Föstudagur 16.07.2010 - 11:03 - FB ummæli ()

Rekstur og ábyrgð í íslenska heilbrigðiskerfinu.

forgangsröðun1-1024x679Undanfarið hefur töluvert borið á umræðu um mismunandi rekstrarform í heilbrigðiskerfinu. Sitt sýnist hverjum og menn vísa til kerfa vestan hafs og austan. Gamlar breytingar og nýjar. Einkareksturs og ríkisreksturs. Umræðunni er mest haldið á lofti af hagfræðingum og örðum með sérþekkingu í ríkisrekstri. Vil benda á tvö góð blogg hér á eyjunni sl. daga af þessu tilefni, nánar tiltekið Andra Geirs Arinbjarnarsonar og Stefáns Snævarrs og leggja örlítið til málanna sjálfur út frá íslenskri grasrótarþekkingu á málaflokknum. Umræða um módelin sem mest er rætt um snýst mest um hvað hægt er að spara fyrir ríkið en gæði þjónustunnar virðist skipta minna máli. Milljónaþjóða kerfum er oft snúið upp á íslenskar aðstæður en landið er örþjóð og lítið annað en eins og lítil héruð í löndunum sem verið er að bera okkur saman við. Afköst á alla venjulega mælikvarða er okkur samt síst í óhag í dag, a.m.k. ef miðað er við gæði þjónustunnar sem veitt er. Það er hins vegar fulltrúa almennings og stjórnmálamannanna að finna þá gæðastaðla sem viljum halda okkur við og tryggja áfram ábyrga þjónustu.

Á Íslandi hafa skapast hefðir og venjur sem skapað hafa eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi. Mikil ábyrgð og samviskusemi hefur einkennt öll okkar störf innan heilbrigðiskerfisins. Samt er það langt í frá að vera með þeim dýrustu miðað við fólksfjölda. Það er að sama skapi langt í frá að vera fullkomið og margt má bæta. Meira hefur verið lagt upp úr hátæknilækningum á kostnað nærlækninga í heimabyggð. Heimilislækningar hafa t.d. dregist aftur úr öðrum sérgreinalækningum, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Allir fá þó svipaða þjónustu þegar kemur að bráðaveikindum og alvarlegustu sjúkdómunum á sjúkrahúsunum sem eru ríkisrekin. Aðgengi að heilsugæslunni sem einnig er að mestu ríkisrekin er hins vegar misjöfn og verulega má betrumbæta hana til að koma meira í veg fyrir lífstílssjúkdóma hverskonar en gert er í dag, bæta geðhjálp og nýta skynsamlegar sýkingarvarir. Töluverð óstjórn hefur einnig verið í lyfjamálum sem þarf að vera ábyrgari.

Íslenskir læknar vinna vel fyrir kaupinu sínu hvort sem þeir eru í einkarekstri eða ríkisrekstri. Í launum hallar töluvert á þá sem vinna fyrir ríkið en atvinnuöryggið er meira. Nú er reyndar svo komið að launin eru orðin óásættanleg hjá ríkinu á sama tíma og samningar um einkarekstur er sniðinn þröngur stakkur. Ójafnræðis gætir einnig milli sérgreina þar sem sumir hafa ekkert val annað en að vinna fyrir ríkið. Sérgreinum er jafnvel att í samkeppni um sjúklinga sem kann aldrei góðri lukku að stýra. Óþarfa lyfjanotkun og ofnotkun dýrra rannsókna getur verið afleiðingin eins og töluvert hefur verið rætt um. Sama gera lokanir á dagþjónustu heilsugæslunnar þegar þjónustunni er veitt á dýrara þjónustustig á kvöldin eins og nú er mikið í fréttum. Atgerfisflótti er skollin á og á tveimur árum hefur læknum á Íslandi fækkað um nær 10%. Oft eru það sérfræðingar sem nýkomnir eru úr löngu sérnámi erlendis sem gefast upp og flýja land vegna skuldabyrgðar sinnar, eins og nýlega var mikið rætt hér á Eyjunni. Og lái það þeim hver sem vill.

Ríkisrekstur eða einkarekstur skiptir einfaldlega ekki mestu máli eins og staðan er í dag. Semja verður við lækna og ýmsar aðrar heilbrigðisstéttir um ásættanleg kjör til að fólk haldist í starfi. Aðeins er beðið um að gætt sé sanngirni í mati á menntun og ábyrgð eins og í öllum öðrum starfsgreinum. Ríkisrekstur hentar okkar litla en stjálbýla landi auðvitað vel, ekki síst í heilsugæslunni og á spítölunum þar sem tryggt á að vera að allir fái sömu þjónustu, óháð efnahag eða gróðasjónarmiðum. Til að slíkur rekstur geti þrifist til lengri tíma verður hann samt að vera samkeppnisfær við einkarekstur, sé hann á annað borð til staðar, og launaþróunina úti í hinum stóra heimi, hvort heldur sem menn vilja líta þar til einkarekstrar eða ríkisrekstrar.

Stórkostleg byggingaráform á Landspítalalóð sem kosta á tugir milljarða króna á næstu árum er einnig alger tímaskekkja við núverandi aðstæður og nær er að skipuleggja innviðina og menntun og hvernig á að tryggja mönnun heilbrigðisstétta í náinni framtíð. Þar eru fyrst og fremst blikur á lofti og hætt við að mörgum bregði í brún þegar þjónusta sem fólk hefur viljað ganga að og forgangsraðað sem nauðsynlegustu þjónustunni í samfélaginu nýtur ekki lengur við.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn