Fimmtudagur 01.07.2010 - 23:17 - FB ummæli ()

Gamli minn og ESB

tunvingullNú á að vera tími uppgjöra í þjóðfélaginu eftir skellinn mikla, ekki síst á sviði stjórnmálanna. Íslendingar ganga samt á sama tíma til undirbúningsviðræðna um Evrópusambandsaðild. „Sterka Ísland- þjóð meðal þjóða“ eru m.a. einkunnarorð sem heyrst hafa og sem er tileinkað viðræðunum. Tvö megin sjónarmið eru uppi. Gamla góða Ísland eða land með löndum tækifæranna. Jafnvel grillir í klofning Sjálfstæðisflokksins á þessum tímamótum í sögu þjóðarinnar. En höfum við skilgreint þörfina og forsendurnar rétt. Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups sem RÚV birti í kvöld var einungis fjórðungur þjóðarinnar hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Athygli vekur að aðeins um helmingur svarenda taldi sig þekkja vel kosti og galla Evrópusambandsaðildar og fjórðungur viðurkenndi mikið þekkingarleysi á málefninu. Því er mikið verk óunnið í að kynna kosti og galla aðildar meðal þjóðarinnar áður en sjálfar viðræðurnar hefjast.

Það er alltaf gott að byrja á byrjuninni. Hugsum við um einföldu grunngildin og þá hluti sem mestu máli skipta í samskiptum manna á milli? Hvernig fyrirmyndarþjóðfélag viljum við skapa? Leitum við eftir ráðgjöf þeirra sem reyndastir eru í lífsins skóla eða leitum við til ráðamann og stjórnmálamannanna í einu og öllu og látum síðan slag standa?

Dags daglega veltir maður álíka spurningum fyrir sér í viðtölum við skjólstæðinga sem hafa ólíkar sögur að segja af sér og sínum, í sínu eigin lífi. Lífið hefur verið miserfitt og sumum mjög erfitt. Líf einstaklings getur samt að mörgu leiti endurspeglað líf þjóðarinnar og innræti þótt aðeins í brotabroti sé. Réttlætið nær ekki til allra og heppni í lífinu er mjög afstæð stærð á Íslandi. Að vísu lýðræði en við erum örþjóð þar sem vinasamfélagið ræður mestu. Það hefur bæði sína kosti og galla en elur á spillingu og klíkuskap eins og frægt er orðið. En hver er sinnar gæfu smiður segir máltækið á sama tíma og peningagræðgin ræður mestu.  Náttúruauðlindir ganga kaupum og sölum milli tiltölulega fárra manna og arður er mergsoginn úr öðru hverju fyrirtæki sem er löngu gjaldþrota. Að meðaltali ætti hver Íslendingur að eiga tæplega 2.5 milljónir krónur samkvæmt innistæðueign hjá bönkunum, ef meðaltalið réði. Í staðinn er um fjórðungur fjölskyldna í landinu tæknilega gjaldþrota.

Reynsla og þroski eru hins vegar mælanlegar stærðir á mælikvarðanum lífsleikni sem nægir oft að gera lífið hamingjusamara, óháð ríkidæmi. T.d. að geta nýtt neikvæða reynslu á jákvæðan hátt. Lífsreynsla þegnanna hefur einnig þann tilgang að móta þjóðina og miðla reynslu og þekkingu til næstu kynslóðar. Trúarhreyfingar og stjórnmálahreyfingar hafa hingað til hjálpað okkur að fara sameiginlegar leiðir að þessum markmiðum hverju sinni. Í blíðu og stríðu. Þannig hefur það alltaf verið þar til nú. Nú þarf nýtt blóð og nýja þekkingu. Og um stundar sakir verðum við sjálf að vera okkar eigin stjórnmálaflokkur og við sjálf ábyrgari fyrir framtíð okkar en nokkru sinni áður.

Á göngum nú um hásumarið rifjast endurtekið upp fyrir mér ýmsar upplifanir eða hughrif frá æsku sem tengjast gömlu sveitinni minni. Spurningin er hvort mínar einföldu hugrenningar tengist þjóðarsálinni á einhvern hátt og eins hvort þroski minn og reynsla gegnum árin hafi kennt mér að meta hlutina rétt. Er ég dómbær? Þetta þarf ég að vita til að geta tekið stórar ákvarðanir fyrir þjóð mína. Ef þjóðarsálin er ennþá eins og barn eða óstálpaður unglingur er samt ágætt að byrja þar.

Ég tel að það hafi verið mikið lán að fá að hafa alast upp í sveit á sumrin. Ógleymanlegar ferðir eftir beljunum þegar þær voru sóttar til mjalta á gúmitúttum með sólbrennd eyru. Upp í fjall, yfir holt og hæðir, í þoku og rigningu eða glaða sólskyni og sumarhita. Stundum hálf týndur og varð að treysta á innsæi dýranna. Langar göngur eftir skorningum og meðfram nýgröfnum skurðbökkum í mýrum og flóum. Vaða læki, sökkva í mýri og hræðast svartapyttina og sökkva í hyldýpið og koma aldrei upp aftur. Hlaupa yfir tún og móa á eftir hestunum og ríða síðan berbakt heim að bæ. Rafmagnsleysið og lestur með olíulampann sér við hlið á kvöldin. Bíða eftir mjólkurbílnum tvisvar í viku til að frá fréttir frá umheiminum í Mogganum eða með sendibréfi.

Allt þetta gaf manni ákveðna skynjun og reynslu í formi tilfinninga sem verður sífellt áþreifanlegri eftir því sem maður eldist og fer að skilgreina hlutina upp á nýtt. Gamla góða sveitin var alltaf best. Það breytti þó ekki því að á haustin var alltaf mikil eftirvænting að komast heim í „bæjarmenninguna“. Komast í sjoppur og í bíó um helgar. Geta horft á sjónvarp og tilheyrt hinum stóra heimi. Á einhverjum tímapunkti miklu síðar fer maður svo að njóta hversdagslegustu hlutanna aftur betur og betur. Maður hugsar þá gjarna til gömlu daganna. Enn síðar fer maður svo að reyna að treina sér þessar góðu stundir og vilja njóta þeirra sem lengst hverju sinni.

Í sumar t.d. hef ég, nú á miðjum aldri, sennilega aldrei fylgst jafn náið með gróðrinum og hvernig hann og annað líf vaknaði til lífsins með vorinu. Frá fyrstu grænu stráunum og fyrstu sóleyjunum til dagsins í dag þegar stráin eru að verða að frumskógi á þeirra eigin mælikvarða og gnæfa nú yfir annan gróður. Hvernig lúpínan breiddist yfir eins og blátt töfrateppi á örfáum dögum á ólíklegustu stöðum og gaf manni jafnvel þá hugmynd að maður væri komin í aldingarðinn Eden. Og daginn sem varla var stigið á túnfótinn fyrir ánamöðkum sem skyndilega ákváðu að hittast á góðum súldardegi til að gera upp sín mál. Gróðurlyktin af mismunandi grösum og nýútsprungnum blómum og jafnvel af blautri moldinni og mýrarrauðanum. Hljóðunum frá hundunum sem hlupu um í grasinu og á stígunum svo undir tók á köflum og minnti mann á dynjandann í göngunum í sveitinni í gamla daga þegar bikkjurnar urðu að bestu gæðingum. Fuglasöngur af öllum gerðum, svo stundum er maður við það að ærast. Fylgjast með viðbrögðum fuglanna til að verjast sig og sína og baráttuna þeirra á milli. Mávar og vargfuglar alltaf á næstu grösum. Allt var þetta að segja manni eitthvað, hversdagslegir hlutir sem líða fljótt hjá en sem eiga sér samlíkingar með dægurmálunum í gær og jafnvel í dag.

Sennilega er þessi sterka upplifun hluti að því að eldast og þroskast og þakka ég kærlega fyrir það. Ef til vill eru þessi skrif til marks um að ég sé seinþroska að hafa ekki uppgötvað þessi undur miklu fyrr. Réttara væri þó að segja að nálgunin hafi aldrei notið sín jafn vel og í sumar af ástæðum sem flestir ættu að kannast við. Umræðan hefur nefnilega verið með þeim hætti síðastliðin misseri, að daglega vakna spurningar um hvar í ósköpunum við erum stödd í óskilgreindri gerviveröld. Hvað er satt og hvað er logið? Hverjir rændu peningunum okkar og hvar eru þeir núna? Hverjir fengu lán sem þeir þurfa ekki að borga til baka? Lög voru ólög og stjórnmálamönnum vart treystandi. Jafnvel bankarnir brugðust trausti. Nýjar fréttir á hverjum degi. Líf okkar mannanna er eins og blakandi strá í vindi, jarðbundið og sterkt, hluti af sterkri liðheild en þolir samt ekki að það sé traðkað á því.

Samtenging við hugarástand sem maður telur raunverulegt verður þannig ennþá sterkara þegar veröldin fer á hvolf. Gildin sem reyndust fölsk verða þá að víkja. Öll eigum við okkar sögu sem getur komið okkur til góðs, ef við bara viljum. Eins og miðsumarið skartar nú sínu besta, þannig blómstrar mannhugurinn líka best á miðjum aldri, við erum þroskaðri og reynslunni ríkari. Þess  vegna höldum upp á hvert árið sem við lifum með afmæli og þökkum fyrir okkur um leið. Allra síst viljum við þó missa af afmælum barnanna okkar, barnabarna og barnabarnabarna. Þannig teljum við árin best.

En hvað með aldur þjóðarinnar sem við vitum að er ung í alþjóðlegum samanburði og hversu þroskuð er þjóðarsálin? Getur verið að skýring á útrásartímabilinu hafi verið einhverskonar unglingaveiki hjá þjóðinni. En unglingarnir þroskast, fullorðnast og róast. Síðar eru teknar stórar ákvarðanir sem varða framtíðina og margir skuldbinda sig út lífið. Ef þjóðarsálin er vanþroska, er þá ekki betra að leyfa henni að þroskast aðeins betur og öðlast meiri reynslu til að geta tekið ákvörðun um framtíð sína? Varla liggur svo mikið á.

Það eftirsóknaverðasta við að ganga í Evrópusambandið er samt að þá opnast hugsanlega meiri möguleikar á námi erlendis. En oft virðist hins vegar grasið grænna hinum megin við lækinn. Möguleikar á framhaldsnámi eru ágætir í dag og Háskóli Íslands og fleiri menntastofnanir hafa náð góðum samstarfssamningum við menntastofnanir út um allan heim svo víða standa okkur alla dyr opnar. En ef til vill getum við ekki haldið okkur við einangrunarstefnu landsins endalaust. Það er eigingjarnt og ósanngjarnt gagnvart öllum þeim sem vilja kynnast landi okkar og þjóð. En við skulum ekki ganga til samninga sem undirmálsmenn, nú rétt eftir fjármálahrun og flest í sárum. Tímasetningin er einfaldlega röng og undir óeðlilegum aðstæðum auk þess sem þjóðin þarf að þroskast betur til að geta metið af raunsæi kosti og galla. Vil í þessu samhengi benda á góða grein eftir Ingva Gíslason í Fréttablaðinu í morgun um sjálfstæðisvitundina og hvernig hún hefur þróast á sl. árum.

Í Kína er sagt að gamall maður sé vitur maður. Við þurfum ef til vill bara að spyrja eldra fólkið réttu spurninganna til að verða þess vísari. En við höfum lítið talað við eldri kynslóðina. Okkar eigin nútímaþekking á flestum sviðum brast og var ósönn. Svörin þeirra eru því okkur í dag afar mikilvæg og byggja á þroska, reynslu og innsæi. Við höfðum líka lesið illa heima og rangt á milli línanna, töldum peningana vitlaust, vorum að flýta okkur, vorum of gráðug og reikningsskilin voru að lokum kolröng. Ungt fólk fær góðar hugmyndir en tölum nú við gamla fólkið sem er flest jarðtengt og spyrjum það hvað sé mikilvægast í enduruppbyggingu þjóðfélagsins. Veltum síðan fyrir okkur samstarfi með öðrum þjóðum á okkar eigin forendum. Verum leiðandi í þeim viðræðum, við höfum svo margt að bjóða sem er afskaplega eftirsóknavert.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn