Föstudagur 19.03.2010 - 11:56 - FB ummæli ()

Til hamingju með daginn

Nú á 250 ára afmæli Landlæknisembættisins sem haldið var upp á í gær, er rétt að minnast á það brautryðjendastarf sem það var, að gera læknisþjónustuna í fytsta skipti aðgengilega á Íslandi. Fyrsti landlæknirinn, Bjarni Pálsson læknir tók til starfa 1760 og var jafnframt eini læknirinn á landinu til að byrja með. Læknisfræðin var auðvitað frumstæð miðað við í dag, og þó ekki. Sóttum var helst reynt að halda niðri með því að taka af mönnum blóð, en útbúin voru lyf úr grösum og jurtum, sem jafnvel voru flutt inn til landsins. Ýmiss inngrip var hægt að gera á áhrifaríkann hátt með aðstoð skurðlækninganna, sérstaklega inngrip sem sneru að fæðingahjálp og aðgerðir vegna ígerða. Tæki og tól frá þessum tíma bera þessu starfi glöggt vitni, t.d. fæðingatangir og legvatnsástungurör svo og önnur ástungutæki úr kopari og gleri.

Forfaðir minn, Ari Arason (1763-1840) fjórðungslæknir á Flugumýri í Skagafirði var einn 10 lækna sem útskrifaðist fyrst til læknisstarfa hér á landi úr Læknaskólanum í Nesi sem þá var jafnframt aðsetur Landlæknis. Meðal þess sem hann lagði mesta áherslu á í sínu starfi sem fyrsti læknislærði læknirinn í héraðinu, voru ýmiss úrræði gegn háum ungbarnadauða m.a. með kennslu í fæðingarhjálp og með því að leggja áherslu á menntun ljósmæðra til starfa í héruðum landsins. Annað sem var afar merkilegt á þeim tíma og er enn, var þegar hann ásamt fleirum læknum byrjaði að bólusetja gegn bólusótt upp úr aldamótunum 1800 með því að nota kúabólusmitefni.

Þannig að frá því fyrsta bólusetningin uppgötvaðist í heiminum gegn bólusóttinni, 1798, liðu ekki nema örfá ár (1805), þar til byrjað var að bólusetja alþýðu manna hér á landi með góðum árangri. Þá voru kirkjubækur notaðar sem sjúkradagbækur og til að halda utan um bólusetningarnar og prestar landsins sáu jafnvel um aðgerðina. Tveimur öldum síðar tókst loks að útrýma sóttinni. Bólusetning hefur síðan viðhaldist sem heiti á öllum ónæmisaðgerðum með smitefni og ekkert annað gott heiti er til yfir á íslensku. Vaccination er enska heitið yfir aðgerðina og sem á við allar tegundir „bóluefna“. Við Íslendingar erum hins vegar alltaf jafn þjóðlegir í hugsun og heitið „bólusetning“ mun minna um ókomna tíð á eitt fyrsta lýðheilsuverkefnið sem Landlæknir stóð fyrir, stuttu eftir að það var stofnsett fyrir 250 árum síðan. Til hamingju með daginn.

 

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn