Fimmtudagur 15.09.2011 - 07:57 - 26 ummæli

Loksins, loksins, Ásmundur Einar!

Ásmundur Einar Daðason hefur fundið fjölina sína! Þingmaðurinn hefur lítið sést í þingsal á kjörtímabilinu og verið hálfvegis utangátta eftir að hann yfirgaf kjósendur sína og gekk í Framsóknarflokkinn – en eftir rólega byrjun er hann nú orðinn einn efstu manna í keppninni um sýndarbikarinn og náði í gær sjálfum Pétri Blöndal að stigum. Stuðningsmenn Sýndar-Ása svifu um þinghúsið í gær með blik í auga og hrópuðu: Loksins, loksins – einsog gert var á síðustu öld þegar annar snillingur opinberaðist í ákveðinni íþróttagrein.

Daðason, einsog hann er gjarna kallaður í hópi aðdáenda sinna (sbr. Ríkharð Daðason og Sigfús Daðason), á raunhæfan möguleika á Evrópusæti í sýndum, en toppsætið vermir sem fyrr „Gamli seigur“ – Gunnar Bragi Sveinsson – sem jók forustu sína verulega í gær, á níunda keppnisdegi sýndarbikarsins, og hefur nú farið einum tuttugu sinnum í sýndarandsvör við samherja sína og svarað þeim níu sinnum að auki.

Enn sem fyrr er þingflokksformaður Framsóknarflokksins því líklegastur handhafi sýndarbikarsins í lok vertíðar – og yrði þá jafnframt sæmdur heiðurstitlinum „sýndarmenni septembermánaðar“.

Ásbjörn Óttarsson vakti einnig athygli fyrir góðan sprett við sýndarandsvör í gær og er nú í fjórða sæti. Hann fór með glæsibrag fram úr Vigdísi Hauksdóttur sem þrátt fyrir þokkalega frammistöðu síðari hluta dags hefur valdið fjölmörgum aðdáendum sínum vonbrigðum í keppninni til þessa. Sumir telja raunar að hún sé enn að ná sér eftir meiðsli frá því á mánudag þegar hún varð sem kunnugt er fyrir því óláni að stinga höfðinu í stein.

Nýstirni á sýndarhimninum er svo gamla brýnið að vestan, Einar K. Guðfinnsson, og átti besta einstaka afrek gærdagsins þegar hann fór í sýndarandsvar við Vigdísi Hauksdóttur sem er nú næst á undan honum á stigatöflunni,. Er ekki ofsagt að menn hafi sopið hveljur við ölduganginn frá þeim átökum.

Hinsvegar hefur mjög dofnað yfir Ólöfu Nordal, hástökkvaranum úr fyrri umferð, og á göngunum er nú rætt um hana sem einsmellsundur (e. one hit wonder) sem á ný hafi lokast inni í sinni prúðu skel. Svipaða sögu er að segja af Birgi Ármannssyni sem margir höfðu trú á fyrstu dagana. Hann virtist í gær orðinn afhuga virkri þátttöku í sýndarbikarkeppninni að sinni, en kom þó stöku sinnum í andsvör við samherjana einsog af gömlum vana.

Staðan að loknum síðustu sýndarandsvörum næturinnar (Pétur Blöndal við Birgi Ármannsson klukkan 3.20):

1. sæti – 49 stig: Gunnar Bragi Sveinsson, B

2.-3. sæti – 34 stig: Ásmundur E. Daðason, B, og Pétur Blöndal, D

4. sæti – 25 stig: Ásbjörn Óttarsson, D

5. sæti – 24 stig: Vigdís Hauksdóttir, B

6. sæti – 19 stig: Einar K. Guðfinnsson, D

7. sæti – 18 stig: Sigurður Ingi Jóhannsson, B

8. sæti – 16 stig: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, B

9. sæti – 15 stig: Unnur Brá Konráðsdóttir, D

10. sæti – 14 stig: Ólöf Nordal, D

Næstir koma Birgir Ármannsson, D, og Birkir Jón Jónsson, B, með 12 stig.

Sýndarmennskan gildir

Metingur og öfund hafa með köflum sett leiðinlegan svip á keppnina og náði þetta hámarki í gærkvöldi þegar nokkrir ónefndir keppendur um miðbik stigatöflunnar komu að máli við mótsstjórnina og kröfðust þess að fá metinn til stiga árangur sinn í öðrum málþófsíþróttum en sýndarandsvörum, einkum frammistöðu sína í umræðum um fundarstjórn forseta. Þessu hefur mótsstjórnin synjað eindregið.

„Við hlustum ekki á neitt væl,“ sagði Róbert Marshall, talsmaður keppnishaldara, við fréttaritara í gær. „Hér er það bara sýndarmennskan sem gildir.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Ég legg allt undir – og veðja á Vigdísi Hauks. Hún hefur bara verið að hita sig upp fram að þessu.

  • Þetta er nú hálf klént hjá þér Mörður.
    Það mætti alveg eins segja að ef svona svipuð keppni væri fram á milli flokka á Alþingi. Þá fengi Samfylkingin eftirfarandi fyrstu verðlaun í öllum fjórum eftirfarandi keppnisgreinum.

    Samfylkingin 1. sæti fyrir: Kosningasvik við kjósendur.

    Samfylkingin 1. sæti fyrir: Svik við land sitt og þjóð.

    Samfylkingin 1. sæti fyrir: Undirlægjuhátt gagnvart erlendu valdi, sérstaklega ESB

    Samfylkingin 1. sæti fyrir; Valdagræðgi, hentistefnu og spillingu.

  • Jésús, er samspillingardúddi að halda einhverjum sýndarlista, þegar samspilling er að halda upp lygaáróðri um aðlögunarferli að ESB.

    Já, sýndu þitt innra eðli. Endilega.

    Sjæse, ykkur samspillingardindlum er ekki viðbjargandi.

  • Stefán Júlíusson

    Kanntu ekki að tala á Alþingi elsku flokksfélagi?

    Hvar talar þú fyrir réttindum?

    Hvaða lög hefur þú stutt sem draga úr réttindum manns til að búa með konu?

    Þetta er ansi „leim“ eins og fólk segir.

    En þú getur svarað þessu. Með þögn. En þögn er einnig val.

    Haltu þessu áfram. Þú stendur þig vel í því.

  • fridrik indridason

    bravó að daladurgurinn er mættur til leiks. ég bíð spenntur eftir lokasprettinum hjá kerlingunni sem stingur höfðinu í steina. þau tvö munu berjast til þrautar um sæti í evrópukeppninni. fer hún ekki annars fram í brussel?

  • Ekki eru þessar færslur nú til þess fallnar að hækka stigið í umræðunni. Þú ert fulltrúi þjóðarinnar á Alþingi og mættir vera aðeins meira vandur að virðingu þinni.

  • Gandurinn

    Mörður Árnason er sorglegasti Alþingismaðurinn okkar og er þó nóg af taka…….t.d. Björn Valur Gísla, Álfheiður, Ömmi ömurlegi, Jón Bjarna og yfirlygarinn á Alþingi Steingrímur Joð.

    En nú ætla ég að veita verðlaun til þín Mörður þú hefur verið valinn leiðinlegasti þingmaður Íslands. Njóttu vel.

  • Þessi keppni og frásögnin af henni er mest spennandi lesningin um þessar mundir. Haltu þessu endilega áfram.

  • Þröstur Ásmundsson

    Ég er sammála Halldóri hér að ofan – að þetta er frábært framtak hjá Merði. Og óneitanllega fyndið í leiðinni. En þessi grátbroslega lýsing dregur fram skýrt og skilmerkilega að fjöldi þingmanna hagar sér eins og fífl. Það er nákvæmlega vitleysisgangur af þessu tagi sem gerir það að verkum að sífellt fleiri hafa megnustu skömm á vinnubrögðum þingmanna – sérstaklega auðvitað stjórnarandstöðunnar. – Er mönnum í reynd skítsama um þessa margumtöluðu „virðingu Alþingis“?

  • Mörður Árnason

    Takk, takk. Stefán — ég vel auðvitað þögnina, hitt væri svo leim … 🙂

  • Það telst ákveðið skref fram á við þegar fólk í tilvistarkreppu viðurkennir breyskleika sinn (t.d. þegar fíklar viðurkenna fíkn sína) og hættir að vera með einhver látalæti.

    Nú hefur Mörður Árnason tekið viðlíka skref á sinn hljóðláta og hógværa hátt: hann er nú hættur með öllu að þykjast vera málefnalegur og marktækur, heldur ætlar greinilega að eyða þeim stutta tíma sem eftir er fram að kosningum í afkáraleg fíflalæti og misheppnaðan menntaskólahúmor.

    Það er alltaf jákvætt þegar fólk fellir grímuna, hættir að þykjast og kemur til dyranna eins og það er klætt. Merði skal þó bent á að sóa ekki tímanum fram að kosningum í eintómt sprell og spaug heldur nýta hann vel til að undirbúa komandi atvinnuleit, því trauðla munu svona sprelligosar fá mikið brautargengi í næstu kosningum þegar þjóðin leggur dóm sinn á verk manna.

  • Alfreð Jónsson

    Ja hérna hér

    Hér þyrpast að framstyggðar og sjálfhælnisblækur sem sýna gáfnafar sitt svo ekki verður um villst með hágæða, rökföstum færslum.

    Fátt virkar eins sannfærandi og vitrænt eins og órökstuddar upphrópanir um landráð, lygar og spillingu.

    Ég fell í stafi yfir snilli ykkar Gunnlaugur, palli fridrik og gandur.

  • Mér dettur strax í hug orðin hroki og tvískinnungur þegar ég les þessa ömurlegu grein. Mörður Árnason er klárlega einn af þeim sem þarf að taka til sín þessa grein: http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_adsent/tryggvi-skitlegt-edli-islenskra-stjornmala

  • Þetta blogg hefði Össur getað skrifað að nóttu til

  • Ég óska framsókn til hamingju. Oft verður galinn foli góður hestur var eitt sinn sagt. Folaldið er að verða sýndarhross. Það er ekki slæmur árangur á undrastuttum tíma. Svo hefur hann lært af sjálfum Davíð Oddsyni, hann endurtekur ætíð lok setningar sinnar, svona eins og að taka undir með sjálfum sér. Það er ævintýralega gaman að fylgjast með umbreytingum á þessum vonarpening íslenskrar alþýðu.
    Annars er alþingi með þessu að hefja sig til nýrra og áður óþekktra hæða í málefnalegheitum og almenningur fylgist með andagt. Ég reyndi að skrifa alþingi með stórum staf en einhvern veginnn varð mér það ómögulgt.

  • Ég vil hvetja Mörð til að halda áfram fréttaritarastarfinu og láta ekki úrtöluraddir húmorslausra manna stöðva sig. Þetta eru áhugaverðar en umfram allt fyndnar greinar, og í þeim felst því miður mikill sannleikur.

  • Halldór Halldórsson

    ÞINGFÍFLSKEPPNIN

    Staðan:

    1.-2. Mörður Árnason 500 stig

    1.-2. Þráinn Bertelsson 500 stig

  • Uni Gíslason

    Skemmtilegar greinar hjá þér Mörður! Þegar stjórnarandstaðan er svo illa haldin að hún á ekkert annað inni en málþóf, þá er eins gott að halla sér bara aftur og halda utan um stigagjöfina.

    Haltu þessu endilega áfram, ég bíð spenntur eftir úrslitum!

  • Held að Mörður hafi tekið frammúr Þránni áðan sem mesta fífl þingsins.Hann stóð í ræðustól og gargaði ÉG KREFST ÞESS.ÉG KREFST ÞESS.Mörður minn taktu nú pillurnar þínar og hættu þessum fíflalátum.

  • Hrafn Arnarson

    Mjög skemmtilegar greinar en í leiðinni góð greining á stöðu Alþingis og þingmanna. Áfram og klárum stubbinn.

  • Kjósandi

    Ég verð bara að segja að sem ein af þeim kjósendum sem gáfu ykkur meirihlutann í stjórn landsins að það hryggir mig hvernig stjórnarandstaðan, hver af öðrum kemur í ræðupúlt og spyr sömu spurninganna ítrekað en enginn stjórnarliði virðist hafa manndóm í sér til að koma einfaldlega upp og svara skýrt og skorinort og útskýra sinn málatilbúnað af heilindum, ekki með skætingi og aulahúmor í garð pólitískra andstæðinga sinna.
    Mjög margar spurningarnar eiga rétt á sér og fólkið í landinu á rétt á að fá hreinskilin og sönn svör frá stjórnarliðum en því miður þá er þeirri ósk fólksins snúið upp í drullukast á andstæðinga.
    Þú verður að athuga það að það eru beinar útsendingar frá Alþingi og sandkassaleikurinn er svo sannarlega víðar leikinn en hjá sumum stjórnarandstæðingum eins og þessi færsla ber með sér.

  • @ Alfreð Jónsson: Comment mitt hér að ofan var ekkert sérlega rökstutt, ens svo sem alls ekkert ómálefnalegra en þetta staut hjá Merði sjálfum. Þesss vegna sendi ég honum þessar pillur, sem hann átti alveg skilið.

    Þetta er synd því að yfirleitt er Mörður einn af málefnalegustu og rökföstustu þingmönnum Alþingis og sá lang skársti af þingmönnum Samfylkingarinnar, en þar er mannval nú frekar lítilfjörlegt !

  • Vigdís hlýtur að vera „stoned“ eftir atburði vikunnar.

  • gandurinn

    Mér finnst nú vanta inn í þingfíflskeppnina einn mann en það er að sjálfsögðu þingræfilinn hann Björn Valur Gíslason.

    Björn Valur 1000 stig

    Mörður 980 stig

    Þráinn 600 stig

  • Leifur Skúlason

    Mér finnst nú broslegt hvernig þú velur að kasta steinum þínum úr glerhúsi. Svo virðist sem þú hafi gleymt fortíð þinni í málþófi, sem þér fannst þá sjálfsagt og eðlilegt. Ég man ekki betur en þú hafir ásamt flokksfélögum þínum lesið kafla uppúr bókum þegar fjölmiðlafrumvarpið fyrra var til umræðu.

  • Stefán Júlíusson

    http://stefanj.blog.is/blog/stefanj/entry/1191922/

    Mörður, þú ert í efnahags- og viðskiptanefnd. Talar þú ekkert um gjaldeyrishöftin?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur