Mánudagur 06.09.2010 - 13:17 - FB ummæli ()

Englar og djöflar

angels-and-demons-trailerSéra, Örn Bárður Jónsson gagnrýndi fjölmiðla í útvarpspredikun í útvarpi allra landsmanna í gærmorgun og ásakaði þá um að fara hörðum og ósanngjörnum höndum um málefni kirkjunnar. Talaði hann um einelti og jafnaði umræðu um úrsagnir úr þjóðkirkjunni nú við þá óskastöðu ef kirkjan gæti sagt sig frá fjölmiðlum. Það er með ólíkindum að prestar skulu enn halda að málin leysist af sjálfu sér hjá hinum æðsta dómstóli. Og miðað við önnur vandamál í þjóðfélaginu sem hafa verið krufin til mergjar að þá ætti mikið að vera búið að gerast hvað varðar gamla djöfla sem kirkjan hefur haft að draga. Vandamálin til áratuga eru vel skilgreind. Þótt ekki sé hægt að vísa sakamálunum sjálfum lengur til dómstóla að þá er ljóst að áralanga spillingu innan stjórnsýslu kirkjunnar verður að rannsaka nánar. Kirkju sem er þjóðkirkja og við skattborgarnir borgum til og höldum uppi. Það að segja sig frá þjóðinni er ekki val fyrir kirkjuna heldur afleiðing þegar og ef þjóðin segir sig frá kirkjunni. Kirkjan sjálf á ekki síðasta orðið í þeim leik. Sagan er oft lýginni líkust og eitt er víst að skáldasagan Englar og Djöflar eftir Dan Brown sem flestir hafa lesið eða séð kvikmyndina, kemst ekki í hálfkvist við þá atburðarás sem er að gerast í evangelísku þjóðkirkjunni á Íslandi í dag, þótt sannleikurinn um „efnið“ sé allt annar.

En eru stjórnendur kirkjunnar meðvirkir þátttakendur í hildarleik atburðarrásarinnar eða saklaus fórnarlömb aðstæðna? Meðvirkir gerendur ofbeldismanna eru oft heilaþvegnir og lúta að vissu leiti ofurvaldi sjálfs gerandans. Þegar atburðir eiga sér langa sögu sogast þeir nánustu inn í atburðarrásina, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir verja og reyna að afsaka gerandann og réttlæta gjörðir hans til þess eins að jafnvægi haldist innan hópsins og til að skapa ekki ný vandamál sem skapa enn meira óöryggi. Slík áhrif geta náð út fyrir mörk lífs og dauða. Viðbrögð stjórnenda kirkjunnar nú, þar á meðal núverandi biskups þjóðkirkjunnar, bera merki þess vítahrings að þeir hafi verið meðvirkir gerendur í málefnum er sneru að vörnum og framgangi fyrrverandi biskups, séra Ólafs Skúlasonar. Manns sem allir eru sammála um að hafa verið gríðarega áhrifamikill og sjálfsagt ekkert grín að standa á móti, með orð gegn orði. Aðeins með því að þeir víki nú til hliðar er hægt sé að koma þeim til hjálpar. Þó ekki síst kirkjunni sjálfri og gömlum safnaðarmeðlimum. Geð- og réttarlæknisfræðin þekkir þessar leiðir mætavel. Sálfræðihjálp og áfallahjálp er þetta kallað og sem oft þarf að veita brotnum fjölskyldum til að lífið geti haldið áfram.

Sú var tíðin að kirkjan var öflug og sjálfsörugg. Hún stundaði trúboð og menn og konur á hennar vegum fóru í krossferðir til að boða fagnaðarerindið. Menn voru tilbúnir til að fórna sér fyrir málstaðinn og trúna. Nú er mesta þörfin að fara í krossferðir innan eigin raða. Deilurnar og ásakanirnar nú snúast nefnilega fyrst og fremst um trúverðugleika æðstu stjórnenda kirkjunnar. Sumum finnst þó ekki standa steinn yfir steini í röksemdafærslum stjórenda kirkjunnar en sýna henni samt ótrúlegt umburðarlyndi og bíða er að hún leysi úr sínum málum. Kirkjan á auðvitað að þola dagsljósið og til þess höfum við fjölmiðla. Þakka má sérstaklega DV og Stöð 2 fyrir efnismiklar og nákvæmar frásagnir af málefnum kirkjunnar varðandi biskupsmálið allt fram á þennan dag.

Kirkjunnar menn þurfa nú heldur betur að bæta ímynd kirkjunnar í stað þess að gráta undan sanngjarni og varfærnislegri umræðu um sannleikann í fjölmiðlum, fjölmiðla sem ennþá bera mikla virðingu fyrir þeim gildum sem kirkjan sjálf stendur fyrir eins og öll þjóðin. Stærstu dómarnir hafa enn ekki fallið hjá almenningi og sem betur fer er fjöldi úrsagna úr þjóðkirkjunni nú ekki til marks fjölda þeirra sem glatað hafa trúnni heldur aðeins toppurinn af ísjakanum af þeim sem eru orðnir óþolinmóðir og bíða eftir að kirkjan gerir hreint fyrir sínum dyrum. Þjóðin bíður jafnvel eftir að fá tækifærið til að geta fyrirgefið kirkjunni sinni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn