Þriðjudagur 25.10.2011 - 13:50 - 12 ummæli

Friður & trúverðugleiki

Stjórn Bankasýslunnar sem af sér sagði þarf að tala skýrt og segja okkur um hvaða utanaðkomandi afskipti var að ræða. Var það gagnrýni alþingismannanna Helga Hjörvars og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur? Eða eitthvað annað ósagt – einsog helst má skilja af þögn stjórnarmannanna fyrrverandi?

Mega alþingismenn ekki lengur segja það sem þeir meina?

Þessi utanaðkomandi afskipti segir gamla Bankasýslustjórnin hafa „vegið að trúverðugleika Bankasýslunnar“ þannig að „friður“ sé „rofinn um starfsemi hennar“. Sérkennileg yfirlýsing, því þetta fólk virðist sjálft ekki hafa haft nokkurn skilning á þessum trúverðugleika og tókst sjálfu ekki að varðveita þann frið sem er öðru nauðsynlegri til að Bankasýslan geti unnið sitt verk.

Það verk felst á næstu mánuðum í því að selja umtalsverðan hluta af eignarhlut almennings í ýmsum fjármálafyrirtækjum til að vega upp á móti þeim gríðarlega halla á sameiginlegum sjóði okkar sem fyrrverandi eigendur sömu fjármálafyrirtækja ollu okkur með hruninu – ásamt stjórnmálamönnum sem ýmist stuðluðu að atburðunum með stefnukreddu og spilltum starfsháttum eða vanræktu þann starfa sem þeim var falinn í nafni almennings á Íslandi.

Páll Magnússon er sjálfsagt alls góðs maklegur – en það er augljóst öllum, nema þá stjórnarmönnunum með gullfiskaminnið,  að hann er ekki heppilegasti verkstjórinn við þetta.

Það stóð ekki til að reka Bankasýsluna á pólitískum forsendum. En það stóð heldur ekki til að reka hana einsog ennþá væri árið 2007 – eða öllu heldur árin góðu aðeins fyrr þegar téður Páll Magnússon var einn helstu dugnaðarforka í teyminu sem sá um einkavinavæðingu gömlu bankanna.

Ef kostirnir eru ekki nema þessir tveir er kannski best að leggja Bankasýsluna niður sem stjórnsýsluapparat – og bjóða verkefni hennar út á EES-svæðinu.

PS — daginn eftir

Páll Magnússon — sem þátttaka hans í málinu er eingöngu að hafa sótt um starf — tók hárrétta ákvörðun og verðskuldar þakkir. Stend við tillögu mína um útboð á EES-svæðinu. Önnur leið er að skipa útlenda fagmenn sem stjórnarmenn og forstjóra.

Á óbreyttan alþingismann leitar það líka eftir ýmis tíðindi undanfarið að handhafar framkvæmdavaldsins, ráðherrarnir, eigi að taka skýra og beina ábyrgð á öllum ákvörðunum sem teknar eru á verksviði þeirra. Ráðherra verður í starfi sínu að vera bæði pólitískur og faglegur og á að kunna að greina þar á milli.

Pólitíkin er ekki ljót og fag-tíkin falleg. Þetta eru bara tvö svið, hvort með sína aðferð — en á ekki að blanda saman — þá skapast sprengihætta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Halldór Halldórsson

    Vonandi sitjið þið og nýja stjórn Bankasýslunnar, sem skipuð verður af flokkunum ykkar Steingríms Joð, uppi með Pál Magnússon sem „verkstjóra“. Það verður ekki séð hvernig þið ætlið að losa ykkur við hann, ef hann setur sig upp á móti því; nema þá auðvitað með nauðung og pólitísku ofbeldi.

  • S. Guðmunds

    Þetta eru frekleg afskipti löggjafarvaldsins af framkvæmdavaldinu og þekkist ekki í lýðræðisríkjum, heldur spilltum einvaldsríkjum.

    Samfylkingarfólk stendur nú í biðröð við handvaskinn við að þvo af sér þennan ósóma, en svona nokkuð þvæst ekki af.

    Svo er það spurningin; Hver er glæpur Páls Magnússonar annað en að vera ekki í „réttum“ flokki?

    Er ásakanir af hendur honum að hann hafi verið gerandi í bankarhruninu eitthvað sönnuð?

    Ég held að þetta pólitíska upphlaup Samfylkingarinnar eigi eftir að verða henni dýrkeypt í framtíðinni.

  • Sigurður Hr. Sigurðsson

    Ég vona að þessi misheppnaða stofnun verði lögð niður sem fyrst. Það stenst ekki skoðun að láta fólk úti í bæ fara með eigur landsmanna eins og almenningi komi það ekkert við.

  • Teitur er með þetta.
    http://www.dv.is/blogg/eimreidin/

    Fyrrverandi stjórn Bankasýslunnar var með allt á hælunum, hvort sem ástæðan var óvitagangur eða spilling.

    Yfirlýsing Steinunnar stjórnarmanns, um helgina, var svo pínu vandræðaleg.

  • Ef einhvers staðar er þörf á pólitískum afskiptum þá er það innan bankageirans og ég ætla rétt að vona að allir stjórnmálamenn lepji ekki upp þessa vitleysu að bankar eigi að vera friði fyrir stjórnmálamönnum. Það var einmitt afskiptaleysi stjórnmálamanna af bönkunum sem kom Íslandi á hausinn. Ekki má rugla saman bankatengda fyrirgreiðslu stjórnmálamanna og afskiptasemi.
    Stjórnmálamennirnir verða að hafa skýra stefnu með bankana og gera lagarammann þannig úr garði að bankabrjálæðið fyrir hrun endurtaki sig ekki.

  • Hægt verður að tala um kynjajafnræði þegar “Pálína Magnúsdóttir” verður ráðin ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis. ÞÞ

    „Með tilliti til huglægrar getu Páls ætti hann að búa yfir getu til að auka færni sína á lestri á gögnum úr töflum og myndum í nýju starfi,“

  • Að sjóalfsögðu mega alþingismenn segja það sem þeir meina, en sama á yfir alla að ganga.

    þegar Helgi Hjörvar kallar það skandal að ráða mann sem var talinn hæfastur, og er ekki svo mikið sem víttur fyrir á þingi, þá er það ok.

    Þegar Birgitta þingmaður hreyfingarinnar hins vegar spyr hvort ekki sé ráð að Björgólfur skili eitthvað af því sem hann hefur stolið frá þjóðinni áður en gjaldkeri samfylkingarinnar réttir honum meira að leika sér með, þá er viðkomandi þingmaður víttur af forseta alþingis, sem er samfylkingarkona.

    Þarna er ekki verið að gæta jafnræðis. Menn sem kenna sig við frelsi, bræðralag og jafnrétti ættu að vera með þessa hluti á hreinu. Bóksalinn Helgi Hjörvar má tala þannig að í honum heyrist. Til þess er hann kosinn inn á þing. Birgitta á hins vegar að hafa sömu réttindi, jafnvel þó það kunni að særa gjaldkera samfylkingarinnar eitthvað, og kannski einhver viðhengi gömlu útrásarnáunganna í leiðinni. Það verður þá bara að hafa það.

  • Jón Jón Jónsson

    Hvernig ætlar Steingrímur J. nú að sitja áfram í sínu hæga sæti?

    Hann skipaði í stjórnina, hann handvaldi sjálfur sem ráðherra í stjórnina.

    Sýndi hann ekki af sér alvarlegt dómgreindarleysi með því, sem ráðherra?

    Tek svo undir aðfinnslur joi, hvað varðar skinhelgi Samfó, sem birtist reyndar einnig á þingi, þá Geir gunga var einn sendur til Landsdóms (þar var Mörður reyndar sá eini í því liði, sem var samkvæmur sjálfum sér, að eitt skyldi yfir alla ganga, þá fékk hann stjörnu í kjósendakladda minn)
    … en þá að aðfinnslum joi af svipuðum toga:

    „Þegar Birgitta þingmaður Hreyfingarinnar hins vegar spyr hvort ekki sé ráð að Björgólfur skili eitthvað af því sem hann hefur stolið frá þjóðinni áður en gjaldkeri Samfylkingarinnar (Vilhjálmur Þorsteinsson, gamall makker Björgólfs)réttir honum meira að leika sér með, þá er viðkomandi þingmaður víttur af forseta alþingis, sem er Samfylkingarkona (dj Ásta Ragnheiður)“

  • Jón Jón Jónsson

    Er Samfylkingin orðin sveit málaliða sýndarveruleika CCP?
    Og VG málaliðar CCCP?

  • Óttalegt bull er þessi bloggfærsla þín Mörður. Það sér allt hugsandi fólk að Bankasýslan er óþörf, bara stofnuð til að koma pólitísku taumhaldi á bankana. Svo þegar stjórn Bankasýslunnar gleymir að spyrja ykkur ofstækiskratana ( gömlu kommana sem enn eruð fullir heiftar ) leyfis þá ærist kratahjörðin og hrópar spilling, spilling. Svo leggur kratahyskið á ráðin og fremur ofbeldisverk á pólitískum mótherjum.

  • Heiða, kapítalisti. Það verður að snúa af braut kapítalisma og frjálshyggju vegna þess að sú hugmyndafræði gengur ekki upp, hún tortímir heiminum. Þetta verður ekki gert nema með róttækum pólitískum afskiptum.
    Menn rísa hér upp og hallmæla gömlu ríkisbönkunum og hver lepur frasana upp eftir öðrum. En hvað tók við? Nokkuð sem var margfalt verra en ríkisbankarnir. Einkavæddir bankar sem settu land og heimili landsins á hausinn. Ég óska eftir að það verði amk 1 viðskiptabanki í eigu ríkisins.

  • Jón Jón Jónsson

    Mörður fellur reyndar hér í sinna fúla pytt, hvað það varðar,
    að draga upp helgimynd af tveimur þingmannsblókum,
    sem hreyfðu ekki rassgatið
    fyrr en bloggheimar loguðu:

    http://blog.eyjan.is/illugi/2011/10/26/med-fingrafor-a-salinni/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur