Fáar plöntur hafa gefið manni jafn mikið í aðra hönd og peningagrasið eða lokasjóður sem svo heitir réttu nafni og stendur nú í hvað mestum blóma. Plantan er merkileg lækningajurt sem vex víðast í graslendi á landinu og er afar sérstök að mörgu leiti sem rétt er að gefa sérstakan gaum í dag, enda tilheyrir hún hinni sönnu gömlu og góðu íslensku flóru sem er auðvitað ekki verra fyrir þá sem hatast út í t.d. lúpínuna. Sem barn lék maður sér af peningunum sem þetta gras skaffaði. Í græn-fjólubláu belgjunum mátt nefnilega finna fræin sem voru flöt og hringlaga eins og peningur. Slíkir peningar voru gjaldmiðill þess tíma, ekki síst í búðarleikjum. Sníkjudýr voru þó oft ekki langt undan og maður varð að opna belgina með varúð til að fá ekki á sig eitthvert kvikindið. Hættur á hverju strái eins og þegar peningar eru annars vegar í heimi fullorðinna. Annars er peningaeðlið samt við sig og plantan elst að miklu leiti upp með að nýta sér streð náungans. Plantan er nefnilega seinna á ferðinni en flest önnur grös og túnblóm og er að vissu leiti snýkjujurt sem nýtir sér rótarkerfi nágrannans. Þannig hirða þau afraksturinn af streði annarra. Bankablóm gæti það því einnig heitið með renntu. Lokasjóður er þó nafnið og sem er auðvitað miklu fallegra og minnir okkur á að við þurfum að vera duglegri að kenna börnunum að leita fjársjóðanna í dag.