Þriðjudagur 15.06.2010 - 13:32 - FB ummæli ()

Íslenski fáninn

islenski-faninnÞessa daganna er til umræðu hjá allsherjarnefnd alþingis að breyta íslensku fánalögunum og leyfa fánanum að blakta við hún allan sólarhringinn á sumrin, jafnvel alla daga og síðar jafnvel árið um kring. Flutningsmaður tillögunnar er Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður. En svo segir m.a. í tillögu til þingsályktunarinnar: „Flutningsmaður leggur til það svigrúm að hafa megi fánann uppi allan sólarhringinn yfir bjartasta tímann á sumrin, frá 15. maí til 15. ágúst. Hluta þessa tímabils er sólsetur eftir miðnætti og sólarupprás skömmu síðar. Vera má að í framtíðinni verði grundvöllur fyrir því að afnema með öllu hömlur á því hvenær fáninn megi vera uppi, þ.e. að hann megi þá vera á stöng allan sólarhringinn allan ársins hring“. Og síðar í sömu tillögu: „Á síðustu árum hefur farið fram umræða í samfélaginu um hvort ekki mætti breyta lögunum þannig að unnt yrði að auka frjálsræði um notkun fánans með tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu“.

Alls staðar er þjóðfáni tákn sameiningar. Fáninn sem slíkur varð samt til í upphafi sem stríðsmerki og gaf ákveðin skilaboð og hvatti til samstöðu. Allir á Íslandi þekkja merkingu hvíta fánans og það að fá gula eða rauða spjaldið. Erlendir aðilar hafa notað þessi spjöld mikið á okkur að undanförnu. Merking litanna í íslenska þjóðfánanum eru augljósir eða svo finnst okkur sem erum frekar jarðbundin. Samstaða og standa vörð um landið okkar og þjóð, í blíðu og stríðu. Það er okkar hjartans mál.

Fáni er líka merki um ákveðið vald. Og allir verða að verja fánann sinn. Við Íslendingar erum í raun allir í sama liði en í dægurþrasinu veljum við okkur flokka. Sama á sér stað í íþróttum nema þar sem þjóðernishyggjan nær hámarki í landsleikjum að þá flöggum íslenska fánanum og stöndum saman sem einn maður. Merki er annað en fáni en gefur samt alltaf ákveðinn tón. Flokksmerki, íþróttamerki eða félagsmerki. Allt tengist þetta tilfinningum til hluta og hugsjóna. Gæði og traust. Alvarleikinn er samt aldrei langt undan um stundum er flaggað í hálfa stöng.

Dagurinn er lífið og birtan, nóttin boðar hvíld og ró, líka fyrir þjóðfánann okkar. Eins finnst mér ekki við hæfi að flagga nema á fánadögum og þegar við höfum eitthvert sérstakt tilefni eins og fánalögin segja til um sem sett voru við stofnun Lýðveldisins Íslands, 17. júní 1944. Það eru ekki allir dagar hversdags-dagar. Að flagga á að merkja eitthvað og vekja mann til umhugsunar, ekki síst þegar þjóðfáninn á í hlut. Þjóðfáninn íslenski var ekki hugsaður til hversdagsnotkunar. Það gera hins vegar merki og veifur.

Á sjálfan þjóðhátíðardaginn eru blikur á lofti varðandi EBS aðildarviðræður fullveldisins Íslands í náinni framtíð. Þau sjónarmið verða ekki rædd hér en ef til vill sjáum við fram á breytta tíma í sameinaðri Evrópu enda höfum við takmarkað bolmagn að standa utan við alþjóðasamfélagið í lagarlegum og menningarlegu samhengi. Við höfum heldur ekki staðið okkur of vel í alþjóðlegum viðskiptum og fengið mörg rauð flögg upp að undanförnu. Á þjóðhátíðardaginn flöggum við samt í heila stöng, íslenska þjóðfánanum, og samgleðjumst yfir sameiginlegum markmiðum og hvað íslenska þjóðin stendur fyrir, ekki síst á erfiðum tímum. Það hriktir í lýðveldinu og margir spyrja sig ótal spurninga.

Ég vona að þjóðfáninn okkar verði ekki vanvirtur og verði ekki látinn hanga við hún allt sumarið, dag og nótt, til að þóknast auglýsingamenskunni og gróðrasjónarmiðunum. Það er nóg komið af þeim hugsjónum og við þurfum að efla aðrar. Veifur sóma sér hins vel við heimahús og sumarbústaði, svona til að minna okkur betur á landið góða, alla daga og nætur. En þjóðfáninn sjálfur heilagur og njótum að fá að eiga hann eins lengi og við getum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn