Sl. daga hefur endurtekið verið fjallað um ágæti brjóstastækkana á Stöð2, í þættinum, Ísland í dag. Það fyrsta sem mér datt í hug er ég sá fyrri þáttinn var auglýsingagildið fyrir slíkar aðgerðir. Því er áhugavert að setja þessa umræðu líka í samband við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem nú er mikið til umræðu. Þessar „lækningar“ hafa verið mikið í umræðunni á sl. árum og landinn fengið að fylgjast vel með þeim í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum og hvað hægt sé að gera.
Nýlega var efnið til umfjöllunar á Læknadögum þar sem meðal annars var fjallað um fegrunaraðgerðir á kynfærum kvenna. Táarstyttingar hafa einnig verið vinsælar í vesturheimi, þar sem þessar lýtaaðgerðir hafa gengið hvað lengst, enda vel borgaðar og sennilega er fræðagreininni þar litlar takmarkanir settar.
Ef almenningur þarf ekki að hugsa um kostnaðinn er sennilega ekkert athugavert um frjálst val á slíkum aðgerðum. Sorglegast er þó að sjá hvert slíkar fegrunaraðgerðir geta leitt okkur, eins og sannaðist vel í lýtalækningasögu Michael Jacksons heitins og sem gott er að hafa í huga.