Sunnudagur 11.07.2010 - 11:44 - FB ummæli ()

Eitt skref í einu

Nú, enn einu sinni, er verið að kynna nýjar byggingartillögur á Landspítalalóðinni fyrir hið nýja sameinaða hátækni- og háskólasjúkrahús Landspítala við Hringbraut. Sem barn og við börn sín hefur maður farið í leikinn, Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Í sjálfu sér væri fátt við nýju tillögurnar að athuga ef við ættum nóg af peningum. En ef til vill erum við að höfða til væntanlegrar aðstoðar frá Brussel frekar en Hamborg. Og þetta er ekki leikur.

Sagan endalausa um spítalann nær til síðustu aldarmóta með sameiningu Sjúkrahús Reykjavíkur, gamla Borgarspítalans og Landspítalans. Það sem maður hefur samt aðallega séð síðan er niðurskurður á starfsfólki og mikið aukið vinnuálag þeirra sem eftir eru. Eintóma sparnaðrráðstafanir og tilfærslur á kostnað mannauðssjónarmiða. Kjör starfsmanna hefur verið haldið niðri og brostinn er á atgerfisflótti fagfólks. Hæfasta starfsfólkinu, býðst nú mörgu eftir hrun, mikið betri kjör í öðrum löndum enda búið er að lækka laun þess niður fyrir þau lélegu velsæmismörk sem það var með fyrir í svokölluðu góðæri og sem kom jafnvel aldrei til þess. Starfsfólk, sem margt er komið á miðjan aldur og jafnvel með 6-12 ára sérnám að baki plús andvirði íbúðar í skuldahala í námslánum í forgjöf, einfaldlega lifir ekki lengur af þeim launum sem eru í boði og á þá eftir að koma sér og sínum fyrir í varanlegt húsaskjól.

Á sama tíma eru endalausar bollaleggingar um húsnæðisvanda LSH, í framtíðinni. Mér vitanlega viðhefst starfsemin ágætlega í núverandi húsnæði en sárlega vantar hjúkrunarrými, sérstaklega fyrir eldri borgara. Ég sé ekki að miklar breytingar þurfi að vera þar á næstu áratugina nema auðvitað við ættum nóg af peningum eins og áður sagði og skaffa má húsnæði fyrir hjúkrunarrými á annan hátt. Nýta má sjúkrastofnanir í nálægð við höfuðborgarsvæðið betur og jafnvel skurðstofur. Venjan ætti jú að vera að spara fyrir því sem maður vill eignast. Það ætti síðasti áratugur í sameiningarferli  spítalanna að hafa kennt okkur. Alla veganna er miklu meiri þörf fyrir að tryggja mannauðinn og menntunina í landinu. Húsin gera lítið gagn tóm þótt glæsileg séu og ef hæft starfsfólk vantar. Þau geta því beðið og lagfæra má önnur og nýta betur. Tug milljarða byggingaráform næstu árin eru því glapræði miðað við ástandið í þjóðfélaginu í dag.

Í dag er lóðin við gamla Borgarspítalann í Fossvogi miklu betur til þess fallin að byggja við og aðkoma fyrir sjúkramóttöku er þar miklu betri fyrir allt höfuðborgarsvæðið en á Landspítalalóðinni. Sú uppbygging kæmi alltaf til með að nýtast í framtíðinni hvað húsnæði og hjúkrunarrými varðar. Sjónarmið um atvinnubótavinnu fyrir iðnverkamenn og hönnuði á þeim mælikvarða sem nú er verið að kynna sem kreppuúrræði er alltaf of dýru verið keypar. Hins vegar má bæta eldra húsnæði og nærtækara væri að kaupa aftur t.d. Heilsuverndarstöðina v/ Barónsstíg og sem áður hefur verið fjallað um hér á Eyjunni. Gera má það húsnæði upp og jafnvel bæta við hjúkrunarrýmum með viðbyggingu sem sárlega vantar í dag og þarf ekki að rýmast í sjálfu hátæknisjúkrahúsinu. Eins með fleiri hjúkrunarrýmum í nærbyggðinni. Og ef peningar eru til er þeim einfaldlega miklu betur varið í almenna uppbyggingu á mennta- og heilbrigðiskerfinu en rándýrum byggingaráformum á Landspítalalóðinni við núverandi aðstæður og sem vel geta beðið endurskoðunar síðar.

Eitt það vitlausasta í byggingartillögunum sem nú liggja fyrir er samt að þar er gert ráð fyrir þyrlupalli á 3 eða 4 hæð rétt hjá gjörgæslunni og skurðstofunum sem eru næst kjarna svæðisins. Það vita allir Íslendingar að ímyndin um þyrlupall á háhýsi á ekki við nokkra hæða byggingu í Þingholtunum. Slysahættan af slíku m.a. í válindum veðrum tel ég einfaldlega allt of mikla og getur stefnt allri starfsemi spítalans og byggðinni þar í kring í stórhættu. Góð aðstaða er hins vegar fyrir þyrlur að athafna sig í Fossvoginum og í framtíðinni þarf frekar að gera ráð fyrir tveimur þyrlupöllum enda má gera ráð fyrir auknum sjúkraflutningum með þyrlum í framtíðinni, ekki síst á bráðamóttökur sjúkrahúsanna.

Ef byggja á upp gott heilbrigðiskerfi á Íslandi  þarf fyrst og fremst að huga að menntun og kjörum starfsmanna. Hlúa þarf að starfseminni sem þegar er fyrir og er að mörgu leiti góð, þótt ýmislegt mætti lagfæra, í stað þess að hugsa dæmið endilega upp á nýtt frá grunni. Slíka reynslu höfum við meðal annars af íslenska tölvukerfinu Sögu sem átti að vera rós í hnappagati heilbrigðiskerfisins. Það hefur þegar kostað 2 milljarða króna í hönnun og þróun og er samt engan veginn gott. Fá hefði mátt erlend kerfi sem reynsla væri komin af á miklu ódýrari hátt. Þegar er verið að nýta Bráðadeild LSH í Fossvogi betur en áður með breytingum sem hafa verið gerðar á deildinni og með stækkun sem kostað hafa mikla peninga. Sú breyting sem þörf var á hefur þróast á sl. áratug m.a. með sameiningu deilda. Þar verða næstu skref tekin og sjá á til hvernig starfsemin þróast varðandi frekari uppbyggingu á Landspítala næstu áratugina.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn