Fátt veldur meiri gleði og eftirvæntingu meðal þjóðarinnar en Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa sem nú er að rísa við Reykjavíkurhöfn. Jafnframt verður húsið alla tíð minnisvarði um það sem það sem við höfðum ekki efni á en langaði alltaf svo mikið í og fengum fyrir rest, jafnvel eftir fjármálahrun. Menning og menntun verður aldrei metin til fjár og með tímanum kemur húsið til með að borga sig margfalt upp þótt ekki væri nema vegna fjölda erlendra gesta sem koma til með að sækja landið heim m.a. vegna fegurðar hússins og það sem það hefur upp á að bjóða.
Mér er málið aðeins skylt þar sem ég tók þátt í samkeppni um nafnið 2007 og sendi aðeins inn eina tillögu sem var nafnið Prisma. Nafnið átti nefnilega að vera vel skiljanlegt á enskri tungu og helst alþjóðlegt. Prisma brýtur ljósið í litrófið og nafnið gat orðið jafn frægt og Perlan var þegar orðin í höfuðborginni Reykjavík.
En ég er í dag sammála að Harpa er miklu betra nafn og Prisma er meira 2007. Harpa er þjóðlegra nafn og snertir hjartað en prismað er kaldara og tæknilegra. Litirnir sem eiga að endurspeglast í litrófinu frá gluggunum minna engu að síður á tærleikann í loftinu og alla litina sem íslensk náttúra hefur að geyma. Mér skilst að forsetahjónin hafi fært Viktoríu svíaprinsessu og hennar brúðguma forláta glerskál í brúðkaupsgjöf frá íslensku þjóðinni á dögunum sem var í öllum regnbogans litum og átti einmitt að minna á alla litina sem finnast í íslenskri náttúru. Hef reyndar því miður hvergi séð mynd af brúðkaupsgjöfinni sem mér finnst að hafði verið við hæfi og að allir landsmenn gætu séð fyrir brúðkaupið.
Mér er hins vegar þegar farið að þykja afskaplega vænt um Hörpu og hlakka mikið til að sjá húsið tilbúið næsta vor, ekki síst hvernig það kemur til með að líta út utan frá. Vafalaust verður húsið einstakt í sinni röð og góður minnisvarði. Andinn sigrar efnishyggjuna.