Föstudagur 16.09.2011 - 10:00 - 19 ummæli

Þú getur þetta, Vigdís!

Sýndar-Ási – einsog sigurvissir stuðningsmenn kalla hann – er maður dagsins í bikarkeppninni æsilegu á þingi og gerir nú raunverulegt tilkall til fyrsta sætisins í keppninni. Gunnar Bragi Sveinsson sem enn heldur toppsætinu átti hinsvegar slakan dag í gær og má nú reyna að kalt er á hefðartindi.

Gunnar Bragi hefur raunar lagt fram kvörtun við mótsstjórnina vegna ýmissa truflana frá öðrum þátttakendum – meðal annars með því að kalla eftir löngum samningafundum þingflokksformanna með forseta sem að sjálfsögðu gera honum óhægt um vik við sýndarandsvör í þingsal. Hefur mótsstjórn kallað fyrir sig Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta alþingis, og farið fram á að keppendur fái að beita kröftum sínum óhindrað að sýndarbikarnum án óeðlilegra afskipta þingforystunnar.

Brussel bíður

Gleðileg tíðindi fyrir fjölmarga aðdáendur Vigdísar Hauksdóttur: Keppandinn káti virðist nú hafa tekið á flug upp úr ákveðinni lægð sem merkja mátti eftir að hún stakk höfðinu í stein fyrr í vikunni. Vigdís átti í gær fjögur glæsileg sýndarandsvör og lyfti sér upp í 4. sætið. Sannarlega góður árangur, og sýnir að Vigdís getur ennþá blandað sér í baráttuna um bikarinn ef hún bara vill – og Evrópusæti er ekki langt undan. Brussel bíður, Vigdís – þú getur þetta!

Birkir Jón í vanda

Ekki urðu veruleg tíðindi neðar á stigatöflunni. Hinn efnilegi Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, stóð sig vel í gær og er nú í 8. sæti en má vara sig, því formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er lítt hrifinn af samkeppninni frá hinum knáa Siglfirðingi og gekk um húsið í gær rauður í kinnum með kreppta hnefa og tautandi fyrir munni sér óljósar formælingar.

Örvilnan hjá Birgismönnum

Þess má geta að á sérstökum neyðarfundi í fámennum en harðskeyttum aðdáendaklúbbi Birgis Ármannssonar var í gær tekist nokkuð harkalega á um hvað til bragðs skyldi taka keppandanum til aðstoðar. Birgir hefur dregist verulega aftur úr og mun hafa í huga að segja sig frá keppni. Í hópi náinna félaga keppandans eru nú komnar upp efasemdir um að Birgir hafi raunverulega í sér þá snörpu sýndarmennsku sem þarf til að ná árangri í eins langri keppni og nú stendur yfir, þótt enginn efist um getu hans í skyndisýndum þegar svo ber undir.

Staða efstu manna eftir síðustu sýndarandsvör næturinnar (Ásmundur Einar Daðason við Illuga Gunnarsson kl. 1.30):

1. sæti – 54 stig: Gunnar Bragi Sveinsson, B  

2. sæti – 46 stig: Ásmundur E. Daðason, B

3. sæti – 37 stig: Pétur Blöndal, D

4. sæti – 32 stig: Vigdís Hauksdóttir, B

5. sæti – 29 stig: Ásbjörn Óttarsson, D

6.–7. sæti – 19 stig: Einar K. Guðfinnsson, D, og Sigurður Ingi Jóhannsson, B

8.– 9. sæti – 18 stig: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Birkir Jón Jónsson, B

10. sæti – 16 stig: Ólöf Nordal, D

Næst kemur Unnur Brá Konráðsdóttir með 15 stig, og svo Birgir Ármannsson með 12 stig . Hann náði ekki að bæta við sig stigum í gær þrátt fyrir 15 tíma langan keppnisfund í þinginu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Svakalega ert þú veikur maður Mörður.

  • gandurinn

    Jahérna Mörður þú varst að tryggja þér titilinn endanlega leiðinlegasti og veikasti þingmaður ÍSLANDS. Hvar sem maður kemur og nefnir orðið Mörður Árnason þá fá allir gæsahúð og útbrot.

  • Kristján Elís

    það er gaman að fylgjast með því hvað margir verða pirraðir út í þig fyrir þessa gamansemi

  • Vei þeim sem pissar í kross í pissukeppni … eins og dæmin sanna. Tvöfalt vei þeim sem kallar pissukeppnina réttu nafni eða lýsir henni í óbeinni.

  • Fannar Hjálmarsson

    eiga ekki öll þau lýsingar orð sem þú hefur komið með í þessum bloggum þínum við þig sjálfan þegar þú varst þingmaður í stjórnarandstöðu? hvernig væri ef Mörður myndi horfa á gamlar upptökur úr þingsal þegar hann og félagar hans í ríkisstjórn t.d. fjármála og forsetisráðherra fóru hamförum í málþófi og koma svo með sömu lýsingar og hér að ofan um sig og félaga sína? eða ertu eins og margir tvöfaldir í roðinu. einar reglur gilda um þig og svo aðrar og strangari um alla aðra?

  • Kristján Elís

    Verður þetta sýndarbull sem nú stendur yfir á Alþingi eitthvað vitlegra þó Steingrímur og fleiri hafi stundað slíkt hér áðu fyrr?

  • Hrafn Arnarson

    Fær Árni johnsen ekki aukastig fyrir að koma með sauðnautið ?

  • Það er gaman að þessu hjá þér haha. En mikið hlýtur mórallinn að vera leiðinlegur í þinginu fyrst þú finnur þig knúinn til að drepa tímann við að skrá niður stig í sýndarkeppni sem þessari!

  • Baldur Ragnarsson

    Skemmtilegra að fylgjast með sýndarbikarnum en þinginu! En ekki þarf mikið til þess, raunar.

  • Íhaldið skortir húmor.

  • Ég segii að Vigdís taki þetta – mín kona í sókn! Hinir geta barið höfðinu við steininn hennar.

  • Frikki Gunn.

    Mikið er nú Mörður drembinn hérna, enda nýtur hann þess að vera með þeim sem hafa valdið.

    En dramb er falli næst og skjótt skipast veður í lofti.

    Þetta ætti Mörður og viðhlægendur hans að hafa hugfast.

  • Eygló Aradóttir

    „Alþingi hélt í dag svokallaðan „flippaðan fimmtudag.“ Töluðu þingmenn út og suður um allt milli himins og jarðar. Fóru jafnvel ítrekað í svokölluð „andsvör“ og ræddu svokallaða „fundarstjórn forseta“ – en slíkt þykir einstaklega flippað.

    Umræður um stöðu heimilanna í landinu, ástandið í efnahagsmálum, framtíð Íslands, fangelsismál barna og önnur brýn mál bíða betri tíma því á morgun er „fábjánaföstudagur,“ svo helgarfrí og eftir helgi skellur á hin hefðbundna „við-erum-kjörnir-fulltrúar-þjóðarinnar-en-megum-samt-og-einmitt-þess-vegna-haga-okkur-eins-og-illa-upp-alin,-heimsk-órangútanbörn“ – vika.“

    Baggalútur lýsir þessu á bestan hátt. Og þetta er lýsing á störfum Alþingis, ALÞINGIS. Og það sem meira er, margt af þessu fólki sem stendur í þessu málþófi verður kosið aftur. Það hegðar sér svona af því að það veit að það getur treyst á gullfiskaminnið hjá kjósendum. Eða man einhver eftir málþófinu vorið 2009 (minnir mig), íhaldið (aðallega) og framsókn.

  • Það þarf eiginlega að lesa þetta upphátt með ákefð íþróttafréttamanns…

    „Confused?

    You won´t be after the next episode of Soap!“

  • Vil láta setja mælir um framleiðni þingmanna ?

    Þarna er margt fólk sem hefur aldrei unnið fyrir utan opinbera geiran eða í faðmi eigin flokks !

    Svo er líka fólk þarna sem veit ekkert hvað vinna er og kemur með silfurskeið í munni þarna inn ! Dæmið er, Einar að vestan, Bjarnir úr Garðabæ og Katrín úr Kópavogi ! Þetta fólk er svo fjarlægt því sem er að gerst hjá venjulegu fólki.

  • Hrafn Arnarson

    Sigurvegari keppninnar hlýtur að vera Jón Gunnarsson, sá ofurbeitti hnífur, sem flutti sömu ræðuna tvisvar. Þorri þingmanna áttaði sig ekki á þessu þannig að hróp og köll voru þau sömu. (Einn þingmaður hafði prentað út fyrri ræðu og gat lesið jafnóðumsjálfur) Vil að lokum benda á íslenska endurgerð á The Muppet Shov sem sýnd er á INN og heitir það Hrafnaþing.

  • Stefán Júlíusson

    http://stefanj.blog.is/blog/stefanj/entry/1191922/

    Hvað segir Mörður um eitt mikilvægasta málefni okkar ESB sinna?

    Ekki neitt. Hann þegir og gefur öðrum slæma einkunn því hann sjálfur kann ekki að tala á Alþingi.

    Kanski ættir þú að hætta eða fara í ræðunámskeið.

  • Stefán Júlíusson

    Svo ættir þú að prófa að athuga málin áður en þú ferð að bulla á Eyjunni sem þú þorir ekki einu sinni að taka á á Alþingi.

    Kanski hættir þú á Alþingi og ferð að halda áfram að blogga út í bláinn!!

    Það er betra en að hafa þig án athugasemda á Alþingi!!

    Kæri samflokksmaður!!

  • Þetta er einmitt ein ástæða þess að almenn virðing ríkir hvorki fyrir Alþingi eða mörgum þingmönnum sem þar sitja. Svona pistill er engum til framdráttar og allra síst þér sjálfum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur