Endalausar fréttir eru nú á erlendum fréttastöðvum hvernig Ísland heldur Evrópu í heljargreipum eftir dómsdaginn fræga í síðustu viku. Ástandið hefur ekki verið alvarlegra á friðartímum hvað samgöngur snertir. „Og himnarnir urðu dökkir sem nótt á miðjum degi“. Reiði guðs hefði verið sagt á tímum gamla testamentisins eins og þegar syndarflóðið varð. Eins og þá er aðeins hægt að treysta á sjóleiðina til að bjarga sér. En það er gaman að velta fyrir sér hverjir gætu hafa átt heima í Örkinni hans Nóa frá hinu synduga Íslandi.
Auðvitað vitum við betur Íslendingar. Þótt við kunnum ekki að fara með peninganna okkar og verulega vanti upp á siðferðið að þá erum við nú einu sinni komnir af víkingum sem sigldu óhræddir yfir hafið í opnum bátum. Það var örugglega ekki tilviljun að Ísland varð fyrir valinu þegar menn flúðu Evrópu fyrir rúml. 1000 árum. Síðan hafa sennilega verið 5 gos í Eyjafjallajökli. Við hræðumst ekkert og viljum sjá öfgar. Við vitum ekki heldur hvort við eigum að hofa til vesturs eða austurs. Samkvæmt landrekskenningunni (sjá kort að neðan-óstöðugasta svæði jarðar) rekur okkur í báðar áttir og við erum jú mitt á milli. En okkar er valið. Sjálfur hef ég af veikum mætti verið að reyna að skýra frá hættunni sem kann að hljótast af því að við notum ekki sýklalyfin skynsamlega. Tími kraftaverkalyfjanna kann að vera að líða, miklu hraðar en hjá öðrum. Heilsu barna stendur ógn af og við höfum ekki efni á að taka upp nauðsynlegar bólusetningar til varnar. En við hlustum ekki á þær aðvaranir frekar en ýmsar aðrar eða vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga. Við erum svo sérstakir, Íslendingar. Á meðan höldum við heiminum í heljagreipum eins og sjá má á öllum sjónvarpsrásum nema hér heima enda vitum við betur að það er ekkert að hræðast.