Í gamla daga byggði ég oft með syni mínum úr Legó-kubbum. Fyrst voru hlutirnir sem við byggðum einfaldir en eftir nokkur ár voru byggð heilu þorpin, jafnvel með flugvelli og öllu. Lögreglustöðin og slökkviliðsstöðin gleymdust aldrei. Bankar voru yfirleitt ekki byggðir. Oft voru húsin eða þorpin byggð upp aftur og betrumbætt. Með vaxandi aldri fóru hlutirnir samt að verða flóknari. Tæknikubbarnir komu á markað og nú varð að fara eftir leiðbeiningum hvernig maður byggði. Stráknum fannst þetta stundum flókið svo hann fékk stundum pabba sinn til að hjálpa sér. Tækniundur urðu til en strákurinn var oft farinn að snúa sér að einhverju allt öðru þegar yfir lauk.
Samfélag okkar mannanna hefur alltaf verið byggt á gömlum merg forfeðranna. Reyndar hafa ríkt skálmaldir og stríð. En grunngildin hafa þó verið á hreinu. Á einhverjum tímapunkti á síðustu öld tóku aðrir kraftar völdin. Tæknin og nýfrjálshyggjan er hluti af þeim öflum sem einkenndu seinni hluta síðustu aldar. Í lokin var þetta ekkert skemmtilegt lengur. Barnið var enda búið að segja skilið við okkur.
Þegar byggja á upp nýtt þjóðfélag eins og nú er rætt um er best að líta til þroska barnsins og barnsins sem e.t.v. leynist í okkur ennþá. Það má byggja upp á nýtt, sem betur fer, enda margt enduruppbyggjanlegt en annað var byggt á sandi og er hvort sem er farið eða hrunið. Leikum okkur með börnunum okkar en reynum nú að hafa ekki hlutina of flókna svo allir geti verið með.