Miðvikudagur 24.02.2010 - 21:22 - FB ummæli ()

Hughrif á „gufunni“

water_dropGjörhygli (gjörathygli á líkamann) eða „mindfulness“ er meðferð  sem á ættir sínar að rekja til búddisma og sem sálfræðingar og geðlæknar nota mikið þessa daganna ásamt hugrænni atferlismeðferð til lækninga á kvíða og þunglyndi.  Að veita augnablikinu óskipta athygli og njóta tilfinningaáhrifanna í jákvæðum hughrifum er galdurinn. Til dæmis má finna kyrrðina og heyra dropahljóðið í myndinni hér til hliðar. Þessi áhrif veita innri ró og hjálpar til með einbeitingu. Á þessu byggist listsköpun og því mikilvægt að listin sé sem flestum aðgengileg. Daglega verðum við fyrir allskonar hughrifum en ekki öllum jákvæðum. Misjafnt er á hvaða mið við sækjum og oft gefst ekki tími til að veita hversdagslegum augnablikum nógu mikla athygli. Oft er spennan í aðalhlutverki enda líður dagurinn oft eins og rússíbanaferð, upp og niður. Sumir festast í fréttum líðandi stunda þar sem fátt eitt er rætt annað en bankahrunið og Icesave. Þá leitar hugurinn í neikvæðar áttir, örvæntingu, stress og kvíða. Sennilega var forsetinn okkar þó undir jákvæðum hughrifum á Bessastöðum um áramótin þegar hann hlustaði eftir vilja þjóðarinnar og tók síðan ákvörðun um að skrifa ekki undir Icesavelögin. Annað nærtækara dæmi um sterk hughrif sem fallegt hús veitir er Heilsuverndarstöðin við Barónstíg vegna þess að það kallar á sterkar tilfinningar sem tengist menningarsögunni og vöggu heilsugæslunnar í landinu.

Venjulega hlusta ég á  „Í bítið“ á Bylgjunni sem er frábær morgunþáttur, skemmtilega blandaður af mikilvægri umræðu, góðum lögum og hughrifum enda stjórnandinn Heimir Karlsson sennilega okkar besti útvarpsmaður og Solla og Þráinn standa sig einnig vel. En í vikunni var einhver leiðinleg umræða að mér fannst svo ég skipti um rás í útvarpinu og datt „óvart“ niður á Rás 1 og kynningu á íslenskri tónlist í þættinum Morgunstund í umsjón Kristjáns Kristjánssonar (KK), tónlistarmanns. Þvílíkt lagaval og hughrif í morgunsárið. Gamalt og hálf hallærislegt að því er manni fannst fyrir ekki svo löngu síðan en nú svo klassískt og þjóðlegt. Jafnvel „Litli skósmiðurinn“ með Ingibjörgu Þorbergs og Marsbræðrum var orðið klassískt enda hitti öskubuskutextinn alveg í mark. Gamlir skór fá nýja lífdaga svipað og prjónarnir góðu hjá prjónakonunum í dag. Síðan kom lagið „Gullna táknið“ með nafna mínum heitnum Vilhjálmi Vilhjálmssyni, þvílíkur flutningur og léttir frá dægurþrasinu. Þvílíkur fjársjóður sem þessi gömlu dægurlög eru og sem fá sífellt meiri merkingu og karakter með aldrinum. Til hamingju KK með frábæran þátt á gömlu góðu „gufunni“ til að létta andann.  Þjóðin þarf öll á þessm hughrifum að halda í bland við umræðuna í dag, ekki bara gamla fólkið. Þá má einnig benda á lestur valinkunnra Íslendinga á mestu perlu íslenskra bókmennta, Passíusálma Hallgríms Péturssonar á „gufunni“ fram að páskum sem getur örugglega hjálpað íslensku þjóðinni mikið á hennar píslargöngu eftir hrun, ekki síst þar sem styttist óðum í svörtu skýrsluna frægu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn