Mánudagur 02.08.2010 - 10:54 - FB ummæli ()

Ef allt væri með felldu

hjolhysi-5Bílar og umferðin skiptir okkur nútímamanninn miklu máli, ekki síst á Íslandi þar sem oft er ekki hægt að treysta á annan ferðamáta nú orðið. Áður var það hesturinn sem var þarfasti þjónninn og ferðalaganna var örugglega vel notið. Nú er það bíllinn okkar með jafnvel nokkur hundruð hestöfl og umferðaröryggið skiptir mestu máli, enda eyðum við drjúgum tíma í bílum og þurfum oft að komast skjótt á milli staða. Stressið og mikil vinna gerir það að verkum að við þurfum að flýta okkur jafnvel meir en æskilegt er. Þótt vegalengdirnar dags daglega séu ekki jafn miklar og víða erlendis að þá er umferðarþunginn oft mjög mikill á álagstímum og jafnvel meiri en umferðarmannvirkin okkar bera með góðu móti. Við sem vön erum keyrum eftir minni enda umferðarmerkingar af skornum skammti. En hvernig haldið þið að það sé að vera útlendingur í umferðinni hér á landi?

Almenningssamgöngur innan höfuðborgarsvæðisins eru aðeins með strætó þar sem ferðir eru oft strjálar eða þá með leigubílum í völdum tilvikum. En auðvitað gætum við notað strætó miklu meira og þannig létt á umferðinni „ef allt væri með felldu“, miðað við aðstæður. Bílaeign landans er engu að síður með því mesta sem gerist í Evrópu, þökk sé góðærinu hér áður. Nú eldist bílaflotinn hins vegar hratt enda ekkert góðæri lengur.

Hvað sem öllu öðru líður verðum við að geta treyst á bílinn okkar og sem betur fer eru sífellt gerðar meiri kröfur til öryggi bílsins og umferðarinnar. Bílinn í dag er reyndar tækniundur, yfirleitt vel hannaðir og endast vel miðað við aðra hluti sem við erum alltaf að kaupa og eru ekki jafn nauðsynlegir. Og svo er hann gleðigjafi á sinn sérstaka hátt sem nota má til að ferðast í um landið okkar góða.

Önnur farartæki hafa þó selst betur en bílar hér á landi á undanförnum árum og sem virðast ekki sami mælikvarðinn á kreppuástandið. Á síðasta áratug hefur orðið sprengja í sölu á farartækjum sem hengja má aftan í bílana okkar, svökölluðum hjólhýsum og fellihýsum. Bíllin er þannig enn og aftur búinn að taka við hlutverki hestsins og nú sem dráttartæki. Nær fjórði hver Íslendingur hefur orðið beinan aðgang að fellihúsunum eða hjólhúsunum samkvæmt nýjustu tölum svo ekki sé talað um alla húsbílanna og tjaldvagnana. Ferðamáti landans og samkomur er enda orðið miðaður við góðan bíl og þessi hús á hjólum sem vegakerfið og umferðin er samt engan veginn í stakk búið til að taka á móti, a.m.k. ekki yfir hásumarið. Ég gleymi aldrei þegar við hjónin mættum á pæjumótið á Siglufirði með yngsta barnið okkar um árið með gamla góða tjaldið okkar. Við vorum ekki í sama flokki.

Reyndar ef allir sýna mikla biðlund og þolinmæði sem auðvitað er hin fagra hugsun í sumarfríinu og ef hún nær til enda ferðalagsins að þá gengur þetta næstum upp með heppni. Eins, ef við hin sem ekki erum í fríi og þurfum að komast fljótt á milli gerum ráð fyrir öllum umferðartöfunum í upphafi ferðar. Það sem er þó verst er að stórir aftan-í-vagnar á nánast öðrum hvorum bíl á köflum eru stórhættulegir farartálmar, sérstaklega ef gert er á annað borð ráð fyrir einhverjum framúrakstri á leiðinni. Vagnarnir byrgja manni sýn og rása oft mikið á veginum. Oft verður maður samt að láta slag standa og treysta á guð og lukkuna, því miður. Leikur sem getur verið milli lífs og dauða.

En ef þetta er okkur nauðsynlegt, að þá verður svo að vera, ekki satt. Tvö hús og tvö heimili. Samt hefði ég haldið að þeir sem eiga peningana gætu ráðstafað þeim í eitthvað viturlegra en að kaupa annað heimil á hjólum, sér í lagi ef við líka reiknum með öllum sem hafa aðgang að sumarbústöðum. Eða þurfum við alltaf að leita langt yfir skammt ef við eigum frí og höldum við alltaf að grasið sé fallegra hinum megin á landinu. Ferðalögin eru til að njóta og best er að eyða tíma með jörðinni sinni á tveimur jafnfljótum. Fjórðungur heimila er samt tæknilega gjaldþrota samkvæmt uppgefnum tölum svo einhverjir hljóta að vera að reisa sér „hurðarás um öxl“. Eða eigum við nú að segja „hús á öxli“. Það eina góða nú í kreppunni er að þá virðast vöruskemmurnar sem nú standa auðar á borð við Bauhaus koma að góðu gagni til að geyma öll  herlegheitin, megnið af árinu.

Nú er langt gengið á eina mestu umferðarhelgi ársins og dimmt er orðið á nóttunni sem minnir okkur á það sem bíður okkar þegar við komum heim. Og því miður má reikna með að margir séu hálf daprir í bragði og þreyttir á heimleiðinni eftir annasama helgi. Umferðin er líka sérstaklega varasöm vegna þess að mörg umferðarmannvirki anna ekki álaginu eins og áður segir og sem nú reynir hvað mest á. Mikil umræða hefur átt sér stað um vegakerfið, ekki síst hér á suðvesturhorninu og sýnist sitt hverjum um þá forgangsröðun hjá því opinbera að kosta dýra jarðgangagerð á strjálbýlustu svæðum landsins á sama tíma og notast er við gamaldags sveitaveigi á þjóð- og hringvegi landsins á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. T.d. er Vesturlandsvegurinn einbreiður með brekku og beygju og örstuttri fráreim á hægri hönd þegar keyrt er er eins og leið liggur í Mosfellsbæinn í norðurátt, rétt norðan við Úlfarsfellið inn í hverfið sem ég á heima. Þarna má engu muna að stórslys verði á degi, sér í lagi þegar bílar á leið inn í íbúðahverfið þurfa snögglega að hægja á sér til að komast inn á nokkra metra fráreimina. Og þetta er eina leiðin inn í hverfið. Ef um tvíbreiða akrein væri að ræða og „allt væri með felldu“ væri fráreimin samkvæmt lögum kolólögleg en þar sem um venjulega einbreiða akbraut er að ræða verður hver að passa sig sem hann best getur. Á sama hátt verður maður að vera fljótur að skjótast inn á þjóðveginn þegar einhver gefur séns á leið út úr hverfinu. Hvalfjarðargöngin er annað dæmi og næstmesta slysagildran á Vesturlandsveginum, sérstaklega þegar olíuflutningabílar og aðrir þungaflutningar streyma um göngin á þröngum akreinunum á móti hvor öðrum eða bílar með stórhýsi í afturdragi.

Daglega berast fréttir af ólöglegu athæfi ökuníðinga sem stefna lífi okkar hinna í umferðinni í stórhættu. Ölæði eða öðru æði er oft um að kenna. Það er önnur saga. Tillitleysi í umferðinni er hins vegar oft alsráðandi, því miður, sérstaklega í oft gráum og drungalegum hversdagsleikanum. Einnig þegar allir ættu að vera í góðu skapi eftir fríið sítt með fjölskyldunum sínum. Reynum samt að vera glöð, ökum varlega, sýnum hvort öðru sérstaka tillitsemi og fögnum því að komast heil heim.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn