Ofurbakteríur hafa verið til umfjöllunar í heimsfjölmiðlunum og hér heima á Vísi.is og Fréttablaðinu í morgun vegna nýs afbrigðis af sýklalyfjaónæmi sem er bundið við ákveðna ensímvirkni. Erfðaefnið sem ákveður slíka virkni getur borist á milli bakteríustofna, jafnvel stofna sem eru hvað algengastir að valda sýkingum í þjóðfélaginu og sem smitast auðveldlega á milli manna. Allir sjá hvað vandamálið er stórt ef ekki er hægt að meðhöndla algengustu sýkingarnar á áhrifaríkan hátt og hvaða ógn þjóðfélaginu stendur af slíkum „ofursýklum“, ekki síst hjá börnum og gamla fólkinu. En lítum okkur aðeins nær enda málið okkur mjög skylt eins og reyndar margt annað sem miður hefur farið í þjóðfélaginu á síðustu misserum og við erum að súpa afleiðingarnar af þessa daganna.
Á Íslandi hafa grasserað ofurbakteríur um árabil í miklu meira mæli en í nágranalöndunum og er mikilli og ómarkvissri notkun sýklalyfja helst um að kenna. Um er að ræða sýkla sem valda algengustu bakteríusýkingum hjá börnum, eyrnabólgum og lungnabólgum, svokallaðra pneumókokka. Mörg börn bera þessa sýkla og rannsóknir hér heima sýna að smit gerist helst eftir sýklalyfjameðferð eða í allt að helmingi tilfella. Það er vegna þess að þá drepast sýklalyfjanæmu bakteríurnar í nefkoksflórunni um leið og þeir ónæmu ná forskoti og fylla í skarðið. Um mjög alvarlegt ástand er að ræða hér á landi enda upp undir 40% af öllum sýkingum sem þessar bakteríur valda með ónæmi fyrir penicillíni og helstu varalyfjum. Í vaxandi mæli hefur enda þurft að leggja börn inn til sýklalyfjameðferðar í æð eða vöðva á sjúkrahús vegna sýkinga sem ekki tókst að ráða við með venjulegri inntöku. Hér á höfuðborgarsvæðinu er ástandið hvað verst og ef um alverlegri sýkingar er að ræða m.a. í heilsugæslunni verður strax að beita hæstu mögulegum skömmtum sem völ er á í þeirri von að árangur náist.
Það sem mestu máli skiptir hér á landi í náinni framtíð er að nota sýklalyfin skynsamlega því smit á ónæmum sýklum gengur miklu hraðar fyrir sig ef fólk notar sýklalyf af litlu sem engu tilefni. Gildir einu þótt reynt sé að bólusetja fólk gegn þessum sýklum tímabundið og það eru alltaf að koma fram nýir stofnar sýkla sem kallast ofurbakteríur vegna þess eins að þær fá forskot á úrlausnir okkar mannanna.