Hástökkvarinn í sýndarbikarkeppninni þessa stundina er Ólöf Nordal! Frammistaða Ólafar kemur mörgum á óvart en Ólöf er fylgin sér í reynd og sýnd og hefur staðið sig með eindæmum í andsvörum við félaga sína undanfarinn sólarhring.
Enn hefur Gunnar Bragi Sveinsson þó undirtökin og hefur í raun treyst forustu sína þar sem framganga Péturs Blöndals er í daufara lagi og Birgir Ármannsson er nánast hættur virkri þátttöku í sýndarbikarkeppninni.
Þeim mun meiri er ánægja áhorfenda með góðan sprett formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem sparaði hvergi andsvörin viðfélaga sína í dag og gærkvöldi, og er nú í 3. sæti ásamt Ólöfu. Einnig er rækilega veðjað á nýtt sýndarstirni, Ásmund Einar Daðason sem hefur nú náð Vigdísi Hauksdóttur að stigum í 6. sæti.
Staðan fyrir ræðu Vigdísar um sjöleytið:
1. sæti – 21 stig: Gunnar Bragi Sveinsson, B
2. sæti – 16 stig: Pétur Blöndal, D
3.-4. sæti – 14 stig: Ólöf Nordal, D, og Sigmundur D. Gunnlaugsson, B
5. sæti – 13 stig: Unnur Brá Konráðsdóttir, D
6.-8. sæti – 12 stig: Ásmundur Einar Daðason, Sigurður Ingi Jóhannsson og Vigdís Hauksdóttir, B
9. sæti – 11 stig: Birgir Ármannsson, D
10.-11. sæti – 10 stig: Ásbjörn Óttarsson, D, og Birkir Jón Jónsson, B
Þess skal getið að þátttakendur í sýndarbikarkeppninn hafa ekki getað beitt sér að fullu í dag þar sem nokkrir stjórnarsinnar hafa legið á því lúalagi að panta andsvör við stjórnarandstæðinga, og hafa þau ýmist mjög stutt eða falla frá andsvarsréttinum þannig að keppendur fá ekki svigrúm til að sýna hvað í þeim býr. Yfir þessu var með réttu kvartað í umræðum um fundarstjórn forseta nú undir kvöld. Tekur fréttaritari á sýndarbikarkeppninni eindregið undir þær kvartanir og beinir því til viðkomandi að láta af því að trufla keppendur með stráksskap og öfund.
Eg verð nú fyrir vonbrigðum með hvað Vigdís er síga niður listann og virðist ekki ná sér á strik.
Annað, að nú rétt leit ég á þessa keppni í dag og þá var verið að tala undir liðnum fundarstjórn forseta. Hver af öðrum kom upp og talaði um eitthvað sem ómögulegt var að festa fingur á um hvað var.
Nú nú. Allt í lagi með það.
En eftir hvern ræðustúf stóð forseti upp, sem var þá í augnablikinu Sif, og benti á að tal undir þessum lið ætti að snúast um fundarstjórn forseta og ekkert annað.
Á þeim sí-endurteknu ábendingum forseta var að skilja eins og ræðustúfarnir brytu í bága við þann lið sem þeir voru fluttir undir. þ.e. fundarstjórn forseta. Og ættu þ.a.l. ekki heima þar.
Þá vaknar spurningin, afhverju í ósköpunum var forseti þá að leyfa hverjum einstaklingnum af öðrum að tala og tala um eitthvað sem átti ekki heima undir þesum lið?
Gott til þess að vita að einhver haldi skor yfir baráttuna gegn helferðinni.
Er ekki orðin hætta á að málhelti fari að gera vart við sig hjá liðinu?
Mér finnst þingfíflskeppnin miklu meira spennandi, þrátt fyrir að þar séu aðeins tveir keppendur, sumsé Mörður Árnason og Þráinn Bertelsson. Allt útlit fyrir jafntefli!
Verst að þetta stigakerfi var ekki við lýði þegar Hjörleifur var upp á sitt skemmtilegasta. Hvað ætli hvert „hjörl“ gæfi mörg stig í dag? Hjörleifur hefði unnið hilluraðir af bikurum til eignar!
Mörður er þó ótvíræður sigurvegari framm-í-kalls keppninnar 😉