Mánudagur 03.05.2010 - 23:02 - FB ummæli ()

Afmæli og jarðarfarir

221509309_0bd5f82783Það hefur lengi blundað í mér að koma orðum að því og lýsa hvernig manni líður í og eftir hafa verið viðstaddur jarðarför ættingja, vins eða samferðarmanns. Undanfarið hefur þessi tilfinning ,eða réttara sagt hughrif, sótt meira og meira á mig, einkum hvað samferðarmennina varðar. Það er ekki vegna þunglyndis heldur dapurleika þess hvernig komið er fyrir þjóðfélagi sem ég átt þátt í að byggja upp ásamt fleirum. Mitt lífsstarf hefur fyrst og fremst miðað að því að lengja líf og bæta lífsgæði fólks. Eins að kanna þá áhrifaþætti sem skiptir lýðheilsuna máli. Það getur því ekki annað en reynt á tilfinningarnar svo um munar þegar maður horfir í baksýnisspegilinn og sér, að horft var framhjá því sem mestu máli skipti í okkar þjóðfélagi. Líf manns er enda miklu meira en starfið manns. Síðastliðið ár hef ég þó reynt að koma að þessum málum í bloggfærslum mínum, svona undir rós, um leið og ég er sjálfur að reyna að átta mig betur á staðreyndunum.

Nú vil ég samt reyna að segja söguna meira eins og hún er. Jarðarfarir reyna oft á tilfinningaskalann til hins ýtrasta og því ágætt að byrja þar. Við þær aðstæður leggst allt á eitt. Söknuður og oft mikil sorg. Stundum grátur sem er góður og vorkunnsemi gangvart þeim nánustu. Orgelspil og lagaval er síðan til að hámarka hughrifin og maður horfir á kistuna sveipaða íslenska fánanum. Síðan fögnuður í hjarta yfir því hvað prestinum tekst oft að gera lífhlaup mannsins merkilegt. Þetta kemur reyndar enn betur fram í minningargreinunum og þá frá fleiri sjónarhornum. Lokauppgjörið virðist þannig oftast nokkuð gott, en eftir situr þó alltaf minningin um manneskjuna eins og maður þekkti hana. Minning samferðarmanns sem alltaf góð að einhverju leiti. Eftir jarðarförina er hins vegar eins og að lífið byrji að nýju með meiri krafti en áður, ákveðið uppgjör hefur farið fram. Og maður er sjálfur þakklátur að fá að vera hér aðeins lengur og til að bæta sig sem manneskju. Jarðarförin var þannig líka til góðs og til áminningar.

Afmælin eru hins vegar önnur tímamót, þar sem fjölskylda og vinir koma saman. Þá er létt á nótunum, en innihald ræðanna oft hjáróma og fært vel í stílinn. Farið er yfir farinn veg og afmælisbarninu gjarnan hrósað í hástert. Því launahærri sem menn eru því veglegra afmæli og fleiri ræður, enda mörgum sem þakka þarf velgengnina. Menn eru hvattir til að halda áfram á sömu braut.

Áminningarnar og  hughrifin í lífinu eru þannig misjöfn eftir því á hvaða tímamótum við stöndum. Tilfinningarskalinn er til staðar, en mismundandi þaninn eftir stað og stund. Það er reyndar mjög gott að finna að þessar tilfinningar eru allar til staðar þegar á þarf að halda. Tilfinningarnar segja manni enda meira en allt annað á hvaða vegferð við erum í lífinu. Þær eru líka orkulind sem við getum beislað og virkjað til góðs. Brjóstvitið og heiðarleikinn er hluti af þessum tilfinningum og sem við lærðum þegar við ólumst upp. Bestu þakkir fyrir það. Þær eru þarna innra með okkur og endist allt okkar líf. En allt of oft náum við ekki til þeirra þegar mest á reynir. Þær brjótast hins vegar út við vissar aðstæður eins og við jarðarfarir.

Síðastliðið rúmt ár hefur verið mikil sorg hjá íslensku þjóðinni. Það einfaldlega dó eitthvað innra með okkur flestum. Við þurftum að ganga í gegnum áfalla- og sorgarferli eins og þegar ástvinur deyr, jafnvel þótt sá hafi verið mikið vandræðabarn alla sína ævi. Við viljum trúa því að hann hafi ekki verið alvondur og að hann hafi gefið okkur sem eftir lifum eitthvað til að læra af, aðallega samt reynsluna hvernig við eigum ekki að lifa lífinu. Aðstæður voru honum erfiðar og hann kunni ekki fótum sínum fjárráð. Við samglöddust honum samt við ýmis tækifæri, ekki síst á stórafmælum. Óreglan í bland við svik og pretti  í viðskiptum var hans mesta óhamingja. Sennilega var uppeldinu mest um að kenna. Þar erum við sem eldri erum og ólu hann upp að hluta ekki alsaklaus. En nú kveðjum við þennan vin og tökum sameiginlega þátt í sorginni. Við erum sterkari á eftir og reynslunni ríkari.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn