Miðvikudagur 16.06.2010 - 09:01 - FB ummæli ()

Óábyrg heilbrigðisstjórnun

redcrossÞað er með ólíkindum að í dag skuli vera auðveldara að fá þjónustu fyrir bílinn sinn en líkamann sinn. Eins er með ólíkindum að það skuli verða auðveldara að fá grunn heilbrigðisþjónustu á afskktustu stöðum landsins en í sjálfri höfuðborginni. Eins er með ólíkindum að almenningur skuli ekki vera farinn að gera kröfu um eðlilega grunnþjónustu fyrir börnin sín og í raun lágmarks heilsugæsluþjónustu fyrir alla. Eða eru boðleiðirnar upp til pólitíkusanna orðnar allt of langar. Forystumenn stjórnmálaflokkanna láta sig málið í léttu rúmi liggja, ekki síst þeir sem sitja í ríkisstjórninni. Þeir réttlæta allt með frösum um nauðsynlegan niðurskurð, horfa skammt fram á veginn og vísa ábyrgðinni til heilbrigðisráðherra. Jafnvel fagmenn innan stjórnmálahreyfinganna passa sig að láta ekkert í sér heyra. Formaður borgarráðs í Reykjavík og forseti bæjarráðs Kópavogs eru báðir læknar og vita samt vel um vandann. Þeir eru annars vegar í forustusveit Samfylkingarinnar og hins vegar í forustusveit Vinstri  grænna. Og ríkisfjölmiðlarnir þegja þunnu hljóði. Eins og ég hef bent á áður, að þá er það skylda heilbrigðisstarfsfólks, ekki síst lækna að fyrirbyggja fyrirsjáanleg slys og á það ekkert síður við um skipulag heilbrigðismála en slys á fólki, enda er heilsa og líf fólksins í veði.

Frá deginum í dag loka síðdegisvaktir heilsugæslustöðvanna í sumar. Fyrir er búið að skerða þjónustu heilsugæslunnar frá sl. vori. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verður nú rekin á lágmarks mannafla á daginn enda ekki ráðið í sumarafleysingar. Aðeins bráðari erindum verður sinnt á daginn og öðrum vísað á Slysa- og bráðmóttöku LSH. Þannig sker ríkið nú niður þjónustuna á höfuðborgarsvæðinu enn frekar en hafði áður sparað með því að skera niður kjör heimilislækna um 30%.

Í sumar verður heilbrigðisþjónustan á höfuðborgarsvæðinu þannig lömuð. Á síðustu stundu ákvað Læknavaktin ehf. að bjarga því sem bjargað varð með því að framlengja samning sinn við ríkið fram til áramóta eftir að hafa fengið langt nef frá heilbrigðisráðuneytinu. Fyrirvaralaust var nefnilega gefið í skyn fyrir nokkrum vikum að ekki yrði samið við Læknavaktina og enn síður til lengri tíma. Leitað yrði annarra leiða til að sinna bráðaþjónustu fyrir heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu á kvöldin og um helgar. Samt eru allir sammála sem kunnugir eru málum, að samningur við Læknavaktina var afar hagstæður fyrir ríkið og Læknavaktin vel rekið heilbrigðis- og þjónustufyrirtæki. Hvar og hvernig ríkið ætlar að koma þessari þjónustu fyrir annars staðar er með öllu óljóst og spurningar vakna hvort ráðuneytið hugsi í raun að leita leiða til að fá starfskrafta erlendis frá til að sinna verkefninu.

Að minnsta kosti eru fagleg sjónarmið heilsusgæslunnar látinn lönd og leið og eftirfylgni með krónískum sjúkdómum gefið langt nef í sumar sem og annarri grunnþjónustu á daginn. Eins möguleikum að farið verði eftir alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum um meðferð sjúkdóma sem gegna ekkert síður mikilvægu hlutverki í heilsugæslunni og leiðbeiningar um góða og eðlilega starfshætti hjá því opinbera. Leiðbeiningar sem ráðamenn ættu að kannast vel við. Atgerfisflótti er engu að síður nú skollin á meðal lækna enda eru skilaboðin til lækna að starfskrafta þeirra sé ekki óskað að óbreyttu. Heilbrigðisráðherra kom síðan fram í fjölmiðlum í fyrradag og hótaði að skerða kjör heimilislækna enn frekar. Hvað á að brjóta og bramla mikið í heilsugæslunni og hvað mun tiltektin og uppbyggingin síðan að lokum kosta? Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er að blæða út, hún er auk þess lömuð og þarfnast bráðahjápar góðra manna strax.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn