Þetta var auðvitað óhemjulega vanhugsað og ruddalegt hjá Sigurði Inga Jóhannssyni, að ætla sér að henda heilum lagabálki á haugana og gera að engu mikla vinnu fagmanna, embættismanna, stjórnmálamanna, starfsmanna hagsmunasamtaka og ólaunaðra áhugamanna með því að nema úr gildi náttúruverndarlögin nr. 60/2103 – afturkall hét það í fréttatilkynningunni einsog svona nokkuð færi fram í morgunkaffinu hjá ráðherranum á skrifstofunni – þetta gat einhvernveginn ekki gerst. Fagnaðarlæti hjá andstæðingum ýmissa parta frumvarpsins báru líka merki um þetta – einsog framkvæmd á sviði eftir pöntun þrátt fyrir aulahroll. Svona á nútímasamfélag bara ekki að virka!
Þetta dregur hinsvegar ekki úr heiðri þingmanna meiri- og minnihluta umhverfis- og samgöngunefndar nú þegar þeir hafa afstýrt þessu slysi. Takk Katrín Júlíusdóttir og Jakobsdóttir, Róbert Marshall og Birgitta Jónsdóttir fyrir góðan og skynsamlegan málatilbúnað. Takk Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson og Vilhjálmur Árnason, sem voru í þeirri erfiðu stöðu að láta afturkallsákvörðun flokka sinna víkja, og takk Höskuldur Þórhallsson nefndarformaður fyrir víðsýni og hugrekki. Spái því reyndar að Höskuldur vaxi við þetta sem stjórnmálamaður. Auðvitað taka menn eftir því um samfélagið þegar allt í einu kemur í ljós að í Nýjuframsókn er maður sem getur tekið þátt í rökræðum og leitt mál í sátt til hafnar.
Það er auðvitað ekki bitið úr nálinni. Lögin taka fyrst gildi þarnæsta sumar og þó eru í þeim svo margar umbætur sem hefðu þurft að komast strax í gagnið – sjáiði bara hvernig við erum að arðræna og níða niður alla fallegu ferðamannastaðina. Bót í máli að þótt lögin séu ekki komin í gildi fara þau strax að hafa áhrif á hegðun og atferli. Það á vonandi við um utanvegaakstursákvæðin, ef Landmælingar fá að halda áfram sinni vinnu í samstarfi við sveitarfélögin, náttúruverndar- og útivistarmenn.
Ágreiningurinn gufar upp
Utanvegaakstursmálin reyndust nefnilega vera í góðu lagi samkvæmt nefndarálitinu, þar sem mestallur hinn gríðarlegi ágreiningur er gufaður upp og aðeins eftir nokkur atriði að líta betur á. Þar skipta mestu annarsvegar ákvæðin um „sérstaka vernd“ og hinsvegar meðferð varúðarreglunnar. Vonandi að þokkalega fari um hina sérstöku vernd einstakra náttúrufyrirbæra – eldhrauna, fossa, votlendissvæða o.s.frv.. Þessi ákvæði eru nánast óvirk í gildandi lögum og umhverfisnefndin tekur nú þá afstöðu að þau verði að bíta í nýju lögunum þótt þau séu hreyfð eitthvað til. Um varúðarregluna virðist meirihluti nefndarinnar að meðtöldum Róberti Marshall hafa lent út í móa samkvæmt nefndarálitinu þar sem gert er ráð fyrir að stjórnvöld geti notað markmiðs- og túlkunarreglu til að taka „ólögmætar“ ákvarðanir um „mismunun“ þvert á önnur lög og dómstóla! Kannski þurftu meirihlutamenn bara að fá eitthvað til að sýna félögunum að þeir hafi ekki bara lúffað? En það hefði þá mátt skrifa af aðeins meira viti. Þetta skiptir samt litlu máli ef nú tekur við alvöru-vinna um þessi nokkur atriði sem út af standa.
Sigrar, ekki píslarvætti
Það er rétt að kalla þetta varnarsigur, en það er sigur samt að hafa komið nýju náttúruverndarlögunum úr þessum stórsjó. Tíminn vinnur með málstað náttúruverndar og þegar litið er yfir síðustu áratugi eru sigrarnir margir. Þrátt fyrir hvað það er lítill tími og sama hvað hann líður hægt – eiga náttúruverndarmenn og umhverfissinnar ekki að líta á sig sem píslarvotta, heldur sigurvegara.
Vantaði framsóknarsöfnuðinn ekki bara, þó ekki væri nema, einn lítinn plús í kladdann?
Eru rúnir öllu trausti og ekki treystandi yfir þröskuld, jafnvel ekki þó felliþröskuldur væri!
Tek undir flest af ofangreindu. Það er samt þannig að þó málstaðurinn sé góður þá þarf alltaf að gæta þess að fara ekki offari. Þá er hætt við að samskonar viðbrögð komi á móti. Ætli Sigurður Ingi hafi ekki dottið í þann pytt?
Áhyggjur mínar af þessu náttúruverndarlagafrumvarpi sem Merði hefur nú aftur tekist að véla í gegnum umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, eru fjölþættar og margslungnar. En umfram annað hefi áhyggjur af tvennu:
(1) að orðspor náttúrufræðinnar og náttúrufræðinga hljóti varanlegan skaða af því að náttúrufræðingar séu stöðugt með gildishlaðnar og geðþóttakenndar yfirlýsingar um hvað sé rétt og hvað sé rangt í náttúrunni (s.s. dómar um „vonda“ lífræðilega fjölbreytni (= „framandi“ tegundir) vs. „góða“ líffræðilega fjölbreytni (=innlendar tegundir)), með hæpnum rökum sem virðast oft úr lausu lofti gripnar, og
(2) að með ólögum sem engan veginn er hægt að framfylgja, missi almenningur smám saman virðingu fyrir lögum og reglum í landinu -sbr. þau fornu sannindi, sem raunar eru eldri en Íslands byggð, að „með lögum skal land byggja en með ólögum eyða“.
Maður veltir því fyrir sér hvort Framsóknarflokkurinn væri e.t.v. annar og betri í dag ef Höskuldur Þórhallsson hefði fengið að vera formaður lengur en fimm mínútur. Það fer heldur lítið fyrir honum í stóryrðaflaumi háværari framsóknarþingmanna þessa dagana.
Ekki hefði ég trúað því að Mörður væri maður strangrar ritskoðunar en hér hefur gagnlegum skoðanaskiptum hans og Dr. Aðalsteins Sigurgeirssonar verið eytt og er það miður fyrir umræðuna sem þarf að fara fram um jafn umfangsmikinn heilaspuna og 1. apríllögin.