Sunnudagur 02.05.2010 - 22:25 - FB ummæli ()

Hvar eigum við heima?

Mjög einkennilegs tóns gætir nú hjá bloggurum eyjunnar og reyndar þjóðarsálinni. Pólitísk upplausn og vantrú. Stjórnmálaforustunni í dag virðist ekki ætla að takast það ætlunarverk sitt að blása til nýrrar sóknar. Nú er af fullri alvöru rætt um sjálfsprottið stjórnlagaþing og nýja stjórnaskrá.

Að eiga sér ekki rætur er eitthvað sem fæstir Íslendingar kannast við. Við eru frændrækin þjóð með 1000 ára sögu. Við þekkjum staðhætti landsins og fyllumst stolti en um leið lítilæti þegar við hugsum til heimahaganna, óháð hvar við búum í dag. En nú er öldin önnur og við erum í tómarúmi. Enginn veit hvað verður eða gerist í náinni framtíð. Það sem breytti öllu var að framið var níðingsverk á þjóðinni sem átti sinn bakhjalla hjá stjórnmálamönnunum á Alþingi og forsetanum á Bessastöðum. Hvorugur staðurinn vekur nú upp þær tilfinningar sem áður var. Umræðan sl. mánuði hefur enda ýmist litast að stjórnleysi (anarkisma) eða fortíðarþrá. Framboð Besta flokksins er afsprengi Búsáhaldabyltingarinnar sem Jón Gnarr og félagar settu fram, meira í gríni en alvöru, en sem núna er orðið að raunverulegt stjórnmálaafli í landinu. Stjórnmálaafls sem litast af hentisemi og stjórnleysi, án skýrra markmiða og sem breytast frá degi til dags. Aðalmarkmiðið er að vera á móti öllu gömlu gildunum. En hvenær er gamanið orðið að alvöru?

Hér á árum áður áttum við góða leiðtoga sem sameinuðu okkur í þeim gildum sem íslenska þjóðin vildi standa fyrir, ekki síst á menningarsviðinu. Pólitíkin er furðuleg tík og því miður urðu margir af aurum apar. Okkur leið þó alltaf vel þegar öflugir pólitískir leiðtogar eða forsetar komu fram og leiddu þjóðina. Undirritaður er einn af þeim sem stóð í þeirri trú, jafnvel eftir hrunið, að heimskreppunni og óheppni væri um að kenna en ekki pólitísku baktjaldarmakki og innherjasvik við þjóðina um árabil. Aðrir kusu að líta alltaf undan til að styggja ekki forystuna.

Nú er hægt að segja næstum hvað sem er sem tengist spillingu, allt er satt. Því miður reyndust stjórnmálaleiðtogarnir engan veginn traustsins verðir. Og nú erum við leiðtogalaus og eigum hvergi heima. Íslenska pólítíkin hefur verið gjaldfeld í þeirri mynd sem við vildum þekkja hana. Heiðarlegir stjórnmálamenn sem nú kunna að finnast eru upp á röngum tíma og e.t.v á röngum stað. Þeir reyna þó að klóra í bakkann og gera sem best úr stöðunni eins og hún blasir við. Þjóðin vill hins vegar alsherjar uppstokkun á pólitíkinni sem fyrst. Margir fyrrum stjórnmálamenn kunna væntanlega að reynast haukar í horni, vilji  þeir taka þátt í leiknum að nýju, enda þurfum við á öllu okkar hæfasta fólki að halda. Það sem við viljum sjá hins vegar í nýjum leiðtogum í dag þarf að sameina heiðarleika, visku, stolt, hógværð og hlýju.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn