Einmitt núna – nokkrum dögum fyrir kosningar – í mesta hallæri síðari tíma – eru komnir tímar töfraformúlunnar í íslenskri pólitík.
Og sumir fá pening til að eyða …
Framsóknarflokkurinn reið auðvitað á vaðið – sjálfur galdrakarlaflokkurinn – með tuttugu prósentin sín. Nú er búið að setja þau upp í myndasögu sem er svo flókin að enginn skilur neitt í neinu – og það var auðvitað ætlunin því töfrabrögð væru lítils virði ef áhorfendur föttuðu alltaf hvernig töframaðurinn fer að.
Ég skil til dæmis aldrei hver á að borga – en eitt skildi ég samt loksins í myndasögunni: Þeir sem fá 20%-niðurfellingu og hafa ekkert við hana að gera – þeirra hlutverk er að gera hinum í samfélaginu mikinn greiða – með því að fara út í búð og kaupa sér fyrir allan peninginn. Þannig eignast þeir fleiri hluti og hagkerfið kemst af stað aftur og allir eru alsælir. Einfalt!
Ekkert vont hjá tannlækninum
Svo er Bjarni Ben líka kominn með töfrasprota: Við tölum við AGS og þeir redda okkur evru! Svona er það einfalt, og svo borar tannlæknirinn ekkert – það þarf allsekki að ganga í Evrópusambandið!
Hrekkjusvín í Fréttablaðinu eru að vísu að rifja upp að einmitt sami Bjarni hafi sagt í síðasta mánuði að hann telji að „í gjaldmiðilsmálum sé enginn valkostur við krónuna jafn sterkur og evran með ESB-aðild. Ég vil að við göngum hreint til verks í þessum málum og gerum upp á milli valkosta á næstu árum, en séum ekki að leika marga biðleiki.“ – En þetta var í mars! Laaaangt síðan. Og þá var ég ekki orðinn formaður …
Sjáiði ekki veisluna?
Þriðja töfraformúlan þessa daga er svo framin á samsýningu ýmissa stjórnmálamanna og -flokka: Helguvík! Tvö-, þrjú-, fimmþúsund störf! Og kostar ekkert. Eftir að þingið samþykkti fjárfestingarsamninginn eru jakkaklæddir bankamenn komnir af stað upp í flugvélarnar með 400 milljarða í leðurgljáandi stresstöskum: Sjáiði ekki veisluna?
Við eigum að vísu eftir að redda allri orkunni á Reykjanesskaga og Hellisheiði, línur, losunarheimildir, umhverfismat og sitthvað smáræði – og svo eru víst til talsverðar birgðir af ódýru áli í Kína og víðar. Það hlýtur að seljast einhverntímann. Og Helguvík kemur í veg fyrir sólarkísil og gagnaver – en var það ekki bara hálfgert plat hvorteð var?
2 + 2 = 4
Og við sem héldum að kosningarnar snerust um framtíðina – um endurreisn atvinnulífsins, sjávarútveg, nýsköpun, sprota, menningarfyrirtæki … – og um hag heimilanna, hvernig á að rétta hjálparhönd þeim sem verst eru staddir – meðal annars til að þeir noti sitt vit og hugkvæmni til að skapa störf.
Tja – við verðum bara að seiglast áfram gegnum töfrabrögðin og treysta því að fólk hugsi sjálft og leggi saman tvo og tvo: Vinna, velferð, evra og ESB, störf sem henta nýjum tímum án þess að skemma náttúruna, siðbót í landinu og umbætur í stjórnkerfinu.
Að tveir plús tveir eru Jóhanna.
Er 0 í o veldi 1 ?
Finnst þetta fremur klént ritsmíð hjá þér vinur. Mikið er talað um trúverðugleika og þú gerir mikið úr óheilindum , úrræðaleysi og yfirboðum annara.
Hvernig væri nú fyrir Samfylkinguna að hrinda af sér áburðinum um
að hafa viljandi eða óviljandi tekið á móti stórum styrkjum án þess að
greina frá því. Ég sé ekki hvað dvelur ykkur í að reka af ykkur þennan áburð. Hvað með að stjórnmálaflokkarnir greini frá lánadrotnum sínum.
Er það kanski þannig að þið hafi allir þrír Sjálfstæðisflokkur,Framsókn og
Samfylking selt sál ykkar banka og útrásarliði með því að taka við fúlgum fjár úr þeirra höndum
Mörður, þú vilt sem sagt ekki að afskriftir erlendra kröfuhafa gangi til íslenskra lántakenda?
Erlendur kröfuhafarnir afskrifa um það bil 50% af lánum íslendinga, ca. 3000 milljarða.
Af hverju gera þeir það? Er að góðmennska? Nei, léttari greiðslubyrði = meiri líkur á að fólk standi í skilum.
Samkvæmt skilningi Marðar á íslenski skuldarinn að vera píndur í botn áður en til þrautalendingar kemur í formi eignaupptöku og tilsjónarmanns!
Getur einhver svarað því hvaða 6-8000 störf þetta eru sem Sjallanir eru að lofa við byggingu álvera?
Hverjir byggðu síðasta álver og Kárahnjúkavirkjun?
Voru það ekki réttindalausir farandverkamenn frá kína og austur evrópu?
Hvernig voru laun og kjör þeirra?
Eru sjallarnir semsagt að fara að bjóða uppá þannig störf fyrir landann?
Hvernig fá þeir líka út þessa tölu?
Þetta er nú meiri steypan?
Kv.
Árni-
Hvaða kjaftæði er þetta í honum Merði.
Í Helguvík hefur verið unnið alla daga við þessar framkvæmdir.
Allt gert með þeirri vissu að Samfylkingin myndi tryggja þessu þjóðþrifamáli brautargengi.
Og auðvitað klikkaði samfó ekki í því máli.
Takk fyrir það.
Ég hefði nú haldið að það væri nú þegar nóg af auðum hverfum og húsum á Suðurnesjum. Samfylkingin-1, Framsókn og SjálfstæðisFlokkurinn vilja greinilega bæta um betur og dobbla þann fjölda sem nú þegar stendur autt á Eigilsstöðum og Reyðarfirði.
Og ekki er það talið til slæms í þessum flokkum að hundsa staðreyndir eins og þær að Landsvirkjun mun ekki fara í neinar framkvæmdir á næstu 2-3 árum vegna bágrar eigin fjárstöðu og skulda og að auki eru allar lánalínur til Landsvirkjunar lokaðar. Heimsmarkaðs verð er í sögulegu lágmarki og bendir margt til þess að það eigi eftir að lækka enn frekar. Offramboð er á áli í heiminum. Century Aluminum er næstum komið í þrot.
Nei frekar hafa þessir flokkar ákveðið að hunsa þetta og reyna nú að selja fólki atkvæði sitt fyrir 6000 störf sem eru í raun störf sem erlendir farandverkamenn munu starfa við eins og raunin varð með Kárahjúka þar sem fagurri náttúru íslands var fórnað fyrir steypuklump með tilheyrandi sandfoki og tómum íbúðarhverfum á Austurlandi, í von um að Íslendingar sjá ekki í gegnum þetta (fagra Ísland ? ).
Og heldur Samfylkingarfólk ekki að við sjáum Össur, Björgvin og Möller hangandi í pilsfaldinum á Jóhönnu .
Þú átt hrós skilið fyrir að greitt atkvæði á móti þessu Helguvíkur Ál rugli .
,,Erlendu kröfuhafarnir afskrifa um það bil 50% af lánum íslendinga, ca. 3000 milljarða“ — hvað er í pípunni þinni? Að þeir afskrifi lánin til að gefa mér — sem skulda núna um 5 milljónir í 20–25 m.kr. íbúð — eina milljón króna — sem Framsókn ætlast svo til að ég eyði í Kringlunni? Félagar! — Komum okkur niður á jörðina!
Tel mig vera ágætlega á jörðinni
Hvernig færðu það út að verið sé að gefa mér peninga við það að Framsóknarleiðin yrði farin? Höfuðstóll láns sem ég tók til íbúðarkaupa síðastliðið sumar var rétt um 10 milljónir í haust. Sá höfuðstóll er kominn í tæpar 13 milljónir í dag! Þannig að það hefur hækkað töluvert þrátt fyrir að ég sé búinn að borga af því rétt um milljón krónur. Með 20% leiðréttingunni færi lánið ekki niður fyrir upphaflengan höfuðstól en greiðslubyrðin minnkar eitthvað sem léttir mér lífið töluvert og gerir mér kleyft að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á húsinu mínu sem ég hef ekki efni á í dag! Nb. sem þýddi að ef ég hefði efni á því að ráðast í endurbæturnar að þá nytu aðrir góðs af ekki satt ég þyrfti nú ekki að fara í Kringluna. Reynum nú að hætta þessum eilífu niðurrifspælingum og förum að leita að raunverulegum lausnum.
Það þýðir ekki að rökræða við samfylkingarmenn- og konur. Sorglegt en satt.
það er sagt að Árna Páli finnist fólk vera fífl ef það er ekki samsinna honum í pólitík. Hann og Mörður eru á öndverðri skoðun varðandi atvinnuuppingu í landinu.
atvinnuuppbyggingu
Mörður,
Ég hélt að 20% leið Framsóknar væri svo auskiljanleg að allt meðalgreint fólk gæti skilið hvernig þett verður gert og svo til að tryggja að hinir gætu skilið það var gerð skýringamynd, en það virðist ekki duga til.
Bara svo eitt sé á hreinu þá munt þú ekki fá sendan tékka til að leika þér í Kringlunni. 30 milljón króna myntkörfulánið mitt stendur núna í ca. 80 milljónum. Hækkunin er til komin vegna óráðsíu örfárra einstaklinga sem ætluðu að sigra heiminn og bankamanna sem kusu að skíta í hreiðrið sitt með því að taka stöðu gegn krónunni. Ég á enga sök á því og 20% niðurfærsla lánsins er ekki nema lítil sárabót sem lánveitandinn getur gefið mér í þakklætisskyni fyrir að fjármagna sukkið. Og eitt sem þú vilt ekki skilja er að það er búið að borga þetta að stærstum hluta með afskriftum. Ég vil fá minn hluta þessara afskrifta takk. Og ég skal lofa þér að ég mun ekki hlaupa í Kringluna til að kaupa flatskjá, heldur eykur þetta líkurnar á að ég geti staðið í skilum með lánið mitt.
xb