Nýlega hefur verið fjallað um ræktun ánamaðka hér á landi fyrir bændur, garðáhugafólk og veiðimenn. Ljóst er að þeir auka verulega á frjósemi fósturmoldarinnar auk þess að vera besta beita sem völ er á. Agn á öngul veiðimannsins. Eins manns dauði annars brauð. Jafnframt getur ræktun þeirra verið atvinnuskapandi og er mjög í anda nýsköpunar á nýja Íslandi.
Ein af stærri upplifunum mínum í sumar var þegar ég fór í göngutúr einn góðviðrisdaginn í vægri rigningarsúld. Sá ég þá að bæjartúnið var í bókstaflega krökt af ánamöðkum. Ég gat varla stigið niður fæti án þess að kremja aumingjana og varð að stikla á milli þeirra á tánum. Þvílíka mergð af möðkum hef ég aldrei séð og var ekki að dreyma. Tugir ef ekki hundruð við hvet fótmál. Og bara þennan eina dag, ekki daginn áður eða daginn eftir, þótt veðrið hafi verið með svipuðum hætti þá daga einnig. Sennilega hitti ég á sérstakan tíma hjá þeim blessuðum því eitthvert erindi hljóta þeir að hafa haft að koma upp á yfirborðið akkúrat á þessum eina degi og mæla sér mót. Sem betur fer var ég með plastpoka í vasanum og gat á svipstundu tínt upp hundruð til að jarðsetja í nýju garðbeðin heima og sem konan mín hafði beðið lengi að fá orma í. Eins gott að þessum degi verði haldið leyndum svo þeir í túninu verði ekki allir tíndir upp að ári. Þeir fara þá að minnsta kosti ekki á öngulinn á meðan, ormarnir mínir í túninu heima. Svona kemur náttúran manni sífellt á óvart. En allir þurfa að koma fram í dagsljósið fyrr eða síðar og gera hreint fyrir sínum dyrum.