Mánudagur 07.12.2009 - 15:55 - 6 ummæli

Þingeyska leiðin á Reykjanesskaga

Ekkert að frétta af hinu glæsta álveri við Helguvík nema enginn svarar þrálátum spurningum um orkuöflun fyrir fullbúið 360 þúsund tonna ver sem notar 630 MW (Fjarðaál 346 þ.t., 690 MW).

Og þrenn umhverfissamtök, þar á meðal Græna netið, hafa kært úrskurðinn um Suðvesturlínu, þannig að ekki er bitið enn úr þeirri nálinni. Það er þó lítil töf í stóra samhenginu.

Gallinn við þessi áform hefur frá upphafi verið sá að þau veltast áfram á hagsmunum eða vandræðum einstakra aðila í málinu – það eru meintir byggðahagsmunir, sölumennska orkufyrirtækja (OR, HS), pólitísk staða einstaklinga (Árni Sigfússon og áður Mathiesen), stjórnmálaflokkar undir þrýstingi (Samfylkingin, VG). Hver vísar á annan og heimtar af hinum, en enginn gætir yfirsýnar.

Og enn er allt í klandri því ekki fæst féð í verið og óljóst um höfnina og orkufyrirtækin hafa ekki lánstraust.

Þetta skaðar alla – því sannarlega þurfum við erlenda fjárfestingu í skynsemi og yfirvegun, og sannarlega má virkja víða án meinlegra umhverfisspjalla.

Dofri Hermannsson hefur í snjallri grein bent á að þessi sama staða var fyrir skömmu uppi fyrir norðan kringum Bakkaálverið sem nú sýnist dáið drottni sínum. Þar hjó iðnaðarráðherrann á hnútinn og mótaði þá stöðu sem Dofri kallar „þingeysku leiðina“. Í staðinn fyrir að láta eina megaframkvæmd teyma sig áfram einsog dráttarhest með sjónhlífar er staldrað við, skoðaðir orkukostir, umhverfisgæði og byggðaraðstæður – og síðan boðið að borðinu þeim fyrirtækjum sem henta.

Það er enginn að rífast um álver í sjálfu sér. Þau eru til, hér og annarstaðar, og verða áfram. En þurfum við fleiri? Orka verður sífellt verðmætari – og okkar aðstæðum hentar best að selja hana mörgum smáum og  meðalstórum fyrirtækjum.

Gerum það þá! Eftirspurnin er mikil en tækifærin fara hvert af öðru út um þúfur vegna þess að sjónhlífarnar beinast allar í eina átt – út í móa.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Sigurður Jónsson

    Er ekki komið nóg af álverum? Fyrir ca 20 árum þá vildu allir fiskeldisstöðvar í hvern einasta fjörð og nú öskra allir á álver í hvern einasta fjörð. Það væri tær snilld að gera Reykjanesskaga að Eldfjallagarði fyrir ferðamenn. Friðlýsa hann því hvergi annars staðar í heiminum finnst gliðnunarbelti ofan jarðar nema á Íslandi. Gliðnunarbelti er þegar tvær úthafsplötur rekast í sundur frá hvor annarri. Almannagjá er frægasta dæmið en á Reykjanesi við Sandvík er líka fullt af gjám þar. Búið er að gera þar upplýsingaskilti um þetta efni. Nóg í bili.
    Sigurður Jónsson jarðfræðingur

  • Jóhannes Laxdal

    Ætlar Katrín ekki að svara Stefáni Hafstein? ‘eg held við séum mörg sem bíðum spennt. Einnig þarf Katrín að útskýra betur hvernig það getur samræmst íslenskum hagsmunum að veðsetja útlendum fjárfestum, orkumannvirkin á Svartsengi? Mér súnist vera um sama orðaleikinn að ræða hér og þegar kvótinn var gefinn og hann síðan veðsettur

  • það er vonandi að þessi stjórn Hrökkvi upp af áður en hún verður búin að selja“ landið“ úr landi með manni og mús !!!!!!!!

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Loksins koma yfirveguð skrif frá þér um stóriðju!

    Ég er ekki sammála þér, en þetta er yfirvegað og skynsamlega mælt!

  • Höfnin er óklár, álverið er ófjármagnað, línulögnin er í uppnámi og allt er á huldu um orkuöflunina, nema þá að brugðið verði á það ráð að virkja neikvæðni stjórnarandstæðinga og hrúga þeim öllum niður við álverið fyrirhugaða. Þá þarf enga línu, orkan yrði tryggð og þjóðin værfi laus við að hlusta á nöldrið daginn út og inn. Árni úr Eyjum færi svo örugglega létt með að slá saman eins og einni bryggju fyrir áldallana og allt yrði gott!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur