Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem Siv Friðleifsdóttir alþingiskona ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu um að tekin verði upp pneumókokkabólusetning fyrir ungbörn á Íslandi. Vandamálið sem þetta tengist er mjög stórt og skýrir t.d. meirihluta af öllum komum barna til lækna. Oft hefur mér verið tíðrætt um heilsu barna hér á blogginu mínu. Nægir þar að nefna umfjöllun um kvíða barna í góðæri og kreppu, sýkingar barna, tannheilsu og offitu. Eins mikilvægi jafns aðgangs barna að nauðsynlegri næringu, ekki síst ávöxtum og grænmeti. Eins læknishjálp, lyfjum og bólusetningum. Sennilega er þó ekkert sem ógnar heilsu þeirra meira í dag en mikið sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda og sem valda t.d. flestum eyrnabólgum og lungnasýkingum meðal þeirra. Vandamálið hefur að hluta verið sjálfskapað með ómarkvissri notkun sýklalyfja um árabil. Vandamálið endurspeglast einnig í þeirri staðreynd að við höfum notað mikið meira af sýklalyfjum en nágranaþjóðir okkar, sérstaklega meðal barna og vandamál tengt sýklalyfjaónæmi er miklu meira hér á landi en í þeim löndum sem við viljum gjarnan getað borið okkur saman við. Samt hefur verið vitað um þróunina og varað við henni um árabil en lítið aðhafst, eins og í svo mörgu öðru. Nú eru þó komnar nýjar klínískar leiðbeiningar sem sniðnar eru að erlendri fyrirmynd þar sem hvatt er til íhaldssemi á sýklalyfjaávísanir og að sýklalyf séu þannig aðeins notuð þegar þeirra er þörf. Eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd að þá hafa verið færð rök fyrir að há tíðni eyrnabólgu og há tíðni barna sem þurfa að fá hljóðhimnurör á Íslandi (allt að helmingur barna á sumum stöðum) sé vegna ofnotkunar sýklalyfja á undanförnum árum. Nú er svo komið að leggja þarf í vaxandi mæli börn inn á sjúkrahús til sýklalyfjagjafar í æð eða vöðva til að ráða við erfiðustu sýkingarnar þar sem venjuleg lyf duga ekki lengur. Tími kraftaverkalyfjanna virðist þannig vera að líða!
Það sem þarf að gera:
1) Draga þarf úr ómarkvissri notkun sýklalyfja og fara þarf eftir klínískum leiðbeiningum í þeim efnum. Flestar vægar miðeyrnabólgur lagast af sjálfu sér. Leggja meira upp úr verkjalyfjameðferð eingöngu til að byrja með ef einkenni eru ekki alvarleg. Leggja meira upp úr ráðgjöf og eftirliti en sýklalyfjgjöf af minnsta tilefni. Kvef og veirusýkingar á ekki að meðhöndla með sýklalyfjum sem virka hvort sem er aldrei á þær sýkingar.
2) Gæta þarf sérstaklega að eyrnabólgusýkingum barna sem ekki lagast af sjálfu sér, sérstaklega ef þau svara ekki sýklalyfjameðferð sem kann að vera nauðsynleg. Bæta má greininguna og eftirlit með rafrænni myndatöku á heilsugæslustöðvunum og á læknavöktunum
3) Taka þarf upp pneumokokkabólusetningu í ungbarnaheilsuverndinni sem fyrst sem veitir góða vörn gegn alvarlegustu sýkingunum af völdum pneumókokka og getur dregið úr tíðni miðeyrnabólgu um allt að 40%. Þörfin á þessari ráðstöfun er meiri hér á landi en í nágranalöndunum þar sem eyrnbólguvandamálin eru tíðari hér á landi, fjöldi hljóðhimnurörísetninga meiri og sýklalyfjaónæmi vegna mikillar sýklalyfjanotkunar miklu meira. Ákvörðun hefur samt þegar verið tekin um bólusetninguna á hinum Norðurlöndunum. Eins má ekki gleyma því að börnin er einn helsti smitvaldur pneumókokka svo áhrif á sýkingar þeirra sem eldri eru getur verið umtalsverð. Með upptöku bóluefnisins má ætla að þjóðhagslegur sparnaður geti orðið mikill, sérstaklega ef vinnutap foreldra og álag á heilbrigðisþjónustuna í dag er tekið með í reikninginn. Ekki má þó gleyma bættum lífsgæðum barnanna sjálfra og fjölskyldna þeirra.