Miðvikudagur 04.08.2010 - 14:03 - FB ummæli ()

Heildarmyndin skýrari

Á síðustu dögum hefur heildarmyndin skýrst töluvert hvað varðar aðdraganda hrunsins og hvaða eðlishvatir í mannsskepnunni lágu þar á bak við. Kemur þar aðallega tvennt til þ.e.  græðgivæðing og einkavinavæðing. Í dag eru nefnilega tvær stærstu rætur vandans óðum að skýrast, annars vegar „skuldavandi stórskuldugra“ sem með hjálp bankanna og eftirlitsaðila settu ríkið á hausinn og hins vegar „þöggun og vöntun á upplýstri umræðu“ sem mikið var til umræðu hér á Eyjunni í gær og sem auðvitað var og er andsnúið klíkuskap innan fjármálageirans og stjórnsýslunnar sem ennþá eimir af. Það er nefnilega með ólíkindum að heyra, nú 2 árum eftir hrun, í fyrsta skipti í opinberri umræðu hvernig menn gátu selt bönkunum viðskiptavild og pappírsfyrirtæki sín, jafnvel á uppsprengdu verði sem staðgreiðslu í hlutabréfakaupum í bönkunum um leið og sem leið til að geta tekið einnig svokölluð kúlulán fyrir hundruð milljóna króna til kaupa á meira af hlutabréfum í bönkunum, og það með veði í skuldabréfunum sjálfum!!  Ég, um mig, frá mér, til mín. Jafnframt þegar nýskipaður umboðsmaður almennings viðurkennir að „hafa hrifist einfaldlega með í græðgivæðingunni“ eins og fyrrverandi umboðsmaður skuldara gerði svo vel grein fyrir í Kastljósþætti gærkvöldsins, þökk sé Sigmari. 

Nákvæmlega þannig urðu þessir frægu ósýnilegu peningar til um stundarsakir á pappírunum en sem auðvitað urðu samt að engu þegar upp var staðið, enda aldrei til!  Árlegan arð af hlutabréfunum sem greiddur var út var hins vegar auðvelt að reikna og nýta. Það alvarlegasta sem þó gleymist í þessari umræðu allri er hvaða afleiðingar þetta hafði fyrir hinn „venjulega skuldara“ , almenning, sem eingöngu hafði tekið gengistryggð lán til íbúða eða bílakaupa og sem bankarnir hvött óspart til eða einfaldlega til framfærslu þar sem jafnvel námslán voru af skornum skammti í góðærinu. Þeir skuldarar taka öðrum fremur á sig skellinn nú, gengistrygginguna og verðtrygginguna nú auk gjaldfalls íslensku krónunnar. Einnig atvinnumissi og missi eigna svo sem eigin húsnæðis. Þeir eiga ekkert skylt með nöfnum sínum þeim stórskuldugu. Þeir fyrrnefndu eru margir hverjir gjaldþrota í dag af völdum spunagjörningsins sem þeir stórskuldugu tóku þátt í að skapa og sem fá nú afskrifuð lán sín í bak og fyrir eftir allskonar krókaleiðum í bakherbergjum bankanna.

Það verður spennandi að fylgjast með fyrsta opinbera uppgjörinu hjá fyrrverandi umboðsmanni stórskuldara eins og hann hefur lofað. Hann vann sannarlega fyrir kaupinu sínu þennan eina dag sem hann var ráðinn, þökk sé félagsmálaráðherra. Þá er kannski hægt að fara að kalla fleiri til ábyrgðar og það sem mikilvægast er, stoppa í götin, hreinsa kerfið af kerfisfeilum og sortera út hagmuni stórskuldugara og almennings. Heildarmyndin er því óðum að skýrast og vonandi styttist í að við getum farið að endurræsa þjóðfélagið okkar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn