (því miður einsog nú er komið í ljós!). En þá voru gömlu þingsköpin í gildi – þar gat minnihluti vissulega þæft málin, en þó í kappi við líkamsþrek, raddkraft og þvagblöðru, og átti engan möguleika á hinu nýja perpetuum mobile Björns Bjarnasonar.
En hvaða sigur hafa Björn, Bjarni, Þorgerður Katrín, Árni Johnsen og aðrir málþófskappar unnið í raun og veru? Þeir hafa – í bili – komið í veg fyrir að þjóðin réði beint breytingum á stjórnarskrá. Þeir hafa komið í veg fyrir stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlinda. Þeir hafa komið í veg fyrir þjóðarfrumkvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Og þeir hafa komið í veg fyrir að þjóðin kysi sér sérstakt stjórnlagaþing. Þetta hafa þeir gert til að verja ríkjandi kerfi, ríkjandi völd, ríkjandi sérhagsmuni – gegn almannahagsmunum, gegn auknum rétti þjóðarinnar utan þingsala og utan Valhallar.
Sjálfstæðismenn hafa vissulega unnið sigur – sigur á þjóðinni.
En sá sem slíkan sigur vinnur þarf að vera var um sig. Þjóðin lætur ekki Sjálfstæðisflokkinn segja sér fyrir verkum. Ekki lengur. Vonandi aldrei meir.
Þetta lið leidduð þið kjötkatlafíklarnir til valda 2007.
Þú ert bara snillingur, Mörður. Enda hefurðu frá því ég kynntist þér fyrst árið 1991 alltaf kunnað að koma fyrir þig orði. Gæti ekki orðað þetta betur og tek heilshugar undir hjá þér.
Nýi Dexter verður bara að taka gilda afsökunarbeiðni ISG varðandi samstarfið við Sjallana.
Að mínu viti … þá vona ég sannarlega að þessir eymingjar D-listans komist aldrei aftur til valda.
Kær kveðja frá Akureyri*,
Doddi
* Akureyri er bærinn þar sem fyrrum bæjarstjóri Kristján var á góðum biðlaunum sem bæjarstjóri og á þinglaunum og er á launum nú sem þingmaður og bæjarráðsmaður á Akureyri … bærinn þar sem við starfsmenn hans erum að taka á okkur 5 prósenta launalækkun. – Ég endurtek: Sjálfstæðisflokkinn, ei meir!
Það eru miklir menn sem sigra aðra en mikilmenni sem sigra sjálfan sig….
Oh boy…..
Með allri hegðun sinni í málinu hafa Sjallar einmitt sýnt enn einu sinni fram á að Alþingi ræður ekki við að fjalla af viti um stjórnarskrá. Menn sem hafa atvinnu af hagsmunapoti og skítkasti hver í annan eiga ekki að setja stjórnarskrá. Við viljum öðru vísi menn í það verk — VIÐ VILJUM STJÓRNLAGAÞING!
Er ekki nóg að hafa rifrildishunda á einum stað.
Förum ekki að hafa þá út um allar trissur.
Þessu verður bara breytt þegar nægur styrkur er til þess og tími vinnst til.
Það verður bara að segja það eins og er að það þarf að gefa sér betri tíma í svona breytingar en nokkra daga.
Þetta verður hægt að vinna á nýju kjörtímabili.
Mörður,
Þetta mál er meiriháttar áfall fyrir Samfylkinguna. Að mínu mati snúast þessar kosningar um aðeins eitt – ESB. Að öðru leyti mun ekkert eiga sér stað hérna næstu 4 árin en neyðarstjórnun og mér er alveg sama hver ykkar eiginhagsmunaseggjana sér um niðurskurðinn og skattahækkanirnar.
Ég er búinn að kjósa. Ég kaus Samfylkingu í trausti þess að það væri sá flokkur sem væri líklegastur til að koma okkur í ESB. Enn einusinni fellur Samfylkingin hins vegar á prófinu. Þið frestuðuð málinu til að starfa með sjöllunum. Þið frestuðuð málinu til að starfa með VG. Og nú hafið þið bundið svo um hnútana að ekki verði hægt að ganga í ESB á næsta kjörtímabili.
Til allrar lukku þá var ég að frétt að það er hægt að kjósa oftar en einu sinni utankjörstaðar, þannig að í dag ætla ég að fara og kjósa upp á nýtt. Þetta sinn mun Borgarahreyfingin fá mitt atkvæði.
Ég hef haldið upp stöðugri baráttu fyrir ykku í öllu mínu nánasta umhverfi, en þið svikuð mig. Ég veit að mörgum líður eins.
Skil þig, Einar, en þetta er ekki búið fyrren feita konan syngur. Hafðu samband: mordurarnason@simnet.is / 896 1385.
Einar.
Nú ert þú að snúa hlutum á hvolf.
Beindu reiði þinni í átt að þeim flokki sem hefur komið þjóðinni þangað sem hún er í dag. Ert þú ekki aðeins og fljóthuga.
Sjálfstæðismenn hafa margoft sagt að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskránni. Eftir að hafa sjálfur lesið breytingartillögurnar, sem lagðar voru fram, er ég óendanlega þakklátur fyrir að einn flokkur hafi haft þor og þrautseigju til að standa upp á móti þeim.
Það má ekki í skjóli nýrra tíma og köllunar eftir breytingum hlaupa af stað með hálfhugsað verk. Nú, frekar en nokkurn tíma áður, er nauðsynlegt að vanda öll vinnubrögð.
Það var ekki einungis Sjálfstæðisflokkurinn sem lagðist gegn breytingunum, heldur fjöldinn allur af sérfræðingum og fræðimönnum á sviði atvinnulífsins.
http://www.xd.is/?action=grein&id=18916
Sjálfstæðisflokkurinn var með málþófi sínu einungis að vernda hag atvinnulífsins á landinu.
Sæll Mörður,
Já þú mátt eiga það að þú ert vel mælskur og hefur gaman af því að tjá þig.
En ert þú virkilega sammála því að þetta frumvarp hafi verið eins vel unnið og mögulega var hægt. Er það ekki frekar þannig að það er ykkur í hag að halda þessu til streitu vegna þess að þá þurfið þið ekki að að fara til kjósenda og svara því hvað á að gera í sambandi við atvinnuleisi, lækkandi íbúðaverð gjaldþrot heimila. Okkur vantar svör og þá ég ekki við venjulegu símsvarakveðjuna ykkar innganga í „ESB“ heldur á ég við alvöru svör.
Mínar bestur Kveðjur,
Stefán Gestsson
Sæll Mörður.
Mig langar að spyrja þig einnar spurningar sem óákveðinn kjósandi.
Er það yfirlýst stefna Samfylkingar að beita ungt fólk í hugsjónabaráttu efnavopnum, berja það með kylfum og ota vélsögum á milli lappana á þeim.
Það væri gaman að fá svar við því.
Vel orðað Mörður. Ég er í sjokki yfir þessum málalokum. En þessi niðurstaða má ekki draga úr staðfestu Samfylkingar að sækja um aðild að ESB. Sjálftökuflokkurinn getur ekki og má ekki ráða ferðinni.
Hörður: Sé að Mörður er ekki búinn að svara þér þannig að ég geri það þá bara; Nei, það er ekki yfirlýst stefna Samfylkingarinnar. Samfylkingin hefur ekki gefið lögreglustjóra neinar fyrirskipanir í sambandi við Vatnstígshúsið.