Laugardagur 12.06.2010 - 10:18 - FB ummæli ()

Sagan endalausa

the_storytellerTjáningarfrelsið og er sennilega eitt það dýrmætasta sem við eigum. Það frelsi er hornsteinn lýðræðisins, en vandmeðfarið. Aðgát skal í nærveru sálar og orð geta sært. Frásögnin er líka  hluti af tjáningunni og það geta orðið til sögur. Börnin eru sérstaklega góðir hlustendur og ævintýr er þeirra uppáhald. Með sögum er lagður grunnur í  þroska þeirra og tjáningu síðar. Þetta köllum við nauðsynleg samskipti og þörf fyrir að miðla reynslu okkar á milli, mann frá manni og frá kynslóð til kynslóðar. Eins til að hjálpa okkur að túlka hugmyndir með orðum sem kvikna innra með okkur. En við segjum ekki allan sannleikann og eigum ekki endilega að gera það. Síðar meir þóknumst viðmælandanum meir og meir, skynjum betur viðbrögðin og metum væntingarnar. Að  því leiti er er frásögn og samræða gagnvirk aðgerð okkar á milli þar sem við tökum tilliti til hvors annars en sagan því sjaldan að full sögð.

Stjórnmálamennirnir eru flinkir að segja sögur og ekki allar sannar. Skáld eru listamenn og geta sagt ósannar sögur á trúverðugan hátt. Skáldverkin eru prjónuð saman úr orðum og hugmyndum. Að lokum verður til ímyndaður heimur lesenda emeð lifandi persónum sem við sjálf sköpum, með túlkun okkar en frumkvæði skáldsins.

Margar furðusögur hafa verið sagðar undanfarin misseri á opinberum vettvangi. Aldrei hefur maður upplifað neitt annað eins og fátt  hefur í raun komið manni meira á óvart. Sumt verulega óþægilega á óvart, næstum eins og að maður hefði ekki viljað heyra tíðindin. Martröð er saga sem maður vildi aldrei heyra en heyrði samt. Hún verður sem betur fer ósönn um leið og maður vaknar. Frásagnirnar í fréttunum urðu líka stöðugt meira íþyngjandi og ætluðu engan endi að taka. Rannsóknaskýrsla Alþingis sagði síðan allt aðra Íslandssögu en okkur hafði verið talin trú um áður, jafnvel þótt við ættum að hafa vitað betur og hlustað á innri rödd. Og enn er ekki búið að segja söguna alla og allir hafa sína sögu að segja í þessu samhengi. Álitamálin virðast óendanleg og skoðanir manna misjafnar. Hvað er efni í sögur, skáldverk eða bara blogg ef ekki þessi efniviður. Við lifum alveg á sérstökum tíma sem Íslandssagan mun aldrei gleyma.

Iðulega reyni ég að fá sjúklingana mína til að tjá sig um það sem þeim býr í brjósti. Stundum er það erfitt og oftast koma frásagnirnar í myndbreyttu formi, en stundum með gráti og eru þá ofast sannar. Aðal málið er að finna rauða þráðinn eða sannleikskornið sem býr að baki frásögninni. Eitthvað sem veldur til dæmis depurð eða kvíða. Ekki leita strax lausna, þær koma síðar og oft af sjálfu sér. Bara frásögnin léttir og raðar hugsunum saman á sinn stað. Svo er manni þakkað kærlega fyrir. Og maður sagði ekker sérstakkt bara hlustaði á söguna. Oft hef ég hvatt skjólstæðinginn að ræða á svipuðum nótum við sína nánustu. Enn það þarf hvatningu. Ýmist gefa menn sér að aðrir hafi ekki tíma til að hlusta eða að þeir vilja ekki ónáða fólk með sínum áhyggjum, þeir hafi nóg með sínar. Frásögnin er samt alltaf saga, túlkun á sannleikanum og lituð af tilfinningum. Blæbrigðin eru þannig mismunandi og hughrif hjá hlutandanum sömuleiðis. En með samræðunni er hægt að komast að einhverju sameiginlegu og þá er takmarkinu náð.

Það er því mikill misskilningur að halda að það sé bögg fyrir góðan hlutanda að hlusta á sögu náungans þótt hún kunni að vera í þyngri kantinum, jafnvel sorgleg og óteljandi óleyst vandamál bíði úrlausna. Þvert á móti, góður hlustandi þrífst af frásögninni og hann fær tækifæri um leið að endurupplifa sína reynslu og miðla henni eða gefi henni nýtt líf. Góður hjúkrunarfræðingur kenndi mér spakmæli sem ég hef oft hugsað um. Mikill þroski og sóknarfæri fellst í að geta heimfært neikvæða reynslu á jákvæðan hátt. Snúa vörn í sókn. Eins og ég hef sagt áður, lífið á ekki að vera létt. Og það á ekki alltaf að vera gaman. Lífið er ólgusjór. En maður á að geta lagt saman góða reynslu og slæma svo út komi eitthvað sem heitir góð lífsreynsla sem fleytir manni langt. Hver dagur er glíma og við eigum að njóta. Sagan verður þannig til og söguna þarf að segja. Ekki endilega um ákveðna menn eða málefni. Lesa í landslagið og túlka. Þess vegna er svo gaman að blogga, frjáls og óháður og helst að meiða engan. Jafnvel þótt samræðan sé aðeins við mann sjálfan, sem er líka hlustandi og við þig lesandi góður. Sagan er endalaus.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn