Sunnudagur 04.07.2010 - 22:26 - FB ummæli ()

Náttúruval hjá börnum á Íslandi

lupinuskyrslaMikil umræða hefur átt sér stað um nýjan landnema hér á landi, lúpínuna og sitt sýnist hverjum um ágæti hennar í flóru landsins. Stofnanir og samtök hafa ólík sjónamið og menn skrifa lærðar greinar í blöðin og netmiðla og ýmist lofa hana eða hallmæla. Náttúrufræðistofnun er e.t.v. sú stofnun sem ætti að hafa mesta að segja í þessu samhengi en þar er það sjónarmið ríkjandi eins og kom fram í Fréttablaðinu í fyrradag að lúpínan vaði yfir annan lágróður á holtum og melum og minnki þannig fjölbreytileikann í íslenskri náttúru. Þannig verði að hefta útbreiðslu hennar áður en allt verður um seinan. Skógræktarmenn benda hins vegar á hvað lúpínan er góður landnemi  og henti vel til að brjóta jarðveginn niður og undirbúa hann m.a. fyrir skógrækt. Sú var tíðin að skógar uxu hér á landi milli fjalls og fjöru. Með kólnandi veðurfari, ofnýtingu skógar og ofbeit búfénaðar, útrýmdum við hins vegar skógunum á meirihluta landsins. Nú erum við e.t.v. að fara inn í hlýindaskeið og ættum að geta átt góða möguleika á að græða landið aftur upp fyrir komandi kynslóðir og bæta fyrir það sem við höfum tekið ófrjálsri hendi gegnum árin.

tonleikar2Önnur flóra er mér ekki síður hugleikin í þessu samhengi og er það okkar eigin flóra, í okkur og á. Sú flóra er okkar nánasta nærumhverfi, meðal annars í efri hluta öndunarveganna. Þar er að öllu jöfnu ákveðnar bakteríur sem eru í jafnvægi við aðrar bakteríur og þar á sér einnig stað náttúruval m.a. með lyfjavali. Eftir sýklalyfjagjöf eyðast sýklalyfjanæmu bakteríurnar en sýklalyfjaónæmar bakteríur sem eru nýir landnemar hér á land, fá kjörtækifæri að vaxa og ná sér á strik. Slíkt gerist, annaðhvort með smiti frá öðrum einstaklingi eða þá að einhverjir stofnar hafi verið til staðar í nefkoksslímhúðinni en ná sér ekki á strik vegna mótstöðu „náttúrulegu“ flórunnar nema ef kjöraðstæður verða eins og eftir sýklalyfjameðferð. Þá vaða þessir stofnar yfir annan „gróður“. Þarna verður sem sé mikið ójafnvægi á milli aðstæðna í okkar eigin náttúru af okkar eigin völdum, sýklalyfjaónæmum bakteríustofnum í vil, því meira sem sýklalyfjanotkunin er meiri hjá landanum.

Í sjálfu sér væri þetta ekki stórvandamál ef um einstakan atburð væri að ræða því smá saman kæmist þá aftur á jafnvægi. Og auðvitað viljum við geta meðhöndlað alvarlegar sýkingar sem líkaminn ræður ekki við sjálfur. Það er hins vegar mikið verra þegar ástandið er ríkjandi og viðvarandi. Þannig hefur einmitt skapast mikið vandamál á Íslandi hjá ungbörnum sem fara allt of oft á sýklalyfjakúr af litlu sem engu tilefni. Sýklalyfjaónæmum pneumókokkastofnum, sem upphaflega komu sem nýir landnemar frá Spáni og síðan frá fleiri löndum, hafa þannig náð að fjölga sér mikið. Alvarlegasta vandamálið er þó þegar þessir sýklalyfjaónæmu stofnar valda alvarlegum sýkingum svo sem slæmum og alvarlegum eyrnabólgum, kinnholusýkingum og lungnabólgum. Þótt þessi baktería sem oft er kölluð lungnabólgubakterían sé einn algengasti meinvaldurinn hjá okkur mönnunum að þá er hún engu að síður hluti af náttúrulegri nefkoksflóru og oftast til friðs. Stofnar sem fá að vera í friði eru þannig líka ólíklegri að valda sýkingum en nýir stofnar sem taka sér nýja bólfestu í flórunni, sérstaklega ef þeir eru tilkomnir eftir algera uppstokkun á flórunni áður með sýklalyfjakúr.

lyfjavalÍslendingar nota meira af sýklalyfjum en nágranaþjóðirnar. Mestu munar um notkunina hjá börnum sem oftast er vegna vægra eyrnabólgutilfella. Nýjustu tölur úr lyfjagagnagrunni Landlæknis sýna nú að aðeins hefur dregið úr sýklalyfjanotkuninni árið 2009 samanborið við árið 2008 eða um 10% og er það auðvitað vel. Mestu máli skiptir þó að mest sé dregið úr sýklalyfjanotkun yngstu barnanna sem fá hlutfallslega mest ávísað. Árlega þurfa hátt í hundrað börn að leggjast inn á sjúkrahús til að fá sterkustu sýklalyf sem völ er á í vöðva eða æð til að ráða niðurlögum alvarlegra sýkinga sem ekki gengur lengur að meðhöndla með sýklalyfjamixtúrum vegna sýklalyfjaónæmis hér á landi. Klínískar leiðbeiningar ráðleggja auk þess að nota hæstu leyfilegu skammta til að meðhöndla erfiðar eyrnabólgur hjá börnum hér á höfuðborgarsvæðinu. Enginn veit hvað tekur við á næstu árum. Bólusetningar gegn þessum bakteríustofnum leysa vonandi einhvern vanda tímabundið a.m.k. En nýir stofnar koma líklega í stað gömlu stofnana með tímanum. Því er alvarlegt að rugga bátnum of mikið og nota verður sýklalyfin af kostgæfni.

Tími kraftaverkalyfsins penicillíns og skyldra lyfja gæti verið að líða undir lok en í dag er um 35% lungnabólgubakteríunnar með ónæmi fyrir penicillíni og varalyfjum hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem sýklalyfjanotkunin er mest. Fyrir tilkomu sýklalyfjanna dóu um 30% þeirra sem fengu lungnabólgu svo að um grafalvarlegan hlut er að ræða ef sýklalyfin hætta að virka enda ný sýklalyf sem gætu leyst gömlu lyfin af hólmi ekki í augsýn.

Náttúruval á sér stað með ýmsum hætti. Þeir hæfustu komast alltaf best af samkvæmt þróunarkenningu Darwins en það er á okkar ábyrgð að hafa jákvæð áhrif á umhverfið til að náttúruval gagnist okkur öllum sem best á flestum sviðum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn