Ég held að það sé ekki til neinn endanlegur stórisannleikur um það hvað borgarfulltrúar í Reykjavík eiga að vera margir. Sjálfsagt mál að alþingi tryggi með lögum að þeir séu nógu margir til að lýðræðið virki í hreppsnefndarkosningum hjá okkur í höfuðborginni – en umfram það er þetta mál best komið í höndum okkar borgarbúa og þess fólks sem við kjósum til forustu í sveitarstjórn.
Í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga er ákvæði um að borgarfulltrúum í Reykjavík fjölgi í minnst 23 – því er pakkað inn í þessa formúlu:
1. Þar sem íbúar eru undir 2.000: 5–7 aðalmenn.
2. Þar sem íbúar eru 2.000–9.999: 7–11 aðalmenn.
3. Þar sem íbúar eru 10.000–49.999: 11–15 aðalmenn.
4. Þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 15–23 aðalmenn.
5. Þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri: 23–31 aðalmenn.
Athygli vekur auðvitað að ekkert sveitarfélag á Íslandi er í 4. deild, ekki einusinni Kópavogur þótt þar gangi nú ýmsir um með delerium burgonis. En eitt sveitarfélag er í 5. deild, nefnilega Reykjavík, og samkvæmt frumvarpinu á að skylda Reykvíkinga til að fjölga hjá sér í hreppsnefndinni um heila átta, um 53% !
Nú má segja að borgarfulltrúar í Reykjavík séu þegar fleiri en fimmtán af því nokkrir varaborgarfulltrúar eru í nánast fullu starfi. Líklega er skynsamlegt að fjölga fulltrúunum eitthvað, og lýðræðislegt líka því fylgisþröskuldurinn er nokkuð hár fyrir framboð til borgarstjórnar. 17? 19?
Aðalmálið er samt að Reykvíkingar eiga að fá að ráða þessu sjálfir innan ákveðins ramma. Ég hef þessvegna lagt fram þá breytingartillögu við frumvarpið að tóma deildin og Reykjavíkurdeildin verði sameinaðar, svona:
Þar sem íbúar eru 50.000 eða fleiri: 15–31 aðalmaður.
Kannski finnst einhverjum borgarfulltrúum og varaborgarfulltrúum þessi drukkur heldur beiskur, og voru að vonast til að einhver annar tæki af þeim kaleikinn. En af þessum kaleik á hvergi að bergja nema í Ráðhúsi Reykjavíkur. Á það hefur nýlega bent borgarfulltrúi Kjartan Magnússon úr KR og hafi þökk fyrir.
Mér sýnist stuðningur verulegur við tillöguna. Vonast eftir 22 sjálfsögðum atkvæðum úr R norður og suður, og veit af góðum skilningi á málinu víða meðal utanbæjarmanna.
Þingmannafjöldi Reykjavíkur er auðvitað viðmið en meira máli skiptir hverju menn vilja ná og hverju menn eru til í að fórna. Borgarfulltúar eru hluti framkvæmdavalds og ættu að starfa í mjög nánum tengslum við umbjóðendur sína. Til að svo megi vera þarf að fjölga þeim. Þau ráð sem fara með einstaka málaflokka eru yfirleitt 7 manna. Ef við gefum okkur að fjögur ráð starfi utan Borgarráðs og að allir fulltrúar sitji borgarstjórnarfundi, þurfa þeir að vera 28. Mér sýnist því tillaga þín hið besta mál. Af þessu leiddi hugsanlega að borgarfulltrúastarf yrði ekki lengur fullt starf heldur fengju menn greitt eftir vinnuframlagi.
Sæll Mörður.
Þú ert að leggja til að fjöldi borgarúlltrúa verði sá sami og árið 1908, þ.e. 15. Hér er tengill á frumvarp Hreyfingarinnar um fjölgun í sveitarstjórnum þar sem sýnt er fram á gífurlegan lýðræðishalla í sveitarstjórnum á Íslandi m.v. nágranalöndin en það sama má heimfæar upp á all norður og vestur Evrópu. Þessi hræðsla við lýðræði sem frumvarp til sveitarstjórnarlaga er sem og breytingartillaga þín er dæmi um er dapurleg. Lestu nú meðfylgjandi frumvarp og ræðum svo saman. Þau vinnubrögð sem viðgengust í Reykjavík í skjóli fámennistjórnar hafa ekki verið farsæl og er sér-íslensk. Reynum að sammælast um að hafna þeim.
http://www.althingi.is/altext/138/s/0015.html
Nei, Þór Saari, ég er einfaldlega að leggja til að Reykvíkingar ráði þessu sjálfir — enda hefur borgin augljósa sérstöðu meðal íslenskra sveitarfélaga.
… ,,dapurleg lýðræðishræðsla“ … — Við þurfum svo sannarlega á að halda nýrri umræðuhefð í stjórnmálunum. Þú ert nú eiginlega ekki að hjálpa mikið til við það, ágæti félagi …
Reykvíkingar „réðu þessu sjálfir“ þegar hreinn meirihluti sjálfstæðisflokks fækkaði þeim úr 23 í 15. Fámennis- og klíkustjórnmál eru vond Mörður og þegar aðeins 8 manns ráða öllu um málefni Reykjavíkur er verið að bjóða hættunni heim, eins og sagan hefur sýnt. Þess vegna m.a. er staðan allt önnur í öllum okkar nágrannaríkjum.
Ágæti Þór — Tillaga ykkar um 61 borgarfulltrúa í Reykjavík er athyglisverð, en ég leyfi mér þó í fullri vinsemd að efast um að 31 Sjálfstæðismaður á vegum Davíðs Oddssonar hefði stjórnað borginni með minni klíkuskap en 8 Sjálfstæðismenn á vegum Davíðs Oddssonar.
Það er fleira til í heiminum en fjórflokkurinn Mörður. Núverandi borgarstjórn Reykjavíkur er skýrt dæmi um það. Það er athyglisvert hvað hræðslan við Davíð lifir þó lengi.
Vonandi nær breytingatillaga þín fram að ganga Mörður. 17 fulltrúar er meira en nóg og 15 reyndar líka.