Fyrir svona áratug voru tekin upp svokölluð andsvör í umræðum í þinginu – þegar ræðumaður hefur lokið máli sínu getur annar þingmaður komið strax upp með stutta spurningu eða einhverskonar álit sem hinn svo svarar, spyrjandinn kemur aftur og ræðumaður svarar aftur. Þetta þótti mikil framför. Ræðumaður getur átt von á að þurfa að standa strax fyrir einstökum staðhæfingum í máli sínu, sækja og verjast í stuttu máli. Andsvörin heppnuðust vel, gáfu færi á snörpum skoðanaskiptum nánast í samræðustíl og urðu kjörlendi fyrir rökræðu, hnippingar og jafnvel skop.
Eðli málsins samkvæmt eru það þingmenn á öndverðum meiði sem helst eigast við í andsvörum þótt þau séu líka notuð til að biðja ræðumann að skýra einstök atriði í málflutningi sínum án sérstakrar gagnrýni.
Nú hafa málþófsmeistarar stjórnarandstöðuflokkanna lagt undir sig andsvörin líka. Þegar málþæfandi er búinn að nota allan tímann sinn í ræðustólnum koma félagar hans, úr sama flokki eða þá systurflokknum, og fara í andsvör við hann. Þannig er hægt að eyða til einskis talsverðum tíma í hvert sinn. Ef fjórir koma í andsvör getur hver talað tvisvar í mínútu og ræðumaðurinn tvisvar í mínútu í hvert sinn, samtals 1 × 2 × 2 × 4 = 16 plús tíminn á rauða ljósinu og tíminn sem tekur forseta að kynna hvern ræðumann í hvert skipti – stundum rúmar tuttugu mínútur. Munar um minna þegar til dæmis tíu stjórnarandstæðingar hafa talað, þá geta andsvör tekið tíu sinnum tuttugu mínútur = 200 mínútur, og búið að eyða tíma þingsins í ekki neitt í næstum hálfa fjórðu klukkustund!
Það er einstök þolinmæðisþraut fyrir okkur hin að sitja undir þessu:
Jón Hansson, Framstæðisflokki: Virðulegi forseti. Ég vil þakka háttvirtum þingmanni Guðrúnu Jónsdóttur fyrir ræðuna sem var afar fróðleg og merkileg. Mig langar að spyrja háttvirtan þingmann hvort hún sé ekki örugglega sammála mér um það að þetta sé alveg afleitt frumvarp, og mundi eyðileggja atvinnulífið og brjóta niður lýðræðið í landinu? Ég vil svo þakka háttvirtum þingmanni aftur fyrir sína góðu ræðu og fullvissa hann um að við Framstæðismenn stöndum fast með þingmanninum og félögum hans gegn þessari duglausu ríkisstjórn.
Guðrún Jónsdóttir, Sjálfsóknarflokki: Virðulegi forseti. Ég vil þakka háttvirtum þingmanni Jóni Hanssyni fyrir mjög góða spurningu í andsvari sínu. Ég tel einmitt að hér sé á ferð alveg afleitt frumvarp. Það er enginn vafi í mínum huga að þetta frumvarp mundi í fyrsta lagi eyðileggja atvinnulífið og í öðru lagi brjóta niður lýðræðið í landinu. Ég fagna því að háttvirtur þingmaður Jón Hansson skuli taka undir þetta inntak í minni ræðu, og fullvissa hann um að við í Sjálfsóknarflokknum ætlum ekki að láta undan síga fyrir þessari duglausu ríkisstjórn.
Et cetera et cetera ad infinitum et nauseatum.
Í gærkvöldi hófst enn eitt málþóf á þinginu, númer tvö núna í september, og andsvörum beitt til hins ítrasta. Við fórum nokkur að leita að heiti á þessari sérstöku bókmenntategund, og reyndum til dæmis gerviandsvar eða sammálasvar – en að lokum kom orðið: sýndarandsvar.
Þá eru til tvær tegundir andsvara: reyndarandsvar – sem er alvöru-andsvar, og sýndarandsvar sem er svona Er-ekki-háttvirtur-þingamaður-sammála-mér-um-æfing í pontu til að hlaða inn þingræðumínútum í boði skattborgaranna.
Og nú er gaman – því ákveðið hefur verið að í lok septemberþingsins verði þeim alþingismanni sem best hefur staðið sig í þessari nýju íþrótt veitt sérstök viðurkenning, nefnilega sýndarbikarinn, sem þessa stundina er verið að ganga frá á sama verkstæði og framleiddi fötin fyrir keisarann hans H.C. Andersens.
Einsog staðan er núna eru líklegust og hnífjöfn þau Gunnar Bragi Sveinsson, Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir …
Ég viðurkenni það að það var gott hjá þeim að stöðva lögfestingu gjaldeyrishaftanna. Þau fá plús í kladdann fyrir það og okkar fólk fær stórf F fyrir að hafa ekki látið fara fram hagfræðilega og lögfræðilega úttekt á frumvarpinu.
Hvers vegna vilja þingmenn Samfylkingarinnar ekki ræða höftin opið og málefnalega?
Það er ekki nóg að segja að aðrir standi sig illa… það réttlætir ekki aðgerðarleysi ykkar. Þið eigið að leiða með fordæmi!
Eg held að Vigdís taki þetta. Og það eru leikarahæfileikarnir sem gera herslumuninn.
Ég tók þátt í umræðum um gjaldeyrishöftin og notaði andsvörin til að koma á framfæri tillögum mínum um úrbætur á frumvarpinu. Tillögurnar voru að mótast á meðan ég tók þátt í þessum umræðum. Slíkt ferli kallar Samfylkingin víst samræðupólitík en treystir sér ekki til að iðka á þingi sem stjórnarflokkur. Þess má geta að ég er þeirrar skoðunar að gjaldeyrishöftin verði hér næstu árin ef peningastefna Seðlabankans verður ekki endurskoðuð frá grunni.
Sæll Mörður.
Í þessu efni er ég þér sammála. Ég fylgdist sem áhorfandi á breytinguna á þingskaparlögunum 1991 og umræðuna um hana, hún var hluti af endurnýjun þingsins, gerð á sama tíma og það fór í eina deild. Fyrir breytingunum lágu ýmiss sjónarmið, en meðal annars þau að gera umræðuna snarpari og fjörugri og jafnvel að fara frá (leiðinlegum) norrænum hefðum í átt til hefða breska þingsins. Þetta gerðist á svipuðum tíma og reglubundnar sjónvarpsupptökur hófust í þingsal.
Í ljósi reynslunnar og þeirrar framvæmdar sem þróast hefur á breyttum þingskaparreglum tel ég að það þurfi að endurskoða þær. Almenningi hugnast ekki óviðeigandi orðfæri eða að góðar ræður séu skotnar niður með einni ómálefnalegri setningu strax eftir flutning. Þannig tel ég að reglurnar eigi hugsanlega ákveðinn þátt í því að rýra virðingu Alþingis og að almenningur vilji ekki að bresku hefðirnar séu viðhafðar hér – en framkoma í breska þinginu er oft gamanefni í sjónvarpsstöðvum.
Með bestu kveðju, Haukur Arnþórsson
Breska þingið er nú hátíð miðað við fíflaganginn sem oft er viðhafður á hinu íslenska.
það er viss stíll yfir breska fyrirkomulaginu. Minnir á svona (þ.e. eins og maður ýmindar sér að hafi verið) forn þing ættbálka í eldgamladaga. þá hafi menn stillt sér í andstæðar fylkingar og þær tjáð ánægju sína eða ónægju með viðkomandi málflutning með þar gerðum hljóðum o.s.frv.
Íslenska tilfellið snýst freka um að fara í kringum og/eða misnota reglur og eru svo alveg steinhissa ef þeim er bent á að þeir séu að gera það. Alveg bara: Ha? Nei. Ekki ég etc.
Og er þetta er sagt spyr maður sig hvort vandamálin í ísl. þingumræðum tengist ekki þeim þætti í innbyggjurum íslands, sem er erfiðleikar við að taka reglur alvarlega og í framhaldi agaleysi. Að hægt sé alltaf að kjafta sig framhjá öllum reglum og það viðhorf að slíkt sé í raun virðingarvert og sá meiri maður er það gerir eða allavega reynir.
Þetta er því miður rétt lýsing hjá Merði. Slíkar umræður draga úr virðingu Alþingis og veikja enn það traust sem þjóðin ber til þingmanna.
Andsvörin einkennast af sífelldum endurtekningum unditektatilkynningum og röfli. Það mætti stytta ruglið með því að setja upp rafrænt skilti við hliðina á pontunni. Þingmenn fengju síðan „like“ og „dislike“ takka eins og tíðkast nú til dags og nafn þeirra sem tækju undir með þeim í pontunni eða öfugt birtist þá á skjánum.
Orðið „málþófsmeistari“ er ágætis orð og lýsandi og mun vera um nýyrði að ræða hjá Merði enda ekki að finna í hans ágætu orðabók. Það fer honum hins vegar illa að klína þessu orði á andstæðingana því enginn er honum fremri í þrætubókarlistinni, orðhengilshætti og útúsnúningum í pólitískri umræðu.
Andsvarsþátturinn í þinginu er að margra mati af hinu góða, oftast upplýsandi og skoðanaskiptin hressileg og kraftmikil og minna gjarnan á breska þingið þegar best lætur.
En því miður hafa núverandi stjórnarliðar tekið upp þann leiða sið, einkum ráðherrarnir að forða sér úr þingsal ef vænta má erfiðra spurninga og er það ekki beint hetjuleg framkoma. Sumir þeysa suður á flugvöll og dvelja langdvölum erlendis og láta minni spámenn eins og Mörð Árnason halda uppi vörnum á bloggsíðu. Þingmönnum stjórnarandstöðunnar er því nokkur vorkunn. Yfirleitt eru þeir einir í þingsalnum og því oft ekki annað í boði í andsvörunum en að spyrja hver annan. En í ljósi þess að ríkisstjórnin nýtur 25% fylgis og er á fallanda fæti fylgja því nokkrir góðir kostir að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi næði og frið í þingsal til þess að bera saman bækur sínar og móta stefnuna til framtíðar. Það gera þeir á kjörlendi fyrir opnum tjöldum og á fullkomlega gagsæjan hátt og verður það sama ekki sagt um stjórnarherrana sem flýja ítrekað úr þingsölum eða bera svo þunga bagga undirmála og svika eins og fjármálaráðherrann að þeir sjá sér það helst til friðar heyra að dvelja í vellystingum erlendis.
Ert þú með þessu að lofa að þú og þinn flokkur munið ekki gera þetta þegar þið lendið í stjórnarandstöðu?
Það eru lágkúrulegustu ummælin að segjast vera að verja lýðræðið og
áhrif fjöldans og svo að koma þeim ótrúlegu svikum inn að VISSIR
menn geti fengið kvóta af óveiddum fiski sér til handa allt að 23 ár.
Þessi hugsun og ætluð framkvæmd er mesta óþokka bragð i ALLRI
SÖGU ALÞINGIS.
Hvað svona þingmenn fá síðar í nafngift læt ég liggja milli hluta núna
Þarna er ég þér hjartanlega sammála Mörður. Ég treysti því þá í framtíðinni, þegar Samfylkingin er komin í stjórnarandstöðu að þeir muni aldrei leggjast svo lágt að standa fyrir málþófi eins og þeir hafa svo oft gert áður.