Jóhanna Sigurðardóttir að flytja skrifaða ræðu er ekki sérlega spennandi atburður, manni líður soldið einsog það sé 1. maí á árunum kringum 1960 og eftir nokkrar setningar leitar hugurinn eftir kaffi og kleinum. Þetta er einfaldlega Jóhanna, hefur lært þetta í verkalýðshreyfingunni og Alþýðuflokknum þegar hún var lítil og heldur í það af því annað er ekki betra og hún er hún, hvað sem hjálparmenn reyna að segja henni að gera það öðruvísi. Útifundarstíllinn sem Jóhanna lærði í ræðustól virkar reyndar róandi á mann – úr því Jóhanna talar einsog venjulega hlýtur allt að vera einsog það á að vera.
Forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína í gær á hefðbundinn hátt, en þetta var fín ræða, og einmitt stefnuræða þar sem hún lýsti viðhorfum stjórnar sinnar til þeirra vandamála sem nú er við að fást. Skuldakaflinn var góður – einkum í ljósi undanfarinna tíðinda úr VG: Icesave er auðvitað andstyggilegt mál, en þær skuldir koma ekki fyrren eftir sjö ár! Núna er þetta glíman:
* 350 milljarðar vegna halla ríkissjóðs,
* 350 milljarðar vegna lána til að styrkja gjaldeyrisforðann,
* 300 milljarðar til að endurfjármagna banka,
* 150 milljarðar vegna gengisþróunar eldri lána,
* 300 milljarðar til að bjarga Seðlabanka Davíðs frá gjaldþroti – sennilega um það bil helmingur af því sem við verðum að lokum að borga fyrir Icesave.
Bara vaxtakostnaðurinn verður árið 2010 næststærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum, 100 milljarðar.
Til eru þeir sem vilja fara hægar í sakirnar – skera minna niður, lifa á lánum. Þeir eru þá um leið að boða meiri halla á fjárlögum og meiri vaxtagreiðslur í framtíðinni. Jóhanna:
„Þessi bráðavandi hefur ekkert með Icesave að gera og ekkert með Alþjóða-gjaldeyrissjóðinn að gera. Þeir sem því halda fram eru að blekkja fólk. Það er sama hvort Alþjóða-gjaldeyrissjóðurinn er eða fer, sama hvort við borgum Icesave eða ekki. Við verðum að draga mjög hratt úr hallarekstri og skuldasöfnun ríkisins. Fjárhagsleg framtíð barna okkar og komandi kynslóða er í húfi. Glíman við fjárlagahallann á næstu árum snýst um hvort við Íslendingar höldum okkar efnahagslega sjálfstæði eða ekki. Ætlum við tapa þeirri glímu? Nei, segi ég. Ekki á minni vakt.“
Hin leiðin týnd
Svo kom stjórnarandstaðan, Bjarni, Sigmundur Davíð og þessi þrjú sem nú kalla sig hreyfingu – og þetta fólk kvartar auðvitað yfir skattpíningu – sem ríkisstjórnin gerir rangt í að kynna ekki alla strax – og svo yfir Icesave-landráðunum, og hamast á AGS – en þar er engin önnur leiðsögn í boði, engin hin leið sem ætti að fara. Bara að fólk eigi lítið af peningum og skattar séu leiðinlegir.
Nema hjá Sjálfstæðisflokkum – og það verður virkilega spennandi að sjá tillögur Bjarna og félaga þegar þær eru tilbúnar. Hann ætlar ekki að hækka skatta, heldur bjóða útlendingum að fjárfesta og ryðja úr vegi hindrunum – var annars ekki búið að því voða mikið? – og ekki skera neitt niður? Ja, Sjálfstæðisflokkurinn ætlar allavega að koma með tillögur, og það er afar virðingarvert af hálfu stjórnmálaflokks sem á höfundarréttinn að íslenska hruninu. Nú er mikið tekið að setja enskar fyrirsagnir og heiti á allskonar markaðsfrumkvæði – og væri þá ekki sniðugt að tillögurnar hétu til dæmis: Maybe I should have?
Hvar var Ólína?
Vonbrigði kvöldsins var auðvitað að ekkert skyldi heyrast í Liljunum. Ögmundur var víst veikur heima og aðrir neituðu að tala, þannig að fyrir VG fóru í ræðustól bara Steingrímsmenn. En ekki síst úr þessum stað hefði verið fróðlegt að heyra um hina leiðina, það sem á að koma í staðinn fyrir að borga Icesave og vinna með AGS eftir strangri aðhaldsáætlun. Það hefur að vísu glytt í hina hugmyndafræðina á heimasíðu Ögmundar – til dæmis í pistlum Ólínu sem er að verða eitt kunnasta pennanafn íslenskra stjórnmála. Ólína (sem er greinilega ekkert í ætt við nöfnu sína Þorvarðardóttur) gerir stólpagrín að betliferð Steingríms J. til Istanbúls, les Alþjóða-gjaldeyrissjóðnum pistilinn og telur að Icesave sé til skammar fyrir Íslendinga og ríkisstjórnina. Hún vill greinilega „rísa upp“ einsog Ögmundur, en þau hafa að vísu enn ekki sagt okkur nákvæmlega gegn hverju (öðru en „umheiminum“ sem Ömmi er þegar búinn að negla sem helsta andstæðinginn).
Og þessvegna var einsog holur hljómur í ræðumennskunni allri í gær þegar Jóhanna var búin á útifundinum: Það vantaði Ólínu.
Já hann er hræðilegur þessi halli sem Davíð skildi eftir sig í seðlabankanum og lýsir algeru gjaldþroti á þeirri stefnu sem þar var og er enn við lýði, líklega er leitun að annari eins vanhæfni.
Sem betur fer fór hann samt ekki eftir því sem sumir stjórnmálamenn vildu á þessum tíma og stækkaði enn gjaldeyris varasjóðinn með lántökum, það hefði einfaldlega þýtt enn stærra gjaldþrot (gjaldþrot bankanna var óumflýjanleg og bara spurning um tíma).
Það er ekki nóg að skifta um stjórn í seðlabankanum ef hann á ennþá að vinna eftir sömu kenningum (sérstaklega þar sem einn af höfundum stefnunnar er settur yfir).
Held að það sé fullreynt að verðbólgumarkmið eru EKKI málið.
Mörður – það kom maður í manns stað – Álfheiður Ingadóttir.
Út frá þeirri staðreynd skil ég ekki þessa meinhæðni þína. Lítur út eins og þú viljir hjálpa til við að kljúfa VG ? Þar með sprengja ríkisstjórn ?
Mér finnst Samfylkingin ekki skilja að þeir hefðu aldrei – aldrei komist í ríkisstjórn nema fyrir tilstilli VG. Ef VG springa – þá verður hér stjórnarkreppa.
Það er algerlega graf-alvarlegt mál – og væri nú þingmönnum og viðhengjum þeirra, starfandi fólki fyrir flokkana – nær að hlú að þessu ríkisstjórnarsamstarfi.
Ögmundur er að framkvæma skemmdarverk sem mun uppi meðan land er byggt.
Verður hægt að bjóða fram vinstri stjórn aftur næstu áratugina ef hann bregður nú fæti fyrir ríkisstjórnina sem hann hefur þegar veikt mikið?
Er sérstök þörf á því að vinstri stjórnmálamenn bregðist þjóð sinni nú líkt og höfundarflokkar bólunnar og hrunsins (Sfl. og Ffl.) gerðu. Ef stjórnin bregst þá hefur öll stjórnmálastéttin brugðist.
Verst er að maður hefur á tilfinningunni að Ögmundur sé að þessu vegna þess að hann uni Steingrími ekki þess að vaxa í áliti af verkum sínum. Hann er jú að standa sig vel. Allt tal ÖJ um Icesave er um aukaatriði og stríðið við AGS er barnalegt.
Það háði vinstri mönnum einmitt ítrekað á síðustu 50 árunum að egó-pólitík (persónulegur metnaður umfram málefnasamstöðu) milli stórra vinstri leiðtoga var alltaf yfirsterkari því að vinna saman að stjórn landsins.
Afleiðingin var langtíma alræðisvald Sjálfstæðisflokksins.
Ögmundur færir okkur það á ný og slekkur á vinstri pólitíkinni. Hann fær svo að vera eins og Ólafur F, Magnússon í 15 mínútur í staðinn. En fljótlega mun Sfl. sturta honum niður í dýpstu ræsin.
Það er kaldhæðnislegt að allt þetta gerðist á vakt Samfylkingarinnar, sem ver sig með stjórnmálalegri teflonhúð.
En skoðum nú aðeins tölur Jóhönnu:
* 350 milljarðar vegna halla ríkissjóðs. Þetta eru innlendar skuldir. Og þarmeð undir okkar kontról.
* 350 milljarðar vegna lána til að styrkja gjaldeyrisforðann. Hvaða lán er verið að tala um? Er þetta eitthvað sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjalla tók? Er búið að ráðstafa þessu? Hver gerði það?
* 300 milljarðar til að endurfjármagna banka. Hefur Alþingi fjallað um þetta? Er búið að ráðstafa þessum fjármunum?
* 150 milljarðar vegna gengisþróunar eldri lána. Hvaða lán er verið að tala um? Hvenær voru þau tekin?
* 300 milljarðar til að bjarga Seðlabanka Davíðs frá gjaldþroti – sennilega um það bil helmingur af því sem við þurfum að lolkum að greiða útaf Icesave. Eru þetta innlend lán?
Hvað er svona vinstri sinnað við Samfylkinguna?
Það er rangt að ice-save hafi ekki áhrif. Það hefur margvísleg óbein áhrif. Hryðjuverkalögin t.d. sem bitnaði strax á Íslendingum og svo má nefna óbein áhrif í sambandi við lánstraust. Þegar maður leysist undan kúgun þá kemur þér margt á óvart hvað er í raun í boði.
Mikilvægur punktur sem marat bendir á og góðar spurningar. Það er eins og menn átti sig ekki muninum á skuldum í islenskum krónum annars vegar og hins vegar í erlendri mynt.
Það er leikandi létt að fjármagna fjárlagahallann og skuldir seðlabankans, eins og Bretar og Kaninn vita. Í dag er það kallað quantitative easing en venjulega er talað um að prenta peninga. Skuld ríkisins í ísl. krónum mun aldrei ógna þjóðhagslegu öryggi landsins. Seðlabankar og fjármálakerfið er mikið hókus pókus apparat; skuldir og peningar eru búnir til úr engu og að sama skapi er hægt að eyða skuldum með því að veifa töfrasprotanum.
Skuld í erlendri mynt er önnur saga. Við getum ekki prentað dollara, pund eða evrur. Að þessu leyti er Icesave skuldin sambærileg og skuld Þjóðverja eftir Fyrri heimstyrjöldina. Þjóðverjar skulduðu gull sem þeir gátu ekki galdrað fram. Við eigum að afþakka allar erlendar skuldir og fara að dæmi Breta og Bandaríkjanna sem beita töfrum seðlabankanna til þess að koma sér undan skuldafarginu. Afnám verðtryggingar og verðbólga er auðveldasta leiðin út úr þessu. Erlendar skuldir eru ekki lausn.
Rétt Kristján Torfi. Það þarf að skipta skuldum í flokka eftir eðli. Eins væri gott að taka upp þann sið að fjalla um málin á Alþingi ÁÐUR en ákvarðanir eru teknar. Ennfremur væri gott að Samfylkingarmenn lærðu að axla ábyrgð. Þeir þykjast ábyrgir vegna þess að þeir vilja láta börnin sín borga Icesave, en vilja ekki gangast við verkum sínum úr fyrri ríkisstjórnum. Þessi flokkur er ekki stjórntækur.
,,Seðlabankar og fjármálakerfið er mikið hókus pókus apparat; skuldir og peningar eru búnir til úr engu og að sama skapi er hægt að eyða skuldum með því að veifa töfrasprotanum.“
Þeir sem halda þetta — það er ekki nema von að þeir vilji ,,afþakka erlendar skuldir“. Verst að þessi vúdú-hagfræði er ekki bara í kollinum á Marat og Kristjáni Torfa heldur tala heilu stjórnmálaflokkarnir á alþingi Íslendinga á svipuðum nótum.
Eigum við þá ,,bara“ að bjóðast til að borga útlendingum í íslenskum krónum, og hefja svo seðlaprentun? Hver semur við slíkt fólk?
Hver er að segja að það eigi að bjóðast til að borga útlendingum í íslenskum krónum?
Ég er einmitt að benda á að það er eðlismunur á skuldbindingum í íslenskum krónum og skuldbindingum í gjaldeyri.
Hvað ert þú að meina? Sérðu ekki muninn á þessu tvennu? Hefurðu kannski ekki hugsað útí það?
Því miður er hvorki fiat-peningakerfið né bankakerfi með takmarkaðri bindiskyldu eingöngu hugarburður minn, marats eða heilu stjórnmálaflokkanna. Þetta er veruleikinn – kerfið sem er hrunið (þú mátt halda áfram í þinn heimóttarskap og skrifa herlegheitin á „Seðlabanka Davíðs“), kerfið sem Samfylkingin með „skuldbindingum sín við alþjóðasamfélagið“ ætlar að verja fram í rauðan dauðann.
Og það er ekki eingöngu ég sem tala um seðlaprentun. Stýrivextir í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum eru rétt yfir núllinu sem jafngildir seðlaprentun, auk þess sem seðlabankar þessara svæða kaupa nú ríkisskuldabréf í gríð og erg sem er grímulaus seðlaprentun þrátt fyrir tækni-jargonið.
Paul Krugman er ómyrkur í máli þegar hann talar um að fjárlagahalli BNA verði greiddur niður með verðbólgu eða það sem þeir kalla „monetization“.
Þú ættir kannski að eyða meiri tíma í að kynna þér fjármálakerfið sem þú ert tilbúinn að fórna svo miklu fyrir. Þú gætir t.d. eytt minni tíma í fimmaurabrandara og hugsað aðeins lengra en til næsta prófkjörs. Hver veit, kannski kemurðu auga á fleiri lausnir sem þær sem hægt að skammstafa sbr. ESB og AGS.
EkkertSemBýðst. AlvegGlötuðStaða.