Þriðjudagur 13.09.2011 - 19:03 - 6 ummæli

Ólöf sýndarhástökkvari dagsins!

Hástökkvarinn í sýndarbikarkeppninni þessa stundina er Ólöf Nordal! Frammistaða Ólafar kemur mörgum á óvart en Ólöf er fylgin sér í reynd og sýnd og hefur staðið sig með eindæmum í andsvörum við félaga sína undanfarinn sólarhring.

Enn hefur Gunnar Bragi Sveinsson þó undirtökin og hefur í raun treyst forustu sína þar sem framganga Péturs Blöndals er í daufara lagi og Birgir Ármannsson er nánast hættur virkri þátttöku í sýndarbikarkeppninni.

Þeim mun meiri er ánægja áhorfenda með góðan sprett formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem sparaði hvergi andsvörin viðfélaga sína í dag og gærkvöldi, og er nú í 3. sæti ásamt Ólöfu. Einnig er rækilega veðjað á nýtt sýndarstirni, Ásmund Einar Daðason sem hefur nú náð Vigdísi Hauksdóttur að stigum í 6. sæti.

Staðan fyrir ræðu Vigdísar um sjöleytið:

1. sæti – 21 stig: Gunnar Bragi Sveinsson, B

2. sæti – 16 stig: Pétur Blöndal, D

3.-4. sæti – 14 stig: Ólöf Nordal, D, og Sigmundur D. Gunnlaugsson, B

5. sæti – 13 stig: Unnur Brá Konráðsdóttir, D

6.-8. sæti – 12 stig: Ásmundur Einar Daðason, Sigurður Ingi Jóhannsson og Vigdís Hauksdóttir, B

9. sæti – 11 stig: Birgir Ármannsson, D

10.-11. sæti – 10 stig: Ásbjörn Óttarsson, D, og Birkir Jón Jónsson, B

Þess skal getið að þátttakendur í sýndarbikarkeppninn hafa ekki getað beitt sér að fullu í dag þar sem nokkrir stjórnarsinnar hafa legið á því lúalagi að panta andsvör við stjórnarandstæðinga, og hafa þau ýmist mjög stutt eða falla frá andsvarsréttinum þannig að keppendur fá ekki svigrúm til að sýna hvað í þeim býr. Yfir þessu var með réttu kvartað í umræðum um fundarstjórn forseta nú undir kvöld. Tekur fréttaritari á sýndarbikarkeppninni eindregið undir þær kvartanir og beinir því til viðkomandi að láta af því að trufla keppendur með stráksskap og öfund.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Ómar Kristjánsson

    Eg verð nú fyrir vonbrigðum með hvað Vigdís er síga niður listann og virðist ekki ná sér á strik.

    Annað, að nú rétt leit ég á þessa keppni í dag og þá var verið að tala undir liðnum fundarstjórn forseta. Hver af öðrum kom upp og talaði um eitthvað sem ómögulegt var að festa fingur á um hvað var.

    Nú nú. Allt í lagi með það.

    En eftir hvern ræðustúf stóð forseti upp, sem var þá í augnablikinu Sif, og benti á að tal undir þessum lið ætti að snúast um fundarstjórn forseta og ekkert annað.

    Á þeim sí-endurteknu ábendingum forseta var að skilja eins og ræðustúfarnir brytu í bága við þann lið sem þeir voru fluttir undir. þ.e. fundarstjórn forseta. Og ættu þ.a.l. ekki heima þar.

    Þá vaknar spurningin, afhverju í ósköpunum var forseti þá að leyfa hverjum einstaklingnum af öðrum að tala og tala um eitthvað sem átti ekki heima undir þesum lið?

  • Eyjólfur

    Gott til þess að vita að einhver haldi skor yfir baráttuna gegn helferðinni.

  • Hannes Friðriksson

    Er ekki orðin hætta á að málhelti fari að gera vart við sig hjá liðinu?

  • Halldór Halldórsson

    Mér finnst þingfíflskeppnin miklu meira spennandi, þrátt fyrir að þar séu aðeins tveir keppendur, sumsé Mörður Árnason og Þráinn Bertelsson. Allt útlit fyrir jafntefli!

  • Sigurður J.

    Verst að þetta stigakerfi var ekki við lýði þegar Hjörleifur var upp á sitt skemmtilegasta. Hvað ætli hvert „hjörl“ gæfi mörg stig í dag? Hjörleifur hefði unnið hilluraðir af bikurum til eignar!

  • Anna Grétarsdóttir

    Mörður er þó ótvíræður sigurvegari framm-í-kalls keppninnar 😉

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur