Fréttir af fundinum hjá VG í gær eru þær að allir eru vinir. Niðurstaðan er að hætta að rífast í fjölmiðlum og halda áfram að styðja fyrstu ríkisstjórn vinstriflokka í sögunni – en að öðru leyti er allt við það sama: Liljuhópurinn situr við sinn keip og lofar engu nema skoða stjórnarfrumvörp þegar þau berast inn í þingið. Um helsta átakamálið – Icesave – er allt einsog var, og eins víst að um það verði á næstunni hafðar í frammi einhverjar þær æfingar með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki sem enn tefji fyrir endurreisnarstarfi og enn veiki kraft og samloðun í stjórnarsamstarfinu.
Þingflokksfundur VG í gær virðist staðfesta að í raun situr hér við völd þriggja flokka stjórn. Eftir ráðherraskiptin í heilbrigðisráðuneytinu um daginn hefur staða hennar hinsvegar breyst þannig að tveir af stjórnarflokkunum eiga ráðherra í ríkisstjórninni en hinn þriðji styður hana frá máli til máls í þinginu.
Þriðji flokkurinn virðist ekki bundinn af neinskonar samkomulagi um að öflin sem að stjórninni standa nái niðurstöðu sín á milli um stærstu drætti í einstökum málum, heldur telur sig geta samið við stjórnarandstöðuflokkana – í nafni lýðræðis og þingveldis (nýyrði, afþví þingræði merkir annað) – hvenær sem er og stillt hinum stjórnarflokkunum tveimur upp frammi fyrir slíkri niðurstöðu.
Óljóst er hvað Liljuflokkurinn mundi gera ef hinir tveir reyndu að ná þingmeirihluta án hans, með einum af stjórnarandstöðuflokkunum eða einhverju öðru safni þingmanna. Líklega væri þá lokið hinum svokallaða stuðningi.
Ríkisstjórnin er þessvegna að sumu leyti verr sett en hefðbundin minnihlutastjórn einsog við þekkjum þær í grannlöndunum. Slík stjórn býr sér til meirihluta hverju sinni, og fellur ella, stundum með þessum flokki eða flokkum, stundum með hinum. Þessi stjórn þarf hinsvegar alltaf að tala fyrst við Liljurnar.
Marx sagði að hugmyndafræði fylgdi á eftir hagsmununum – og þessi sérkennilega staða Liljanna hefur þá réttlætingu að hér hafi framkvæmdavaldið nógu lengi kúgað löggjafann, og einmitt núna sé rétti tíminn til að fara í hinar öfgarnar.
Á meðan skellihlæja forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þar sem sjónvarpsvélarnar sjá ekki til.
Annar hugmyndagrunnur
Þetta er nógu djöfullegt – en undanfarna daga hefur líka komið skýrt í ljós að stjórnarflokkarnir þrír virðast byggja afstöðu sína til hinna erfiðu verkefna framundan á ólíkum hugmyndagrunni.
Annarsvegar eru Samfylkingin og Steingrímsmeirihlutinn í VG, sem vilja klára Icesave, vinna með AGS og grannþjóðum, endurreisa bankakerfi og atvinnulíf, færa fórnirnar strax en verja um leið það sem mestu skiptir í samfélaginu. Umbætur í stjórnkerfi og viðskiptalífi en byggja áfram á nánu alþjóðlegu samstarfi um viðskipti og pólitík. Og svo vill Samfylkingin ESB en hinir ekki – ennþá að minnsta kosti.
Liljurnar telja hinsvegar að ekki eigi að leggja áherslu á samskiptin við útlönd, láta skeika að sköpuðu með Icesave, hætta AGS-samstarfinu, skera minna niður en safna meiri skuldum (hvar? Ja, til dæmis í Noregi …), hætta tilraunum til að styrkja krónuna með lánum í gjaldeyrisforðann, sætta sig þarmeð við frekari gengislækkun krónunnar og mæta lífskjararýrnun með auknum sjálfsþurftarbúskap og höftum. Eftir sosum tíu ár fari svo að sjá til sólar á Splunkunýja Íslandi.
Sverrir Jakobsson benti á það í snjallri grein í Fréttablaðinu í gær að hávær útlendingaandúð og fórnarlambakenningar væru í raun í þráðbeinu framhaldi af belgingi og útrásarblaðskellum góðærisáranna, þjóðrembupólitík þeirra sem enn eru ekki orðnir edrú – og þurfa sumir að sækja sér kraft í draumaheim villta vinstrisins með hjartastyrkjandi samsæriskenningum og sefjandi besservisserfræðum. Einnig hér eru hugmyndaleg skil milli Liljanna og hinna stjórnarflokkanna tveggja.
Og þessi tvennskonar pólitísk grunnhugsun er satt að segja meira áhyggjuefni fyrir ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur en persónuleg píslarvættisköst einstakra þingmanna. Ríkisstjórn á okkar einstæðu tímum – hverjir sem hana mynda – þarf að vera alveg klár á því hvert hún er að fara, og þingmeirihluti hennar verður að vera sammála um leiðarlýsinguna hvað sem einstökum áfangastöðum líður.
Dagur í senn
Og á þá ekki svona stjórn að fara frá? Það er erfitt fyrir einlægan stuðningsmann þessarar ríkisstjórnar að svara þessu játandi: Jú, undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætti hún að gera það. Kringumstæðurnar eru hinsvegar ekki eðlilegar. Engin leið er í boði út úr vandanum önnur en sú sem ríkisstjórnin er að feta, að minnsta kosti meðan ekki myndast nýr meirihluti Lilja, Framsóknar og Sjalla um kartöflugarðastefnuna. Svokölluð þjóðstjórn – eða einhver önnur útgáfa af samstjórn S og D – er í fyrsta lagi tímaskekkja ári eftir hrun, og leysir í öðru lagi ekki vandann nema Sjálfstæðisflokkurinn breyti um stefnu gagnvart Icesave, AGS, fjárlögunum, velferðarþjónustunni og ESB. Það er heldur ekki líklegt að kosningar næstu mánuði mundu breyta aðstæðum – og ef þessi stjórn fokkast upp virðist raunhæfasti kosturinn af mörgum óraunhæfum vera einhverskonar utanþingsstjórn – sem væntanlega mundi í aðalatriðum hafa sömu stefnu og sú sem nú situr!
Hlutverk ríkisstjórnarinnar er með öðrum orðum svo mikilvægt að hún verður að reyna áfram, taka einn dag í einu einsog í AA, og missa samt ekki sjónar á markinu.
Þetta eru hinsvegar mikil vonbrigði fyrir stuðningsmenn stjórnarinnar – þann meirihluta kjósenda sem bjó hana til. Gagnvart öllu því fólki ber ábyrgð hver einasti þingmaður stjórnarflokkanna.
Þetta er mjög góð grein hjá þér Mörður.
Takk fyrir það.
Það er afar mikilvægt að fólk sjái hlutina eins og þeir eru, því villandi skrum og fals er allt um lykjandi, ekki síst hjá stjórnarandstöðufólkinu.
Tek undir með Bjarna Sig. Takk fyrir áhugaverðan pistil.
Frábær grein ! Liljurnar og Ögmundur eru föst í lýðskrumsvef formanns Framsóknarflokksins, það er frekar ömurlegur félagsskapur…
Samkvæmt könnunum er Sj.flokkurinn að bæta við sig fylgi sem segir að kjánaháttur íslendinga er algerlega án takmarkana, algerlega botnlaus, og þeir eru algerlega ófærir um að tengja augljósustu orsakaþætti við afleiðingar. Þegar Dvið Oddson stendur beint fyrir framan þá og hellir úr kamarfötunni yfir hausana og gefur sér síðan góðan tíma í að maka vel þá færist aulalegur furðusvipurinn yfir andlitin og síðan er tautað;
Það sem ég hata helv. bretana.
Afhverju heldur fólk að eitthvað hafi breyst hjá Frammso og Sj.stæðis
Afhverju ætti eitthvað að breytast?
Það þarf ekki, ekki einu sinni í plati.
Það er alger óþarfi. Íslendingum líður bara best á hnjánum með þennan söfnuð upp fyrir haus í sérhagsmunagæslunni
Skilur fólk ekki að það er eitthvað mjög mikið að hjá okkur sjálfum.
Þessi heimska er eitthvað svo óendanlega sorgleg.
Fólk verður að fara að skilja að nú er sá tími runninn upp þegar við tökum alla sérhagsmuna gæslu á Alþingi og í ríkisstjórn og köstum henni á haugana. Mótmælum með í hvert einasta skipti sem lúðaleppar tjá sig,
skýr skilaboð til LIU að nú eigi þið að þegja, osfv.
Að setja almenna hagsmuni alltaf á oddinn. Alltaf, Alltaf.
Arðinn af auðlindum okkar í sameiginlega sjóði.
Og áfram þennan veg.
Flóknara er þetta nú ekki
Allt satt og rétt þarna Mörður. Eftir situr spurningin hvað gerist þá og þegar fjármálaráðherra leggur fram Icesaveábyrgðina fram á Alþingi? Ekki getur hann beiðið lengi eftir því? Og hvað svo ef ekki er þingmeirihluti? Fyrir mér er það sjálfhætt ef slíkt frumvarp er fellt.
Kærar þakkir, félagi. Hef verið að hugsa svipaða hluti sjálfur og viðrað það á Fasbók. Held kannski að endirinn verði, eftir nokkra snúninga enn: xS, Grímsflokkur og (xD eða xB).
Mér er algerlega óskiljanlegt hvernig ÖJ spilar til stjórnarandstöðunnar sem launar honum með prettum og klækjum.
Sammála síðasta ræðumanni (þ.e. föður mínum). Afar skörp og rétt greining hjá þér, Mörður.
Er ekki bara nýtt þingbandalag í uppsiglingu: Liljuarmur VG, Hreyfingin og Framsókn?
Þó svo að Siv og Birkir Jón séu ennþá með ansi gamlan hreim á Ný Framsóknar talíbönskunni…?
Bendi á að það var Samfylkingin sem tók upp þessa leið með skattaafslætti til álversins í Helguvík þar sem fenginn var stuðningur stjórnarandstöðuþingmanna til að koma máli í gegn sem VG var á móti. Það varð þá niðurstaðan að eðlilegt væri að þingið kæmist stundum að annarri niðurstöðu en báðir þingflokkar ríkisstjórnarinnar væru sammála. Þessi niðurstaða var í samræmi við hugmyndir fólks um aukið vægi þingsins og að það ætti að vera meirihluti þingsins sem réði niðurstöðunni í sérhverju máli.
Einnig skal bennt á að í ESB-málinu sótti Samfylkingin stuðning sinn til hægri til að koma því máli í gegn og ekki hefur það valdið neinum stjórnarslitshótunum frá VG. Svo skal taka eftir að þetta er ekki sami hópurinn sem var á móti ESB (hvorki Ögmundur né Liljurnar voru á móti aðildarumsókninni) og Icesave og því ekki rétt að tala um að þetta séu tveir hópar í VG. VG er hinsvegar flokkur þar sem þingmennirnir komast ekki alltaf að sömu niðustöðu í málum. Það er ekki að fara að breytast. VG er hinsvegar einn flokkur á sama hátt og Samfylkingin er einn flokkur þó að ekki séu allir á eitt sáttir við hugmyndir um auðlyndaskatt í formi rafmagnshækkunar jafnvel meðal ráðherra flokksins.
Hvað sem öllu líður eru bæði Icesave og ESB frá þinginu og við verðum að sætta okkur við þá lendingu sem þar varð hvað sem okkur finnst svo annars um hana og lifa við afleiðingar þeirra. Eigi að taka þessar ákvarðanir upp á þinginu í ljósi þess að fólk kunni að hafa skipt um skoðun frá því fyrir nokkrum vikum síðan er hætt við að slíkar kröfur geti komið um allar stærri ákvarðanir sem við eigum eftir að taka á komandi mánuðum og árum sem gerir það að verkum að við komumst aldrei áfram. Sitjum bara og spólum í sama farinu ófær um að taka ákvarðanir.
Finnst samt gott að heyra að þið séuð ekki í alvörunni að hugsa um að sprengja stjórnina, því það er í raun enginn raunhæfur valkostur við hana. Stjórnarandstaðan er ekki tilbúin til að taka við og það er engu líklegra að utanþingsstjórn ætti neitt auðveldara með að koma sínum málum gegnum þingið nema hún sendi þingið bara heim og reyni að stýra landinu með neyðarlögum.
Án þess að það hafi komið formlega fram eða sé á nokkurn hátt staðfest þá vil ég samt halda því fram að andóf uppreisnarhópsins í VG tengist því stöðva frekari gjaldeyrislántökur, miklu fremur en að andstaðan sé gegn Icesave sem slíku. Það er öllum ljóst að engar virkjanir eða álver verða byggð á Íslandi nema tilkomi mikill gjaldeyrisvarasjóður og að traust erlendra lánastofnana aukist.
Takist uppreisnarhópum að þvinga fram breyttar áherslur og lengri aðlögunartíma án lána frá AGS þá er markmiðinu náð.
Búið er þá að kaupa tíma til að ná vopnum í baráttunni við hinn þunga straum frá virkjanasinnum.
Samfylkingin er nefnilega enn að daðra við álver og virkjanir sem aldrei fyrr, nú síðast kom fram harðorð gagnrýni m.a. frá Björgvini G. vegna ákvörðunar Svandísar um raflínur á Reykjanesi.
Við okkur, sem stöndum utan við þennan leik allan, blasir við hálf geðklofin ríkisstjórn.
Samfylkingin reynir að knýja fram allt sem henni þóknast (þar með talið stóriðjustefnu) en VG berjast innbyrðis um hvort gefa eigi eftir eða láta sverfa til stáls.
Þetta gengur auðvitað ekki lengur.
Mín skoðun er sú að vandamál þessarar ríkisstjórnar sé í raun kamelljónseðli Samfylkingar fremur en einngrunarhyggja VG fólks.
Reyndar kemur hvoru tveggja sterklega til greina.
Góð greinig – eins og ljósmynd- segir allt . Takk fyrir pistilinn.
Frábær pistill.
4flokkurinn og flestir stjórnmálamenn eru búnir að vera. Það verður eitthvað að breytast!
„Jú, undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætti hún að gera það.“ – Þessu er ég raunar ekki sammála.
Meðal margra siðmenntaða þjóða, t.d. í Noregi, hafa minnihlutastjórnir verið við völd árum saman. Það er aðeins á Íslandi sem þykir sjálfsagt að alltaf ríki meirihlutastjórn.
Er minnihlutastjórn alltaf veikari en meirihlutastjórn? Nei, hún getur einmitt verið mjög sterk þegar þingmeirihlutinn sem ekki styður hana er sundraður að öðru leyti. Hún þarf að vísu að semja við stjórnarandstöðuflokk hverju sinni en er það ekki bara gott og styrkir lýðræðið?
Á Íslandi hafa ríkt ýmsar ríkisstjórnir með risavaxinn meirihluta sem reyndust fallvaltar, bæði hægri- og vinstristjórnir. Þessi gæti lifað lengi þó að einn „flokkurinn“ sem styður hana í orði kveðnu hætti stuðningi.
Góð grein en þú skautar fram hjá aðalatriðinu. Krafa þjóðarinnar um stjórnlagaþing felur í sér kröfu um meira gagnsæi, meira þingræði og minna ráðherraræði. Það eru svo stór mál sem bíða afgreiðslu þingsins að um þau þarf að nást breiðari samstaða en einfaldur meirihluti. Þjóðin vill samstarf sem flestra fulltrúa á þingi og hún vill ekki einræðis eða valdstjórnarhroka gamla Íslands. Látum á þetta reyna og hættum að hræða og kúga þingmenn til hlýðni. Ég er kannski einfaldur og trúgjarn en ég held að þingmenn komi uppúr skotgröfunum þegar á þarf að halda og á ég þar ekki síður við þá sem standa utan stjórnarflokkanna. Minni á að enginn flokkur hefur icesave á stefnuskránni og enginn hefur AGS á stefnuskránni. Þessvegna leyfist öllum að hafa sínar persónulegu skoðanir án þess að vera sakaðir um svik eins og nú er reynt að gera
Jóhann Kristjánsson hittir naglann á höfuðið. Greining Marðar er ágæt útfrá hefðundnum taktískum stjórnmálafræðum, en veitir ekki athygli raunverulegum málefnaágreiningi.
Vandamálið er það að Samfylkingin er hægri flokkur, sem þorir ekki útúr skápnum, af ótta við að kjósendur hennar, sem talið er trú um hið gagnstæða, bregðist illa við.
kjósendur sína
Virkilega flott grein!
Rétt hjá þér Mörður. Hugmyndafræði andæfenda er sérstök og hún er líka langrækin. Flokkar andæfenda eiga oft erfitt með samstarf og sérstaklega stjórnarsamstarf. Systurflokkur VG í Noregi, SV, beið afhroð í kosningunum í september og uppsker eftir því í áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Það setti svip á stjórnarsamstarfið til að byrja með að þingmenn SV fylktu sér með liðsafla sem mótmælti ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Það var líka einkennandi að SV var eiginlega alltaf á móti einhverju. Sósíaldemókratarnir voru hinsvegar með málum og þá féll SV í skuggann. Það virðist sem SV hafi lært eitthvað. Flokkurinn ætlar að halda áfram í ríkisstjórn þó svo að „rúllað hafi verið yfir málaflokka hans“, eins og fréttaskýrendur segja. Það er kanski eftir einhverju öðru að slægjast og hægt að hafa meiri áhrif í stjórn en utan. VG gætu kanski lært eitthvað af norska SV. En kanski er útlendingaandúðin að þvælast fyrir!
Skemmtilega skarpur.
Var sjálfur búinn að blogga í áttina http://blogg.visir.is/bensi
Þriggja flokka stjórn með VG + (en ég held samt að Liljurnar séu ekki einn og sami flokkurinn)
Í fyrsta lagi, þykir þér virkilega ekkert athugavert við það ef fólk vill ekki lofa að styðja stjórnarfrumvörp sem það hefur ekki séð og veit ekki hvað kveða nákvæmlega á um? Sérstaklega í jafn stóru máli og Icesave-málinu? Hvernig var það með þig þegar þú varst á þingi? Varstu algerlega laus við sjálfstæða skoðanamyndun og lézt aðra taka allar ákvarðanir fyrir þig?
Í annan stað, hvað með þá fjölmörgu kjósendur VG sem kusu flokkinn vegna þess að þeir vildu ekki samstarf við AGS, vildu ekki að bugtað væri fyrir brezkum og hollenzkum stjórnvöldum og vildu ekki að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið? Bera engir þingmenn stjórnarinnar ábyrgð gagnvart þeim? Eru það einhvers konar annars flokks kjósendur með minni réttindi að þínu mati bara vegna þess að þeir eru þér ekki sammála?
Athyglisvert hvernig Héðinn Björnsson og Jóhannes Laxdal blanda saman afstöðu til einstakra verkefna í orkumálum annars vegar og hins vegar grundvallaratriðum á borð við að framfylgja þeirri áætlun um endurreisn og stöðugleika í efnahagsmálum sem þessi ríkisstjórn er stofnuð utan um.
Þetta virðist vera samsláttur af sama tagi og þegar andstæðingar ESB aðildar reyna stöðugt að nýta tilfinningar í garð Icesavesamninga og Breta og Hollendinga til að espa andúð gegn ESB.
Í fyrsta lagi voru heimildarlög um gerð fjárfestingarsamnings vegna álvers í Helguvík afgreidd í tíð minnihlutastjórnar Samfylkingar og VG enda hluti af þegar ákveðnum framkvæmdum sem taldar voru upp sem hluti af þeirri atvinnuupbyggingu sem hér yrði á næstu árum. Þetta verkefni er svo listað sérstaklega sem hluti af Stöðugleikasáttmála meirihlutastjórnarinnar við aðila á vinnumarkaði og þar með hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar sem henni ber að vinna að.
Í öðru lagi væri það einhver ábyrgðalausasta afstaða sem sést hefur í stjórnmálum ef hugmyndin er að stöðva áætlun um endurreisn efnahagslífsins til að tryggja að þar með hafi Ísland hvorki fjárhagslega burði né aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum til að stunda einhverja þá atvinnuuppbyggingu sem er óæskileg í huga einhverra þingmanna.
Við eigum auðvitað að ræða auðlindanýtingastefnu sér og um hana eru raunar ákvæði í stjórnarsáttmála. Það er málstað umhverfisverndar ekki til framdráttar að tengja hann einangrunarhyggju, langvarandi kreppu og fátækt. Það er raunar nákvæmlega það sem hörðustu virkjunarsinnar gera gjarnan og sorglegt ef náttúruverndarfólk ætlar að staðfesta þá tengingu.
Í því sambandi má benda á að ef okkur tækist að lengja og dýpka kreppuna verulega eru allar líkur á að mikið drægi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum auk þess sem mun minni einkaneysla væri jákvæð gagnvart náttúrurauðlindum heimsins í heild. Margt sem nú þykir sjálfsagt yrði munaðarvara.
Hjörtur: Mörður er einmitt gangandi dæmi um þingmann með sjálfstæðar skoðanir. Eitt sinn á flokkstjórnarfundi (okt 08) stytti hann ræðu sína vegna þess að hann var að fara á Austurvöll að berja búsáhöld. Minni á að í sáttmála SF og Vg. er klárlega sagt að afgreiða skuli AGS málið – strax.
Það er enginn vafi á því, að andófshópurinn í VG undir forystu Ögmundar Jónassonar hefur styrkt stöðu flokksins í stjórnarsamstarfinu. Tilhneiging Samfylkingar í stjórnarsamstarfi til þess að leiða mál til lykta með hótunum og stóryrtum yfirlýsingum í fjölmiðlum og af tröppum Þjóðleikhússins munu fyrr en síðar skaða Samfylkinguna og gera hana lítt eftirsóknarverða til samstarfs.
Fyrir VG var nauðsynlegt að staldra við, skoða gömlu góðu stefnuskrána , huga að grasrótinni og því háværa skrafi meðal almennings, að flokkurinn væri orðinn taglhnýtingur sem léti vel að stjórn forsætisráðherra, reiðubúinn til að fórna öllum sínum gildum til þess eins að halda í drauminn um svokallaða vinstri stjórn. Það var af þessum ástæðum sem öfl innan flokksins sögðu hingað og ekki lengra. Stjórnarsamstarfið skal vera á jafnréttisgrundvelli og frávik frá því verða ekki þoluð.
Og hverju hefur andófshópurinn áorkað? Staða VG er sterkari en fyrir í stjórnarsamstarfinu og nýtur formaður flokksins góðs af því. Hræðsla hefur gripið um sig innan Samfylkingar og óttinn við að verða sett út á guð og gaddinn er áþreifanlegur. Málflutningur Jóhönnu hefur breyst og ekki síst hefur utanríkisráðherrann tekið kipp. Hörð gagnrýni hans á Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðinn og Breta og Hollendinga vegna Icesave síðustu dagana eru til merkis um það og eru ummæli hans mjög í anda Ögmundar. Menn skulu því fara varlega í það að túlka gerðir andófshópsins innan VG. Það er ekki allt sem sýnist. Það ætti refur eins og Mörður að vita manna best.
Þú segir réttilega: „Þessi stjórn þarf hinsvegar alltaf að tala fyrst við Liljurnar.“ En því miður hefur þessi fábjána stjórn ekki vit á því að „hlusta á raddir þeirra“ heldur er verkstjórn Jóhönnu svo léleg að annað eins hefur ekki sést síðan „ekki meir Geir & Solla stirða voru upp í brú þjóðarskútunnar.“ Í raun má segja að heilt ár hafi meira & minna farið í súginn af því að „verkstjórn Samspillingarinnar er í molum“ – lýðskrum & klækjastjórnmál, það tengi ég við X-S.
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Ríkisstjórnin á nú að setja sér markmið í samningum við Breta og Hollendinga um fyrirvarar Alþingis við Icesave-samninginn, hvaða fyrirvarar eiga nauðsynlega að standa og semja út frá því. Ef viðunandi samningar nást þá á að leggja stjórnarfrumvarp fyrir Alþingi og þá reynir á þingmenn stjórnarinnar hvort þeir vilji að stjórnin standi eða falli. Þeir þingmenn sem vilja fella frumvarpið og stjórnina, verða að vera tilbúnir með lausnir út úr vandanum og geta myndað starfshæfa ríkisstjórn sem gæti unnið saman, og er það algjör skylda.
Varðandi ESB þá virðist vera búið að „eitra brunninn“ eins og sagt er í Ameríku. Stjórnarandstöðunni hefur tekist að telja ótrúlega mörgum Íslendingum trú um að allt okkar ólán sé vondum útlendingum að kenna. Í slíku andrúmslofti er afar ólíklegt að ESB aðild fáist samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu og málið virðist einkum til þess fallið að koma óorði á Samfylkinguna. Stjórnarandstaðan segir Samfylkinguna til í að gera Íslendinga að þrælum útlendinga (gegnum Icesave) í skiptum fyrir ESB aðild og þessi áróður virðist ganga vel.
Í þessum aðstæðum er spurning hvort ekki sé rétt að draga úr áherslu á aðildarumsókn og líka að hugleiða að slíta stjórnarsamstarfi og þannig neyða D og B til að koma fram með sínar lausnir ef einhverjar eru. Þótt núverandi stjórnarmynstur virðist kannski „það eina í stöðunni“ hefur það þann galla að þetta er valdalaus stjórn sem getur ekki leyst þau mál sem þarf að leysa. Stjórnarflokkarnir eru þess vegna varla að gera þjóðinni neinn greiða með því að hanga áfram og þeir eru örugglega að skaða eigin orðspor verulega.
Jú, held þetta sé rétt greining hjá Merði.
En með þennan Lilju arm þá er eiginlega það versta við hann að ekki er heil brú í málflutningi umrædds arms. Það er það versta. Eg veit ekkert hvert armurinn er að fara í málflutningi sínum og efa ég stórlega að þau skilji það sjálf.
Og auðvitað skellihlæja sjallar og frammarar að einfeldni þeirra.
Burtséð frá þeim undirskilda stuðningi við valdapótitík og ofríki framkvæmdarvalds sem felst í þessum orðum Marðar og annarra í vinstri-intelligentisiunni vinstra megin í Samfó og flokkseigenda megin í VG finnst mér svolítið falskur tónn hjá Merði og öðrum slíkum, t.d. Sverri Jakobssyni. Ef litið er yfir bakgrunn þessa fólks og annarra Samfó-fólks (eins og reyndar löngum Framsóknarbænda og Sjálfstæðislögfræðinga) þá þætti mér ekki ólíklegt að út úr kæmi því stór hópur heimalninga.
Þau, sem nú eru sökuð um þjóðrembu, populisma og grunnhyggni (eins og t.d. Ögmundur, Liljurnar tvær og t.d. Sigmundur Davíð) hafa hins vegar oftar en ekki búið, unnið og stúderað árum saman erlendis!
Eru það ekki bara heimalningarnir sem halda að allt sé gott að utan?
Mörður, þessi skipting þín í arma VG er vægast sagt barnaleg. Þú lætur liggja að því að „Lilju armurinn“ séu dæmigerðir dalakofasósíalistar, sem vilji ekkert með alþjóðleg samskipti gera og líti á alla útlendinga sem óvini. Það eru til dalakofasósíalistar í VG, en það eru allavega ekki Liljurnar tvær! Þetta er sérstaklega sérkennilegt þar sem Liljurnar tvær hafa verið þeir þingmenn VG sem jákvæðastir hafa verið við að líta á ESB aðild! Það veist þú jafn vel og ég. Menn eru einfaldlega hræddir við Icesave samninginn og vilja ekki láta troða upp á okkur samningum sem við ráðum ekki við bara til þess að þóknast ESB í þeirri von um að við fáum aðgang þar eins og því miður virðist vera lenska hjá Samfylkingarmönnum. Efasemdirnar um Icesave eru alvöru efasemdir sem hafa ekkert með „útlendingahatur“ eða afdalamennsku að gera. Sama má segja um efasemdirnar um AGS. Lilja Mósesdóttir er hagfræðingur sem hefur skoðað Icesave samninginn ítarlega. Báðar Liljurnar eru menntaðar í Bandaríkjunum og Bretlandi, Lilja með doktorsgráðu í hagfræði frá UMIST í Manchester og Guðfríður Lilja menntuð í Harvard og Cambridge. Er það dæmigerður „pedigree“ fyrir einangrunarsinna? Hlustaðu líka á Samfylkingarmenn eins og Eirík Bermann og gamla pólitíska andstæðing minn úr stúdentapólitíkinni og núverandi stuðningsmann Samfylkingarinnar, Ólaf Arnarson, sem báðir eru harðir ESB sinnar en mjög skeptískir á AGS og Icesave samninginn. Eru þeir líka „dalakofasósíalistar“? Ég sjálfur er harður alþjóðasinni og hef lítinn tíma fyrir einangrunarstefnu eða þjóðarrembing. Samt vil ég AGS út og vill ekki taka við hverju sem er varðandi Icesave. Heimurinn er ekki svona einfaldur Mörður.
Takk fyrir frábæra grein!
Leiðist sumum í þessarri ríkisstjórn?
Sæll Mörður og þakkir fyrir frábæra grein og greiningu.
Þetta er nákvæmlega eins og ég og félagar mínir margir hér á Skaganum höfum greint þetta. Munurinn er samt sá að við viljum út úr þessari stjórn. Stjórn sem hefur ekki fylgi aðstandenda sinna ber dauðann í sér og kemur engum málum fram. Því er hún ónýt og á að leggja niður störf.
Það verður þó að gerast málefnalega. Það er gert með því að leggja fram Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar og láta Liljukórinn fella það ef þau vilja. Í framhaldi af því biður Jóhanna um lausn fyrir sig og ráðuneyti sitt. Einfalt og klárt og menn axla þar með ábyrgð á afstöðu sinni.
Eru menn ekki að ofmeta Liljurnar eru þær jafn góðar í spilum og af er látið. Hvernig væri að láta þær standa við slagina sína og taka hlutina þaðan.
Halda áfram með málið fyrir Alþingi setja það á dagskrá að koma bastarðinum í fóstur næstu sjö árin. Ef Liljurnar segja NEI þá er spilið búið. Þá eru tveir kostir, einhverjir úr stjórnarandstöðunni ganga til liðs við ríkisstjórninna og verja hana falli eða – ný stjórn og nýr kapall.
Ef málið er ný stjórn þá á Samfylkinginn að setja slíkar kröfur að hún fái sínu framgegnt eða endi í stjórnarandstöðu, helst stjórnarandstöðu og bíða eftir að popparar fremji sín pólitísku sjálfsmorð. Þetta er tími skítverka og til þeirra þarf sterkt bakland og eini flokkurinn með óklofið bakland er Samfylkingin.
Völd og þeir ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka núna munu fara illa með ótrygga flokka. Alþýðuflokkurinn í Viðeyjarstjórninni, Framsókn seinasta kjörtímabilið og Borgarahreyfinginn þoldi ekki einu sinni Alþingi. Þegar forystan er ung og óreynd þá er líklegt að mistök verði gerð og völd þá í raun bjarnargreiði. Aðrir flokkar eiga ekkert inni hjá Samfylkingunni.