Vaxandi sýklalyfjaónæmi helsta sýkingarvalds barna, pneumókokksins, hefur leitt til vaxandi vandamála í meðhöndlun alvarlegra miðeyrnabólgusýkinga og innlagna á sjúkrahús hér á landi. Þetta vandamál er aðallega tilkomið vegna ofnotkunar sýklalyfjanna hér á landi um árabil. Gleymum því ekki að flest börn fá eyrnabólgur á fyrstu aldursárunum og sum oft auk þess sem eyrnabólgurnar eru algengasta ástæða fyrir komum barna til lækna. Það hlýtur því að skjóta skökku við að bjóða ekki upp á nútímalega greiningu og meðferð eins og klínískar leiðbeiningar segja til um, rétt eins og fullorðnir fá við sínum vandamálum. Flestar miðeyrnabólgur læknast hins vegar, sem betur fer, jafnvel af sjálfu sér án sýklalyfjameðferðar auk þess sem meirihluti barna á Íslandi bera sýklalyfjaónæmar bakteríur fyrstu vikurnar eftir hvern sýklalyfjakúr sem eykur mikið á ónæmisvandann út í allt þjóðfélagið.
Nú er svo komið að vaxandi fjöldi barna fær ekki sýklalyfjameðferð sem dugar við alvarlegum eyrnabólgusýkingum í heimahúsum vegna sýklalyfjaónæmis. Þá þarf að gefa sterkustu sýklalyf sem völ er á í æð eða vöðva á spítala. Barnadeild LSH hefur nú vegna umfangs vandans leitað til Heilsusgæslunnar um aðstoð við slíkar meðferðir. Um fordæmalaust tilefni er að ræða miðað við hin Norðurlöndin og þótt víðar væri leitað og sýnir alvarleika vandans hér á landi og sem búið er að vara við sl. misseri , m.a. með bréfi til heilbrigðisáðherra og heilbrigðisnefndar alþingis fyrir ári. Bregðast verður strax við þessum bráða vanda á ábirgan hátt og sem jafnframt er áskorun til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um nýtt og aðkallandi verkefni en sem því miður er nú þegar mjög þröngur stakkur sniðinn.
Víðtækari úrlausn til lengri tíma litið felst auðvitað í að ráðist sé að rót vandans og að notkun sýklalyfja almennt verði ábyrgari vegna þróunar sýklalyfjaónæmis hér á landi og mikillar sýklalyfjanotkunar samanborðið við hin Norðurlöndin um árabil, ekki síst hjá börnum. Styrkja verður heilsugæsluna svo læknar geti farið eftir nýjum klínískum leiðbeiningum og boðið upp á nauðsynlega eftirfylgni með sýkingum barna í stað sýklalyfjagjafa af minnsta tilefni. Greiningamöguleikanna er t.d. hægt að bæta með rafrænni myndatöku ekki síst til að geta boðið upp á markvissari eftirfylgd og endurmati á miðeyrnabólgubreytingum. Myndavél eins og myndirnar að ofan eru teknar með kostar lítið miðað við lækningatæki almennt eða um 200 þúsund krónur. Ein slík myndavél ætti að vera til á hverri heilsugæslustöð og á læknavöktum sem á annað borð bjóða upp á læknisaðstoð fyrir börn miðað við umfang vandans hér á landi.
Glætan í myrkrinu nú er sú að hægt er að flýta upptöku á pneumókokkabólusetningu ungbarna sem sýnt hefur verið fram á að geti fækkað umtalsvert pneumókokkasýkingum m.a. alvarlegum miðeyrnabólgum, lungnabólgum og blóðsýkingum hjá þeim. Samtímis gefst einnig betra tækifæri á að minnka ómarkvissa sýklalyfanotkun barna vegna væntanlegra minni hræðslu við þessar sýkingar.