Föstudagur 30.04.2010 - 16:46 - FB ummæli ()

Langri eyrnabólgusögu að verða lokið!

bólusetning

Langri sögu að verða lokið- Grein í Morgunblaðinu 26.10.1997

Loks grillir í bólusetningu gegn algengasta heilsumeini barna á Íslandi, miðeyrnabólgunni. En að mörgu þarf að hyggja þar sem aðeins er verið að tala um bólusetningu gegn alvarlegustu meinvöldunum og meðhöndlun miðeyrnabólgu þarf að vera miklu markvissari en hún hefur verið hingað til.

Flestir foreldrar kannast við þann vanda sem fylgir því að eiga eyrnaveikt barn. Ætla má að um 80% barna fái miðeyrnabólgu strax á fyrsta aldursári og sum hver oft. Reikna má  með  milli 10-20.000 staðfestum tilfellum á ári hverju. Í flestum tilfellum er um að ræða sýkingar af völdum lungnabólgubakteríunnar, Streptococcus pneumoniae. Flestar miðeyrnabólgur hafa verið meðhöndlaðar hingað til með sýklalyfjum en eyrnabólgur eru ástæða fyrir meirihluta sýklalyfjaávísana meðal barna hér á landi. Flestar eyrnabólgurnar lagast hins vegar af sjálfu sér og talið sjálfskaparvíti að ætla að meðhöndla þær allar með sýklalyfjum. Um þriðjungur barna á Íslandi fer síðan í aðgerð og fær hljóðhimnurör hér landi, aðallega vegna endurtekna eyrnabólgna. Alvarlegast er þó þegar um er að ræða blóðsýkingar og heilahimnubólgur sem pneumókokkasýkilinn getur valdið. Í þeim löndum sem bólusetningin hafur verið tekin upp hefur tilfellum alvarlegra sýkinga fækkað um 80% . Heimsóknum til lækna og sýklalyfjaávísunum vegna miðeyrnabólgu hefur einnig fækkað umtalsvert eða allt að 40% í sumum langtímarannsóknum þar sem bóluefnin hafa verið notuð um árabil. Þar má sjá hvað almenn þátttaka ungbarna í þessari bólusetningu getur haft mikil áhrif auk þess að geta dregið þá um leið úr sýklalyfjanotkun barna en hún er mjög mikil hér á landi. Mikil sýklalyfjanotkun barna er einmitt talin helsta skýringin á miklu sýklalyfjaónæmi lungnabólgubakteríunnar en upp undir 40% stofna eru með ónæmi fyrir penicillíni og helstu varalyfjum í dag. Um þriðjungar barna sem síðan fá sýklalyf, bera þessa sýklalyfjaónæmu bakteríu fyrstu vikurnar á eftir. Það getur verið mjög vandasamt að meðhöndla alvarlegar sýkingar sem þessir sýklar valda svo sem slæmar og alvarlegar miðeyrnabólgur. Engin önnur bólusetning getur aukið velferð barna meira miðað við þær aðstæður sem við búum við á Íslandi í dag og sem því miður er að hluta okkur sjálfum að kenna.

Í dag geta foreldrar sem hafa efni á, beðið um bólusetningu gegn lungnabólgubakteríunni fyrir börnin sín á fyrsta ári sem þurfa þá að fá 3 bólusetningar þar sem hver og ein sprauta kostar yfir 10.000 kr. Um tvennskonar bóluefni er að ræða þar sem önnur tegundin hefur einnig virka vörn gegn öðrum meinvald sem oft veldur miðeyrnabólgu en er síður alvarlegur,  Hemophilus Influenzae (non-typeable). Því er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé verið að mismuna börnum eftir efnahag foreldra.  Almenn þátttaka í bólusetningunni verður heldur aldrei góð með þessu móti og gott hjarðónæmi næst ekki. Auk þess er hætta á að foreldrar sem ekki hafa efni á þessari bólusetningu horfi með neikvæðari augum til annara bólusetninga sem ekki er jafn sýnilega gagn af og eru ráðlagðar í dag. Það væri alvarleg þróun því þá myndi hjarðónæmi gegn þeim smitsjúkdómumsjúkdómum skerðast.

grátandibarn2Ég hef áður fjallað um gagnsemi bólusetningarinnar hér á blogginu mínu sem hluta af sértækum aðgerðum gegn miklu sýklalyfjaónæmi sem bregðast verður við með ábirgum hætti. Þar eru klínískar leiðbeiningar eins og hvernig á að meðhöndla miðeyrnabólgur þó mikilvægastar. Hræðslan við alvarlegri sýkingar af völdum miðeyrnabólgu ætti a.m.k. að vera minni ef börnin eru bólusett. Ný greiningartækni er einnig þegar möguleg fyrir heilsugæsluna og vaktþjónustuna en sem ekki hefur verið tekin upp.

Líklegt er að mikill þjóðhagslegur sparnaður náist vegna minni lyfjakostnaðar, minni fjarveru foreldra frá vinnu og fækkun aðgerða vegna hljóðhimnurörísetninga. Eins má reikna með minna álagi á heilsugæsluna og vaktþjónustuna en upp undir 20% af öllum komum er vegna loftvegasýkina og eyrnabólgu. Eins eru eyrnbólgurnar eru taldar skýra yfir helming af öllum komum barna til lækna á stofu. Gamla fólkið græðir einnig vegna hjarðáhrifa eða hjarðónæmis (herd immunity) en flest dauðföll vegna alvarlegra sýkinga í dag eru í þeim aldurshóp. Það er ekki síst mikilvægt þar sem flestir þessara stofna sem smitast frá börnunum er sýklalyfjaónæmir stofnar.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í morgun hafa heilbrigðisyfirvöld nú tekið ákvörðun um að taka upp þessa bólusetningu í ungbarnaheilsuverndinni í náinni framtíð. Öll hin Norðurlöndin hafa tekið hana upp, jafnvel þótt eyrnabólguvandinn sé ekki jafn mikill þar og sýklalyfjaónæmið jafn mikið og hér á landi. Sif Friðleifsdóttir alþingismaður ásamt fleiri þingmönnum lögðu fram þingsályktunartillögu um síðustu mánaðarmót um að við tækjum upp þessa bólusetningu og fékk tillagan jákvæðar undirtektir hjá heilbrigðisráðherra, Álheiði Ingadóttur . Hún sagði  í samtali við Fréttablaðið í morgun að „verið sé að leita leiða til að leggja fjármagn til bólusetninganna á næsta ári. Áætlað er að bólusetningin kosti á bilinu 120 til 140 milljónir króna árlega en ráðherra gerir ráð fyrir að verja 100 milljónum til þeirra á næsta ári enda hefjist bólusetning líklega ekki 1. janúar“.

Maður er hins vagar hugsi að lítið hefur heyrist frá foreldrum varðandi þessi mál og einnig vegna þess mismununar sem þegar hefur skapast þegar efnahagur foreldra ræður því hvort börn séu varin fyrir algengasta heilsumeini þeirra eins og staðan er í dag. Ein sennileg skýring er sú að engin hagsmunasamtök eru til um almennt góða heilsu ungbarna á Íslandi.  Eins hafa flestir fjölmiðlar lítið látið málið til sín taka og ekki gert vandamálinu góð skil. Ekkert hefur heldur heyrst frá atvinnurekendum en eyrnabólga er algengasta ástæða fyrir fjarvistum foreldra úr vinnu.

Aðalatriðið er að flýta eins og kostur er upptöku á bóluefninu og að um leið verði myndalega tekið á sýklalyfjaávísanavenjum lækna. Í dag er þær allt of algengar af litlu tilefni og sem á stóran þátt í að hafa komið okkur í þá stöðu sem við erum í dag með endurteknar eyrnabólgur og mikið og alvarlegt sýklalyfjaónæmi.  Annars er hætt við að við köllum yfir okkur önnur og alvarlegri vandamál, ekki síst yfir börnin okkar og gamla fólkið.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn