Sunnudagur 05.09.2010 - 10:23 - FB ummæli ()

Helgafellið

Mikið er rætt um trúmál þessa daganna. Mest hefur verið rætt um stjórnunarvanda kirkjunnar og afleiðingarnar á íslenskt þjóðfélag. Minna er rætt um þýðingu trúarinnar. Sennilega höfum við sjaldan verið í meiri þörf fyrir trú en einmitt þessa daganna. En hvað er trú og fyrir hvað stendur trúin? Trúum við á guð eða eitthvað annað? Sumir í dag tala jafnvel um tímamót hvað þetta efni varðar og þykjast geta sýnt fram á með vísindalegri rökræðu að guð sé ekki til. En skiptir það einhverju máli hvort við trúum á guð eða það góða innra með okkur? Kirkjan og önnur trúfélög eru að vísu góður vettvangur hér á landi til að virkja þessi öfl. Að hafa enga trú hlýtur að vera slæm tilfinning.

Bestu sögurnar eru oft ekki sagðar. Ein slík saga var þó sögð af góðum vini síðastliðið sumar þegar ég og konan mín gengum með félögunum í ferðafélaginu Út og vestur. Þessi ferð var einstök og reyndi á allan tilfinningaskalann. Um hana bloggaði ég í síðastliðið vor „Ef til vill þarf lífið að vera aðeins erfitt á köflum til að við getum notið alls skalans. Sár lífsreynsla eða saga getur rifjast upp og endurspeglast í andhverfu sinni, fegurðinni sem tenging við náttúruna ein getur skapað. Þannig fær hún útrás og nýja merkingu eins og í ævintýrunum. Þá sögu er hægt að segja aftur og aftur“.

Í ferðinni drógu allir hulduspil „Skilaboð frá hulduheimum“ upp á álfadómkirkjunni Tungustapa. „Álfasögur fela nefnilega oftast í sér varnaðarorð til okkar mannanna, t.d. gegn yfirgangi og hroka sem ég tel að við eigum að hlusta á og taka alvarlega“ sagði fararstjórinn. „Það er heldur ekki BARA tilviljun hvaða kort við drögum og hvaða heilræði við fáum úr bunkanum… því við höfum val. Líka það að draga ekkert spil“.

Sagan sem verður sögð hér á eftir, snýst um trú og óskir. Ekki síst áhrif þess að trúa og þau hughrif sem góðar tilfinningar og væntingar tengt trú getur gefið. Við erum ekki bara það sem við erum sköpuð úr, holdi og blóði. Við erum reyndar uppsprottin af mold og við verðum aftur að mold. Þarna á milli er eitthvað sem heitir líf. Jafnvægið milli lífs og dauða, gleði og sorgar er einhverskonar trú. Loftið sem við öndum að okkur og horfum svo skýrt í gegnum. Andrýmið okkar á milli. Eitthvað sem við viljum geta gripið í, en er óáþreifanlegt. Þessi skynjun á því sem ekki sést með berum augum, gerir okkur að manneskjum.

Íslandssagan er saga um líf og dauða merkra Íslendinga. Saga forfeðra okkar. Við höfum heyrt að dropinn holar steininn og járnið herðist í eldinum. Sama er með sálir okkar mannanna. Farsældin í reynd snýst svo oft að lokum um að geta heimfært neikvæða reynslu á jákvæðan hátt. En hér kemur loks sagan, sögð af mér eins og ég skynjaði hana á þeim tíma sem ég heyrði hana og man hana best.

Drengur bjó í Sælingsdalstungu í Dölum á sögusviði Laxdælu fyrir hálfri öld. Fátt var meira rætt en sagan, sem átti í mönnum öll bein. Hann átti langveika móður sem gat varla orðið sinnt heimilinu vegna alvarlegra geðrænna veikinda. Veikinda sem í þá daga flestir höfðu skömm á og var talin erfast til barnanna. Fjölskyldan var fátæk og ekki var farið af bæ nema í sérstökum erindagjörðum. Drengurinn fékk söguna í vöggugjöf eins og aðrir. Hann las líka meira en gengur og gerist og var auk þess bráðgreindur. Meðal annars las hann um ævi og örlög Guðrúnar Ósvífursdóttur, drotningu dalanna. Einnig möguleikann á því að kraftur hennar gæti læknað móður hans ef hann kæmist að Helgafelli í Helgafellssveit. Þangað hafði hann aldrei komið en séð í fjarska yfir sæinn frá Fellsströndinni sinni. Með grátinn í kverkunum og tárin á vöngunum óskaði hann oft eftir þessu tækifæri.

Hann var 7 ára gamall þegar tækifærið kom og honum bauðst jeppaferð með fólkinu sínu til Stykkishólms. Loksins gæti hann látið drauminn rætast þegar stoppað yrði við Helgafell í kaupstaðaferðinni. Óskin gæti ræst á Helgafelli;

Guðrúnu Ósvífursdóttur bjó að  Laugum í Sælingsdal eins og segir Laxdælu. Hún skipti búi við Snorra goð Þorgrímsson að Helgafelli. Leiði Guðrúnar er norðan við miðja kirkjuna að Helgafelli, utan kirkjugarðsins. Það er afgirt og snýr að kirkjunni að írskum sið. Guðrún er sögð hafa gerst einsetukona í klaustri að Helgafelli, er árin færðust yfir hana. Rústir þess eða einhvers annars mannvirkis eru uppi á fellinu. Sú Þjóðtrú ríkir á Helgafelli, að sé gengið þrisvar rangsælis umhverfis gröf Guðrúnar við kirkjuna og síðan þegjandi, án þess að líta við, upp á fellið og án slæmra hugsana, rætist ósk viðkomandi, þegar upp er komið, ef hann eða hún skýrir ekki frá því, sem óskað er.

Hann hafði engar slæmar hugsanir. Eftirvæntingin var mikil og biðin eftir ferðinni löng. Hann hélt leyndamálinu sínu fyrir sig einan í hjartanu því hann mátti eigum segja frá óskinni sinni. Og svo var lagt í hann, í lok sumars í tilefni töðugjaldanna. En þegar að Helgafelli var komið var drengurinn steinsofnaður í aftursætinu enda ferðin löng og stoppað hafði verið á mörgum bæjum á leiðinni. Hann svaf svo fast og vært að samferðarfólkið tímdi ekki að vekja hann enda orðið áliðið og veðrið var ekki upp á það besta. Göngu á Helgafellið var því sleppt í þetta skiptið og bæjarferðin kláruð og útréttað það nauðsynlegasta í kaupfélaginu. Síðan var keyrt heim í sveitina aftur.

Óskina var þannig aldrei hægt að bera fram og fjarlægur draumur náði aldrei að verða að veruleika. Sú staðreynd breytti því ekki að alltaf þegar drengurinn horfði til Helgafellsins síðar, jafnvel eftir að hann varð fullorðinn, komu tár í augun. Barnstrúin var þarna ennþá tengt Helgafellinu og krafti Guðrúnar Ósvífursdóttur. Trú vonarinnar. Eins og að hafa reynt að grípa í eitthvað sem hann sá en var ekki áþreifanlegt. Sár gátu síðan opnast og hann fann að tilfinningarnar voru til staðar. Jafnvel þótt hann hefði ekki fengið að velja sitt spil fyrr en löngu seinna. „Þú getur lokað sárin innra með þér, en það hindrar þátttöku þína í flæði lífsins og býr til ný sár. – Leyfðu þér að hafa opið hjarta og elska lífið.“  Hann hafði síðar dregið spil úr stokknum góða og gat nú skilið merkinguna mikið betur. Og óskin hans hafði sennilega rættst öðruvísi en hann ætlaði.

Hann hefur lært að elska land sitt og njóta. Hann hefur lært að deila tilfinningum sínum með öðrum. Það er honum eflaust nóg. Trúin á lífið, landið og söguna þar sem draumar geta ræst en rætast oftast ekki, eins og við sjáum hlutina. Sagan og landið er eitt, tengt trú og vonbrigðum, vonum og ótta. Það gerir okkur að þeim manneskjum sem við erum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · kirkjan · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn