Föstudagur 13.3.2009 - 08:55 - 4 ummæli

Jóhanna, og fúll á móti

Það var merkileg stund í gær þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra bað Breiðavíkurdrengina afsökunar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og almennings á meðferðinni sem þeir fengu á sínum tíma. Einfalt, beint frá hjartanu, einmitt það sem þurfti að segja. Hún lét svo ekki sitja við afsökunarbeiðnina eina heldur viðurkenndi að slík ummæli væri lítils virði ef þeim fylgdi ekki stefnubreyting í samningastappi sem fyrrverandi forsætisráðherra lét sér sæma að standa í við þessa menn sem líf þeirra margra hefur markast af því að gæslumenn á vegum ríkisins kipptu undan þeim fótunum á barnsaldri.

Auðvitað þarf að halda vel utan um almannasjóði. Hér er þó á ferð einstakt réttlætismál, og hugleiðingar allar um fordæmi eiga að víkja því við ætlum einmitt ekki að skapa neinskonar fordæmi: Svonalagað skal aldrei koma fyrir aftur á Íslandi.

Nú leysir Jóhanna þau mál þannig að allir geti sæmilega vel við unað – en það er augljóst af viðbrögðum Bárðar Ragnars Jónssonar í Fréttablaðinu – hann er forustumaður í félagsskap Breiðavíkurdrengja – að afsökunarbeiðnin sjálf úr munni forsætisráðherra Íslands skiptir miklu máli.

Og sá glaðlyndi við ofninn …

Meðan Jóhanna stendur sig sem aldrei fyrr í upphafi fjórða áratugar síns í stjórnmálum er ekkert nema þreytumerki að sjá á öðrum gamalreyndum stj´ronmæalamanni hinumegin litrófinu, nefnilega Birni Bjarnasyni. Björn er búinn að vera óvenju svipljótur síðan umstjórnarskipti, situr gneypur á þinginu í horninu sínu við ofninn og stafar af honum pirringurinn í allar áttir – einna helst að hann skipti orði við sessunaut sinn Jón Gunnarsson. Fer einkar vel á því að þeir félagar sitji saman í ofnshorninu.

Björn gagnrýnir í gær Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir „losaralega túlkun“ á „ýmsum grunnreglum stjórnarskrárinnar“ af því þinglausnir og kosningar eiga ekki að fara fram einsog Björn og aðrir Sjálfstæðisflokksmenn vilja helst – að þingið hætti strax og sem fæst mál afgreidd þannig að allt sé upp í loft þegar kosningabaráttan hefst. Björn tínir ekki til rök að hinni kórréttu túlkun sinni á stjórnarskránni nú eða á valdaárum sínum löngum og ströngum, sem einmitt hafa einkennst af óheflaðri umgengni við stjórnarskrána, heldur setur sig á háan hest gagnvart Jóhönnu Sigurðardóttur sem tækifærissinna og hálfgerðum kjána:

„Losaraleg túlkun á ýmsum grunnreglum stjórnskipunarinnar við myndun og síðan í störfum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vekur efasemdir um, að forsætisráðherrann átti sig á ábyrgð sinni. Hitt kemur ekki á óvart, að hún hafi ráð um eðlilega varúð að engu eða láti stjórnarskrána ekki njóti vafans, sem var þó höfuðmál hennar og Steingríms J. Sigfússonar í stjórnarandstöðu. Nú er allt sagt leyfilegt, af því að fólkið heimti það!“

Af því að fólkið heimtar það! – Það er auðvitað það síðasta sem virðulegir valdsmenn einsog Björn Bjarnason hlusta á. Fólkið sem hann og forfeður hans af ýmiskonar aðalsætt hafa haft vit fyrir öldum saman! Og svo kemur einhver kvenmaður – er hún ekki flugfreyja? – með sína losaralegu túlkun og hefur alla varúð að engu – og heldur að hún viti eitthvað um stjórnarskrána sem langafi fékk hjá kónginum!

Óvenju skýr hér sjálfur kjarninn í skapgerð Björns Bjarnasonar: Yfirlætið.

Nú og þá

Það er fróðlegt að virða fyrir sér þessa stjórnmálamenn tvo, á svipuðum aldri með svipaða reynslu af stjórnmálastörfum og setu í ríkisstjórn – þótt Jóhanna hafi setið lengur á þingi vegur Björn það upp með störfum á Morgunblaðinu og stjórnarráðinu – og bæði búa þau að pólitískum arfi að heiman, Björn frá föður sínum og frændum, Jóhanna frá foreldrum sínum en ekki síst ömmu sinni og nöfnu Egilsdóttur sem var í dýrlingatölu meðal verkakvenna þegar ég var að alast upp.

Munurinn er sá að annað þeirra er að hætta. Hinn kalda heimsmynd Björn Bjarnasonar er búið spil, hugmyndafræði félaganna góðu í rúst, landið sem hann stjórnaði á hausnum, flokkurinn í tilvistarkreppu. Hann yfirgefur hinn pólitíska vettvang með klofinn hjálm og rofinn skjöld, brynju slitna, sundrað sverð – og syndagjöld.

Jóhanna stendur á hátindi ferils síns og fæst þar við einhver erfiðustu stjórnarverk Íslandssögunnar. Það er kallað á hana til forustu í flokki sínum, sem nú um stundir mælist fylgismesti stjórnmálaflokkur landsins, og hvað eftir annað kemur í ljós að nú treysta Íslendingar henni best til leiðsagnar næstu örlagaár. Á þessum tíma biður hún lítilmagna afsökunar á gömlum misgerðum, skammar bissnesmenn á viðskiptaþingi fyrir bruðl og óhóf,  og stjórnar björgunarstarfinu fyrir hag heimila og fyrirtækja.

Annar stjórnmálamaðurinn er maður fortíðarinnar. Nútíminn pantar hinn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.3.2009 - 09:23 - 1 ummæli

Málið okkar

Yðar einlægur var feimnislega upp með sér í gærkvöldi, rétt einsog barn eftir óvænt hrós.

Ég fékk nefnilega allt í einu að vera framsögumaður menntamálanefndar og skilaði af mér nefndaráliti um þingsályktunartillöguna um íslenska málstefnu – sem er í fyrsta sinn sem Íslendingar samþykkja formlega að tala íslensku á Íslandi. Það verður gert í atkvæðagreiðslu seinna í dag, og vonandi verða allir á græna takkanum.

Framsagan sprettur af því að þegar ég kom inn á þingið í forföllum ISG eftir stjórnarskiptin bað Árni Páll mig að sinna verkum sínum í menntamálanefnd. Þar var þá einmitt verið að fjalla um málstefnuna, og nefndarmenn ákváðu að reyna að flýta einsog verða mætti þeirri umfjöllun til að hún kæmist á dagskrá þingsins áður en allt færi á fullt í hasarmálunum. Þetta tókst – en þegar loksins kom að málinu á þingfundinum í gær voru bæði nefndarformaðurinn og varaformaðurinn veðurteppt fyrir austan, Einar Már Sigurðarson og Þuríður Backman, en ég var hinsvegar á vappi í þinghúsinu að bíða eftir Helguvíkurfrumvarpinu.

Málstefnan er vandað og ýtarlegt rit þar sem er fjallað um margvísleg notkunarsvið tungumálsins, farið yfir stöðuna í hverjum um sig og gerðar tillögur um úrbætur eða nýja tilhögun. Þetta er ákaflega vel unnið eftir skynuglegum aðferðum – það er ekki einkum verið að huga að einstökum þáttum sjálfs tungumálsins sjálfs –það er ekki verið að leiðrétta málvillur! – heldur er áherslan fyrst og fremst lögð á það að við virðum íslenskuna og bætum hana með því að þjálfa okkur í að tala eigið mál um alla hluti forna og nýja. Fyrirmyndin er ekki skrýtni Spaugstofukennarinn með slaufuna og prikið heldur frekar íslenski heimsborgarinn Einar Ben: Ég skildi að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu.

Á þinginu var tekinn upp þessi þráður frá höfundum málstefnunnar. Athugasemdir sem bárust um stefnuplaggið voru athugaðar og skráðar vandlega en ákveðið að beina þeim til framhaldsstarfs – ákveðið að líta ekki svo á að hér væri komin HIN ÍSLENSKA MÁLSTEFNA í eitt skipti fyrir öll, höggvin í stein og sett á Þjóðminjasafnið, heldur ætti að líta á þetta sem merkilegt og nauðsynlegt verkefni í stöðugri mótun og þróun.

Það var hugsun þeirra sem stóðu að þessari stefnumótun, Guðrúnar Kvaran, Þórarins Eldjárns og félaga í Íslenskri málnefnd, og fjölmargra annarra sem tóku þátt í verkinu. Þau héldu meðal annars ellefu málþing allt árið 2008, um lagastöðu íslenskunnar, um íslensku í fjölmiðlum, í skólastarfi, í listum, í viðskiptalífinu, um kennaramenntun og svo framvegis, og síðan tók við úrvinnsla og umræða og skriftir. Og auðvitað á svona stefna sér miklu lengri aðdraganda – vinnu og umhugsun á undanförnum árum, alla síðustu öld – og þessvegna aftur í Fjölnismenn og aðra endurnýjunarmenn íslensku á tímum þjóðfrelsisbaráttunnar. Því ekki að nefna líka húmanista 17. og 18. aldar sem fyrstir uppgötvuðu verðmætin í íslenskri tungu og bókmenntum – með Árna Magnússon í fararbroddi.

Og þá er að hrósa fyrrverandi menntmæalaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir að flytja málið og hafa unnið vel að því. Það hrós er sjálfsagt eftir alla þá hildi sem ég hef háð við hana um önnur efni.

Undanfarið hefur íslenska og íslenskt ekki verið mikið í tísku. Við höfum meira verið í því að gleypa við nýjungum og gera sjálf okkur út á erlend mið til að vera betri útlendingar en útlendingarnir. Þó með undantekningum – einmitt hjá þeim sem hefur gengið best – þar sem er unnið úr íslenskum arfi og hann sambræddur straumum samtímans: Björk, Marel, Sigurrós, rithöfundarnir, Össur, fisksalar nýrra tíma á þróuðum neytendamörkuðum, hönnuðir, ýmsir myndlistarmenn, Baltasar og Friðrik Þór.

Ég held að á Nýja Íslandi – eða kannski frekar Nýja-Gamla Íslandi? – verði íslenskan höfð í metum upp á nýtt. Þetta eru ótrúleg auðæfi fyrir fámenna þjóð, að búa við fullkomið tungumál, þúsund ára gamalt en lagað að nútímaþörfum, með sögur, ljóð, orðtök, spakmæli sem hver menningarþjóð gæti verið stolt af. Við eigum að vera glöð að hafa fengið þennan arf frá öfum okkar og ömmum – og við eigum að færa hann enn aukinn börnum okkar og barnabörnum.

Áður en ég hníg niður úr væmni: Sagan fer sennilega ekki mildum höndum um 134.–136. löggjafarþing 2007–2009. Menn eiga samt eftir að minnast björgunarlaga núna eftir áramótin og laga um umbætur í lýðræðis- og stjórnkerfismálum, sem sum eru þegar samþykkt en önnur bíða enn í málþófi Sjálfstæðisflokksins. Kannski verður óbrotgjarnasti bautasteinn þingsins í vetur sá í sögunni að hafa samþykkt í fyrsta sinn íslenska málstefnu sem síðan hafi haft mikinn ávöxt? Það mærðar timbur ber ég nú úr orðhofi máli laufgað.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.3.2009 - 00:50 - 1 ummæli

Óskum eftir þingmönnum…

… sjá auglýsingu eftir þremur mismundandi útgáfum af tegundinni á tenglinum hér í dálkinum til vinstri (birtingaholt.is/mordur/).

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.3.2009 - 09:20 - 6 ummæli

Frakkar eru ekki asnar

Frakkar eru ekki asnar, segir Eva Joly en Jóhanna hefur nú skipað Evu ráðgjafa ríkisstjórnarinnar við rannsókn bankahrunsins og hugsanlegra sakamál í tengslum við það. Ég var að lesa viðtalið við hana í Mogganum (missti af henni hjá Agli) og þessi Frakki er allavega enginn asni. Það var svo sannarlega kominn tími til að fá erlendan mann – gestsaugu – til að horfa yfir þennan þátt í uppgjöri okkar eftir tíðindin í haust.

Nú eru liðnir fimm mánuðir – þar af fóru fjórir í rugl og bið og „Maybe I should have“ hjá síðustu ríkisstjórn. Auðvitað grunar fleiri en Spaugstofuna að tætararnir hafi verið í stöðugum gangi allan þennan langa tíma, og fé nú komið fyrir á órannsakanlegum reikningum. Vanti menn til hins sérstaka saksóknara á að útvega þá strax. Sé saksóknarinn sjálfur ekki nógu góður á að skipta.

Frakkar eru engir asnar, og það er einhvernveginn ekki gæfusvipur á því að hinn sérstaki saksóknari skuli í Mogganum hafna umsvifalaust þeirri skipan að hafa í þessu verki sjálfstæðan rannsóknardómara sem enginn getur hróflað við. Víst búum við að hefðum í lögreglu- og dómskerfi og ber að virða þeir svo langt sem þær ná. Hefðirnar dugðu okkur samt ekki gegnum bankahrunið – ekki til að stöðva fjárflótta til Tortola og álíka staða – ekki til að upplýsa eitt einasta sakamál hingað til í aðdraganda hrunsins og eftirleik.

Er hann annars í alvöru, þessi sérstaki saksóknari? Er hann eitthvað að gera? Býr hann að raunverulegri hæfni til að takast á við verkefni sitt? Þetta þarf kannski að skoða uppá nýtt. Ólafur Þór þessi Hauksson varð frægur fyrir að „leysa“ hlerunarmálin sem þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Árni Páll Árnason vöktu máls á um árið. Mér fannst það satt að segja ekki afar traustleg rannsókn. Kannski hefði franskur rannsóknardómari farið öðruvísi að – og tekið minna tillit til álits og hagsmuna þáverandi dómsmálaráðherra?

Frakkar eru engir asnar. Í vetur var ágæt grein í Mondinum þar sem einn af efnahagsblaðamönnunum hrósar franska hagkerfinu –- sem Engilsaxar hafa lengi hætt og nítt – fyrir að standa sig vel í kreppunni. Skrifa kannski meira um þetta seinna –- en í stuttu máli er franska hagkerfið blandara en nýlíberalískir kreddukallar  þola og traustur korpóratismi við lýði: Ríkisvald, verkalýðshreyfing, atvinnurekendur, háskólar og rannsóknastofnanir – hvað sem líður hægri og vinstri (sem sameinast reyndar þar í samfelldum gaullisma! hvað sem forsetinn ætlar sér í hvert skipti). Þeir eru vissulega seinni upp í góðærisskrúfum en standa höggin betur af sér þegar bólurnar springa. Kannski er kominn tími til þess fyrir okkur að litast um og víðar en í Economist og Forbes eftir fyrirmyndum við endurrreisnina?

Að lokum: Nafn franska lögfræðingsins hefur sætt ótrúlegri misþyrmingu í fjölmiðlum undanfarna daga. Ættarnafnið Joly er best að bera fram á íslensku [sjólí]. Á frönsku er fyrsta hljóðið raddað s sem er borið er fram með tungubrodd við tannberg (einsog í ensku measure). Joly er sjálfsagt í upphafi einhver sveit eða hérað í Frans, en er samhljóða algengu frönsku lýsingarorði, joli, sem merkir skemmtilegur, sætur, sniðugur — og djarfir orðsifjafræðingar hafa giskað á að sé skylt hinu háíslenska orði jól. Þannig að Eva sæta er svo sannarlega velkomin til Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.3.2009 - 11:06 - 1 ummæli

Mikki mús, kvennafylgið og kapítalisminn

Kátir voru karlar í SÁÁ-salnum í gær og fóru auðvitað allir á kostum enda gáfaðir, sterklega vaxnir, snjallir ræðumenn og einstaklega velheppnaðir frambjóðendur. Þetta var líka gott  fundarform, við stóðum sinn við hvert púlt, lagt hárauðu pappírsáklæði og töluðum ekki lengur en þrjár mínútur í einu en stjórnandinn var hinn undurfagri og röggsamlegi borgarfulltrúi Sigrún Elsa Smáradóttir. Og hóf karlakvöldið með glúrnum svipmyndum af karlmennsku frambjóðendanna fimm eftir ítarlega könnun meðal kvenna í flokknum!

Við ræddum auðvitað talsvert um karla og hlutskipti þeirra í heiminum – og vönduðum okkur við að hafa uppivið hina hrjúfu karllegu viðkvæmni án þess að detta í væmni. Auðvitað yrði að viðurkenna að þáttur í útrásardellunni og græðgissamfélaginu sem kennt er við árið 2007 væri öfgakarlmennska sem birtist í slagsmálum um gróða, völd og leiktæki á borð við fjallajeppa, einkaþotur og skemmtisnekkjur. Í hefð karlmennskunnar væru þó líka önnur gildi: Hin raka hlýja búningsklefans (orðtak Sigga Svavars) og karlfaðmurinn opni – einlægni og ábyrgð, hugrekki, æðruleysi (Traustur vinur / getur gert / kraftaverk / tralala). Á hinn bóginn – sagði ég – væri varasamt að alhæfa á þessum nótum um 2007-samfélagið. Það væri miklu rökréttar að virða það fyrir sér með hugtökunum vinstri og hægri. Við höfum einfaldlega misst sjónar á þeim gildum og því skipulagi sem jafnaðarstefna síðustu alda hefur fært okkur, og alltof margir tekið í praxís trú á þá kenningu Thatchers og Hólmsteins að samfélag sé ekki til heldur bara einstaklingar að hlaupa á eftir viðskiptahagsmunum.

Ný skýring á kvennafylginu

Pétur Tyrfingsson bar náttúrlega af á fundinum, ræðumaður af guðs náð og hefur einskis í misst frá Fylkingunni og Dagsbrún forðum tíð. Hann talaði meðal annars um hlutskipti karla í hjartnæmri ræðu: Þeir lentu í erfiðleikunum í skóla, þeir yrðu fórnarlömb alkóhólisma og einsemdar á efri árum – það þyrfti sannarlega að beina sjónum að sérstökum erfiðleikum karlkynsins. Dofri var litlu síðri að lýsa eigin raunum sem leitandi karlmaður í æsku – hann hefði til dæmis haft gaman af leikföngum í líki lítils fólks – og ekki uppgötvað fyrren um seinan að strákar leika sér ekki að dúkkum. Hörður þurfti auðvitað ekki annað en að opna faðminn en Helgi reyndi að svara lúmskri spurningu Lindu Vilhjálmsdóttur um það af hverju Samfylkingin nyti sífellt minni stuðnings karla en kvenna. Ég man ekki hvort það var Helgi eða einhver annar sem fann að lokum út að kvennafylgi Samfylkingarinnar hlyti að stafa af því hvað karlarnir í Samfylkingunni eru gjörvulegir!

Mikki mús og krónan

Við vorum líka í hefðbundnari pólitískum málum – kreppunni auðvitað, aðdraganda hennar og afleiðingum, ræddum talsvert um verðtryggingu og lausnir fyrir skuldsettar fjölskyldur, og þar með um Evrópusambandið – sem allir voru sammála um – og um gjaldmiðilinn. Dofri upplýsti meðal annars að íslenska krónan væri aumari en Mikkamús-peningarnir í Disneylandi! Þar koma 600 þúsund á ári, tvöfalt fleiri en nota krónuna, og Mikkamús-peningurinn hefur þann mikla kost að ef maður á fyrir einum hamborgara með Mikkamús-seðli getur maður geymt seðilinn og komi aftur eftir heilt ár – og enn dugar Mikkamús-seðillinn fyrir einum hamborgara. Við féllum allir í stafi yfir þessum merkilega gjaldmiðli, og strax komu upp hugleiðingar um það hvernig Íslendingar gætu skipta út krónunni fyrir þessa góðu hamborgaramynt …

Össur og VG
Össur Skarphéðinsson stórframbjóðandi heiðraði okkur með nærveru sinni nokkra stund og spurði Pétur meðal annars eftir mikið lof af hverju hann hefði nú valið Samfylkinguna fram yfir VG – Pétur svaraði því ágætlega og svo töluðum við allir nokkuð hlýlega um VG og lofuðum bandalagi eða blokk í kosningunum, meira að segja Hörður, sem þolir þó misjafnlega ýmsa í þeim flokki frá óeirðunum í Allaballa forðum daga. Ég sagði frá reynslu minni í þinginu af VG síðan nýja stjórnin tók við, og hældi forystumönnum VG á hvert reipi. Þeir eru núna að leggja sig fram um að bregðast ekki trausti og vera ábyrgir. Við eigum að halda áfram þessu stjórnarsamstarfi, með stuðningi annarra félagshyggjuafla eða án. Þar eiga landsins gagn og nauðsynjar að ganga fyrir – en það er heldur ekkert fráleitt að ímynda sé að náin samvinna flokkanna tveggja geti leitt til nýrra áfanga á langri leið við að sameina íslenska vinstrimenn. Því hverju munar í raun og veru? Ekkert mjög miklu öðru en ESB – og um það er eðlilegast að þjóðin dæmi sjálf með sem minnstum milliliðum í flokkakerfinu.

Kapítalisminn er vondur

Svo töluðum við að ósk fundarmanna um stóriðju og sprota (Dofri, Hörður, ég), um heilbrigðiskerfið (Hörður, Pétur), um lífeyrissjóðina, stefnu þeirra og vald (Helgi – það þarf meira af þeim ræðum seinna!), um vanræktan arf okkar frá Gamla Íslandi bænda og sjómanna (ég: vinnusemi, þrautseigja, nægjusemi, samtök , samhjálp), og um sjálfan kapítalismann (Pétur): – Það er ekkert vit að vera að tala þannig að fólkið á Íslandi hafi ruglast eða að við þurfum einhver gildi fram og aftur. Hér bara kom í ljós að það var alltof mikill kapítalismi! Kapítalisminn hugsar ekkert um fólkið heldur bara um forstjórana og hlutabréfin. Við eigum að einbeita okkur að honum. Fólkið er ekkert vont – það er kapítalisminn sem er vondur.

Og af ánægju út að eyrum  hver einasta kerling hló.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.3.2009 - 12:04 - 9 ummæli

Þess vegna ekki Helguvík

Ég ætla ekki að styðja stjórnarfrumvarpið um Helguvík, sem nú er komið á dagskrá þingsins og fer í 1. umræðu í dag eða á morgun. Mér þykir vænt um ríkisstjórnina og er ekki síður hlýtt til iðnaðarráðherrans, en hér eru það samviskan og sannfæringin sem verða að ráða ferðinni. Þetta hef ég sagt í þingflokki Samfylkingarinnar sem ég er hluti af þessa daga sem varamaður ISG, og svo skrifaði ég þessa grein á Smuguna í gær fyrir hana Björg Evu: [www.smugan.is/pistlar/penninn/mordur-arnason/nr/1208].

 

Það þarf sannarlega að skapa störf, og nú segist Össur hér á Eyjunni vera að skapa fjögur þúsund störf, þar á meðal við hugvit og listir. Er ekki rétt að þetta blessaða Helguvíkurfrumvarp sofni bara í nefnd? Mér finnst að minsta kosti að áður en nokkuð annað gerist eigi ríku kallarnir að sýna okkur peningana og sanna að þetta borgi sig fyrir Íslendinga – sem síðast sýnist afar hæpið Indriða H. Þorlákssyni núverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins: [www.inhauth.blog.is/blog/inhauth/].

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.3.2009 - 23:56 - 2 ummæli

Ingibjörg – – Jóhanna

Fréttirnar frá Ingibjörgu Sólrúnu eru okkur öllum harmsefni. Hún hefur samt tekið rétta ákvörðun: Við þessar aðstæður verður hún sjálf og fjölskylda hennar að ganga fyrir.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur lýst yfir því að hún hafi enga löngun til að bæta á sig formennsku í flokknum og leiðsögn í kosningunum framundan. Það skilja allir. Hún er forsætisráðherra á einhverjum erfiðustu tímum lýðveldissögunnar, eftir langa og farsæla þjónustu við jafnaðarstefnuna og fólkið í landinu. Samt verður maður nú að ganga undir manns hönd að auðvelda henni að gera einmitt þetta, því hafi Samfylkingin einhverntíma haft þörf fyrir reyndan og sterkan forystumann þá er það núna.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.3.2009 - 09:54 - 3 ummæli

Og allt í einu allir sammála!

Það var notaleg stund fyrir yðar einlægan varaþingmann að samþykkja ný lög um eftirlaun ráðherra og þingmanna í gær. Afnema einfaldlega þessi forréttindi og setja þarmeð afar hæfilegan punkt aftan við söguna um eftirlaun Davíðs, Halldórs og félaga frá 2003.

Og nú voru allir sammála! Jafnvel gamlir Sjálfstæðisflokksráðherrar greiddu frumvarpinu atkvæði. Raunar sat Björn Bjarnason nokkuð gneypur í sæti sínu við þessa endanlegu niðurlægingu Heimastjórnarflokksins sem einusinni fór með öll völd í landi og þingi. Aðrir gamlir Davíðsmenn reyndu að dreifa athyglinni – Sigurður Kári vildi öll völd til Kjararáðs og Pétur Blöndal berst fyrir því að alþingismenn fái (einir launamanna!) að velja sér lífeyrissjóð. Pétur segir reyndar réttilega að þingmenn séu ekki opinberir starfsmenn og því ekki sjálfsagt að þeir séu þar í sjóði. Til að gera gott úr málinu var svo lagt til — munnlega — í annarri umræðu að frumvarpinu yrði breytt þannig að Pétur H. Blöndal fengi að velja sér lífeyrissjóð.

Til að afnema sérréttindin þurfti að koma Sjálfstæðisflokknum í stjórnarandstöðu. Þetta var orðin opinber stefna Samfylkingarinnar og fleiri flokka fyrir síðustu kosningar og Valgerður Bjarna „fékk“ að flytja frumvarpið sitt sem varaþingmaður strax fyrsta veturinn, en þrátt fyrir ákvæði í stjórnarsáttmála tókst Samfylkingunni ekki að fá íhaldið með í þetta mál eftir hrunið – og þá var það of lítið og of seint. Okkur fannst mörgum að forystumenn flokksins ættu að leggja meiri áherslu á þetta í byrjun stjórnarsamstarfs og mér leiddist að sjá félaga mína flækta í þetta núna fyrir jólin.

Auðvitað var það svo þjóðin sem hafði vit fyrir þinginu – fyrst með miklum mótmælum jólin 2003 og svo að lokum með því að gera afnám eftirlaunalaganna að einni af meginkröfunum haustsins á Austurvelli og öðrum mótmæla- og umræðufundum.
Ég talaði bert í umræðunum um þetta mál núna í þingsalnum. Málið var auðvitað ákaflega táknrænt fyrir stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Ráðherrar flokkanna bjuggu til frumvarp um eigin kjör, héldu áfram að byggja upp forréttindi kjörinna fulltrúa og juku greiðslur til sjálfra sín allra mest.

Allra erfiðast var að sjá flækta í þetta forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna, Steingrím, Guðjón Arnar og Össur. Ég veit ekki enn hvernig það bar nákvæmlega til og bíð bara eftir ævisögum þeirra félaga – verð að láta mér nægja að núna hafa þeir allir iðrast. Reyndar tók Össur út sína refsingu fyrir löngu, því ef eitthvert einstakt mál felldi hann úr formannsstóli Samfylkingarinnar árið 2005 fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, þá var það einmitt eftirlaunamálið. Við Össur erum gamlir vinir, og ég trúi aldrei uppá hann neinu ljótu – til þess hefur hann alltof indæla nærveru einsog Maggi bróðir hans segir – og tel þessvegna að hann hafi flækst inní þetta af fljótfærni og nánast einsog af skyndilegum barnaskap. Ég held hinsvegar að bakvið samvinnu forystumanna okkar, ekki síst Guðmundar Árna Stefánssonar, við menn Davíðs í þessu máli hafi legið sá draumur hjá hluta af þingflokknum að það væri einhvernveginn hægt að kljúfa stjórnina og mynda nýja með Sjálfstæðisflokknum. Stuðningurinn í eftirlaunamálinu hafi átt að sýna að flokkurinn væri stjórntækur. Viðreisnardraumurinn kraumaði lengi og víðar en í JBH. — Hvaða leik VG og Frjálslyndir svo voru í veit ég ekki, og kannski ekki þeir sjálfir heldur.

Inni í þingflokknum kom strax fram andstaða við málið, fámenn en hávær, og smám saman fjölgaði í þeim hópi, einkum eftir að ASÍ lét í sér heyra. Enn eru á kreiki sögur um „konuna“ sem hafi komið og snúið þingflokknum á einu kvöldi. Ingibjörg Sólrún átti vissulega þátt í sinnaskiptunum – en það er rétt að upplýsa núna að sá sem kallaði hana til (hún var þá varaformaður en utan þings) á þingflokksfundinn var yðar einlægur – ég hringdi daginn eftir að frumvarpið kom fram og bað hana um hjálp vegna þess að hér væru alvarleg tíðindi á ferð og ekki nógu margir með fullum fimm í þingflokki Samfylkingarinnar.

Þetta var mikil prófraun fyrir nýjan þingmann, flokkshollan vissulega en með innbyggða óstýriláta samvisku. Í umræðunum um frumvarpið urðum við að sætta okkur við að taka ekki til máls, og forystumennirnir reyndu að lokum að fá alla til að sitja hjá – nema Guðmund Árna sem sneri upp á sig og sagðist vesgú ætla að samþykkja sitt eigið frumvarp. Bryndís og KLM voru í stjórn þingflokksins og kölluðu hvern þingmann á sérstakan fund til að pína hann í hjásetu – en fljótt kom í ljós að það gekk ekki hjá öllum. Minn fundur með þeim var stuttur.

Fyrir utan þinghúsið óx ólgan í samfélaginu en Davíð brást við einsog alltaf: Setti undir sig hausinn gegn andstæðingunum og keyrði frumvarpið í gegn. Ég held reyndar að fáum hafi liðið vel að samþykkja þetta, og kannski er þeim létt núna þótt þeir hafi ekki um það mörg orð, sumum Frömmurum og Sjöllum sem gátu í gær ýtt á græna takkann.

En meðal hinna ánægðustu eru þó sennilega þeir sem sögðu nei 2003, bara fjórtán þingmenn og varaþingmenn, og höfðu allir þurft að hafa fyrir þeirri afstöðu í flokkunum sínum. Nefnilega:

Anna Kristín Gunnarsdóttir
Ágúst Ólafur Ágústsson
Ásta R. Jóhannesdóttir
Grétar Mar Jónsson
Gunnar Örlygsson
Helgi Hjörvar
Hlynur Hallsson
Jóhanna Sigurðardóttir
Jón Bjarnason
Katrín Júlíusdóttir
Mörður Árnason
Sigurjón Þórðarson
Steinunn K. Pétursdóttir
Ögmundur Jónasson.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.3.2009 - 17:37 - 8 ummæli

Síðast þegar við borguðum ekki

Í upphafi kreppunnar í haust fóru ólíklegustu menn í fötin hans Daríós Fós og brugðust við tíðindum um þjóðvæðingu bankaskulda með því að hrópa: Við borgum ekki!

Frægastur varð Davíð Oddsson kvöldið góða í Kastljósi – sjálfur Seðlabankastjóri landsins – en margir hafa síðar fórnað höndum yfir ástandinu og fundið þessa útleið eina: Við bara borgum ekki.

Eðlileg viðbrögð þegar himinninn hrundi ofan á okkur. Neita bara öllu, gefa skít í staðreyndirnar. Og stundum er alveg sjálfsagt að barasta borga ekki.

Hjá Daríó Fó var anarkísk lágstéttaruppreisn, og þegar Kastró hvatti fátæku löndin til að borga ekki fyrir nokkrum áratugum voru lánardrottnarnir Alþjóðabankinn og ríku löndin. Ekki einsog í okkar tilviki: sveitarfélög, slökkviliðsstöðvar og fuglaverndarfélög með Bretland og Evrópusambandið á bak við sig.

Enn eru samt uppi þau ráð við vandanum að borga með einhverjum hætti ekki. Reyna að láta hina erlendu kröfuhafa splæsa í 20% af íslenskum húsnæðisskuldum – eða gera sem minnst og athuga hvort reikningurinn gufar kannski upp. Þessvegna er hollt að rifja upp hvað gerðist síðast þegar Íslendingar „borguðu ekki“ (ég þakka snöggvast ábendingar um þetta efni norðan úr landi). Í stuttu máli var afleiðingin sú að heimskreppan mikla uppúr 1930 varð hér miklu dýpri og langærri en í öllum grannlöndunum.

Íslandsbanki fellur 1929

Elsti Íslandsbankinn var stofnaður 1904. Það var hlutafélag og átti landssjóður 2/5 en aðrir hluthafar voru fyrst og fremst útlendingar, Danir og Norðmenn. Bankinn starfaði við hlið Landsbankans en var þó falin seðlaútgáfa – þetta var fyrsti seðlabanki landsins. Á þriðja áratugnum hallaði mjög undan fæti fyrir bankanum, og kann íslensk pólitík að hafa valdið nokkru. Bankamálin urðu bitbein í miklum átök hægrimanna og Framsóknarflokksins, og var Íslandsbanki talinn á áhrifasvæði hinna fyrrnefndu. Á þessum fyrstu árum fullveldisins blésu þjóðernisvindar líka gegn stórbanka í erlendri meirihlutaeigu á Íslandi. Mestu skipti þó að Landsbankinn hafði verið rekinn sem einskonar sparisjóður, segir Ólafur Björnsson prófessor og alþingismaður í ágætri bók um bankann, en Íslandsbanki veitti lán með meiri áhættu til atvinnurekstrar, einkum útgerðar. Útgerðin lenti í vanda í lok áratugarins, og bankinn þar með líka. Þessir erfiðleikar leiddu að lokum til þess að bankanum var lokað í febrúar 1929.

„óbætanlegur hnekkir“

Þá upphefjast strax deilur um það hvort taka eigi bankann til skipta eða endurreisa hann í einhverri mynd. Ólafur segir í bók sinni að bankinn hafi alla ævi sína „haft með höndum mestan hluta gjaldeyrisviðskipta landsins. Er bankanum var lokað skuldaði hann allmiklar fjárhæðir erlendis. Öllum mátti vera ljóst að það væri hin mesta hneisa fyrir landið og óbætanlegur hnekkir fyrir lánstraust þess erlendis ef ekki væri staðið við þessar skuldbindingar bankans“ – en meðal þeirra var hið fræga ,enska lán‘ frá 1921 í Hambro-banka í Lundúnum. Yfirmenn í Hambro skoruðu á stjórnvöld að endurreisa bankann, og það voru líka eindregin ráð Sveins Björnssonar, þá sendiherra í Höfn, síðar forseta Íslands.

Skemmst er frá því að segja að Mörlandinn þráttaði um það í rúmt ár hvað ætti að gera við bankann, og jafnt lánardrottnar sem erlendir hluthafar (sem raunar höfðu engin ráð lengur í bankanum) biðu þann tíma með óþreyju þess sem verða vildi í íslenskri pólitík. Ýmsir töldu að hér við ætti að sitja – að það ætti ekkert að vera að borga „skuldir óreiðumanna“ í Íslandsbanka 1929 og 1930.

Að lokum var þó ákveðið að stofna Útvegsbankann á rústum hins fyrsta Íslandsbanka og var það gert í mars árið eftir, 1930. Seint og um síðir var samið um að borga að mestu skuldir bankans, en á hinn bóginn ákveðið með lögum að afskrifa hlutaféð. Skaðinn var skeður hvað lánin varðaði, en lögin um afskrift hlutafjárins segir Ólafur hafa bakað lánstrausti Íslendinga á norrænum fjármagnsmörkuðum „mikinn álitshnekki“, en margt annað gátu Íslendingar yfirleitt ekki leitað á þessum tíma eftir lánsfé.

Kreppan mikla fram að stríði

Niðurstaða hins varfærna fræðimanns Ólafs Björnssonar er merkileg um þetta mál: „Má telja víst að sá álitshnekkir sem lokun Íslandsbanka hlaut að valda íslenskum stjórnvöldum á erlendum vettvangi hafi átt eigi lítinn þátt í því að allan fórða áratug þessarar aldar mátti heita að erlendir fjármagnsmarkaðir væru Íslendingum lokaðir, en það leiddi aftur til þeirra miklu gjaldeyrisörðugleika sem settu svip sinn á allt athafnalíf hér á landi á þessum tíma og voru því fjötur um fót.“

Kreppan mikla skall á vestra í október 1929 og hafði strax áhrif um allan heim. Í Bandaríkjunum er batinn yfirleitt tímasettur á misserin eftir embættistöku Roosevelts í ársbyrjun 1933, og margir fræðimenn telja að kreppunni vestra hafi lokið um miðjan áratuginn. Á Íslandi varpaði kreppan hinsvegar skugga yfir atvinnulíf og lífskjör allan fjórða áratuginn, og í grófum dráttum má segja að kreppunni miklu á Íslandi hafi ekki lokið fyrr en breski herinn stökk á land 10. maí 1940 og fór að bjóða atvinnu við braggabyggingar, vegi og flugvelli. Og svo kom Kaninn.

Ákvarðanir stjórnvalda í bankamálum frá ársbyrjun 1929 fram á útmánuði 1930 – eða ákvarðanafælni þeirra? – ollu því að kreppan mikla varð dýpri og stóð lengur á Íslandi en nokkur ástæða var til. Þær eyðilögðu aðgang að lánsfé, afli þeirra hluta sem gera skyldi til að hrinda kreppunni af höndum sér einsog Roosevelt tókst í Ameríku, og orðspor Íslendinga í fjármálum var lengi að taka við sér.

Þannig var það síðast þegar við borguðum ekki.

(Heimild einkum: Saga Íslandsbanka hf. og Útvegsbanka Íslands 1904–1980 e. Ólaf Björnsson. Rv. 1981.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.3.2009 - 15:19 - Rita ummæli

9. mars — karlar fylkja liði!

Áttundi mars er baráttudagur kvenna um allan heim, og þá göngum við öll vonglöð á vit hinnar nýju björtu jafnréttisveraldar.

Níundi mars verður hinsvegar helgaður körlum. Það er mánudagskvöld, og karlakvintett prófkjörsframbjóðenda býður til karlakvölds á karlaslóðum – í fundarsal SÁÁ í Efstaleiti 7.

Karlarnir fimm hyggjast einkum ræða karlamál, frá efnahags- og atvinnumálum til heilbrigðis- og uppeldismála.

Kvintettinn valdist saman með sérstakri úrtaksaðferð þar sem þýðið gengst undir framkvæmd greiningar á margfeldi aldurs, þyngdar og andlegs atgervis. Í kvintettinum eru (í öfugri stafrófsröð): Pétur Tyrfingsson, Mörður Árnason, Hörður Oddfríðarson, Helgi Hjörvar og Dofri Hermannsson.

Þessir karlar spjalla hver um sig stutt en oft, og á milli fá fundargestir að gera athugasemdir, spyrja, vera gáfulegir og æsa sig. Slagsmál eru samt bönnuð í þetta sinn. Svo er aldrei að vita nema aðrir frambjóðendur reki inn nefið og opni munninn.

Í tilkynningu um karlakvöldið eru lysthafar minntir á hina röku hlýju búningsklefans og hvattir til að njóta góðrar kvöldstundar í karlafaðmi.

Þetta verður gaman …

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur