Miðvikudagur 01.09.2010 - 13:55 - FB ummæli ()

Nauðvörn þjóðkirkjunnar

Skoðun Hr. Karls Sigurbjörnssonar núverandi biskups er að ímyndin sem birtist í embættisgjörðum forvera síns, Ólafs Skúlasonar heitins gagnvart fyrrverandi sóknarbörnunum, þurfi ekki að vera svo sköðuð. Beiskleiki hans megi ekki skyggja á björtu stundirnar og gleðiathafnirnar í kirkjunni. Heilögustu stundunum sem almenningur treysti prestinum sínum fyrir. Frá vöggu til grafar, gegnum súrt og sætt. Sunnudagaskólarnir og fermingarundirbúningurinn og allt annað. Allt það sem kristin trú stendur fyrir og sem almenningur hefur tileinkað sér með sinni þjóðtrú. Hvað er biskupinn eiginlega að meina? Á hverju byggist hans trú, bókstafnum eða manneskjunni? Fleiri ummæli hans eru í svipuðum dúr og sem lýsir djúpu skilningsleysi á vandanum. Vandinn er reyndar enn flóknari vegna mjög sterkrar persónuímyndar sem séra Ólafur Skúlason hafði og allir vita sem til hans þekktu. Þeim mun meiri ástæða er að greiða vel úr sálarflækjunum. Það má vel vera að það sé sama hvaðan gott kemur, í sumum tilvikum, en upplifun á „góðu“ stundunum í kirkjunni fá á sig allt annan blæ í endurminningunni ef hún reynist ekki hafa byggst á trausti.

Útskýringar vantar á því af hverju kirkjan neitaði endurtekið að hjálpa konum sem höfðu orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri misbeitingu innan kirkjunnar. Ekki í ár heldur áratugi. Kirkja sem neitaði að hjálpa og sem varð til þess að konurnar urðu að taka afleiðingunum og ætluðu af lítillæti sínu að taka „vandamálið sitt“ með sér í gröfina. Þær höfðu endurtekið kallað eftir hjálp, en á þær var ekki hlustað.

Þjóðkirkjan hefur til skamms tíma notið í ótrúlegs trausts og fengið að vera í friði. Fólk hefur trúað prestunum fyrir kirkjunni sinni, mann fram af manni. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Upplýst hefur verið um þöggun og klíkuskap innan kirkjunnar, jafnvel skipulögð atlaga gegn sjálfum sannleikanum sem margir æðstu stjórnendur kirkjunnar og einstaka embættismenn tóku þátt í. Sóknarbörnin trúa ekki sjálfum biskupnum og sóknarbörn í landinu eru tortryggin gagnvart prestunum sínum og bíða útskýringa hvernig kirkjan ætlar að endurheimta traustið. Ef frelsarinn reyndist falsspámaður, tryðum við honum samt? Sem betur fer þarf samt meira að gerast til að þeir trúuðu tapi trúnni enda stendur hún ofar mannlegum mætti og veikleika mannsins, einnig presta og biskupa. En kirkjan verður að fá meira traust til að ímyndin skaðist ekki meir en orðið er og trúlitlir og börn hrökklist ekki frá. Trúarreynsla heillar kynslóðar innan kirkjunnar getur verið í veði, ekki síst þeim sem séra Ólafur þjónaði. Kirkjan skuldar öllu þessu fólki afsökun fyrir hans hönd, og af öllu hjarta.

Kirkjunnar menn eru samt aðeins að taka við sér eins og síðustu fréttir herma. Fréttir berast af tárum á vöngum presta sem er góður fyrirboði. Afsökunarbeiðnir yfirstjórnar kirkjunnar eru þó ennþá hjáróma. Margir neita að gangast við fullri ábyrgð. Mannréttindamálaráðherra þegir þunnu hljóði þótt embættið beri líka mikla ábyrgð á þjóðkirkjunni enda forveri hans kirkjumálaráðherra. Allsherjar uppgjör þarf að fara fram innan kirkjunnar og tengsla hennar við stjórnsýsluna. Í raun er verkefnið miklu stærra en ein óháð Sannleiksnefnd kirkjuþings getur framkvæmt og sem er ætlað að fara í saumana á myrkustu atburðum og starfsháttum eigin starfsemar. Óafsakanlegar aðgerðir og aðgerðarleysi sem tengdist yfirhylmingum með glæpum og valdabrölti um áraraðir. Ólíkur glæpunum gagnvart konunum er þöggunin nú gangvart starfsemi þjóðkirkjunnar í heild.

Skaðinn sem kirkjan gerir sjálfri sér eykst með hverjum deginum sem líður. Tæpur hálfur mánuður er nú liðinn frá því ég óskaði eftir viðtali við biskup vegna innri málefna kirkjunnar. Erindinu hefur ekki verið svarað ennþá. Mér var ekki sama um kirkjuna og mér er ekki sama um barnstrúna heldur. Ég hangi ennþá í voninni um að eitthvað gott geti komið kirkjunni til hjálpar, hennar vegna og þjóðfélagsins alls sem nú er í sárum af mörgum ástæðum og má ekki við fleiri áföllum. En fyrst viljum við allan sannleikann og öll spilin á borðið. Biskup verður að víkja til hliðar. Vonleysið sem nú ríkir innan kirkjunnar og vantrú á eigin getu er versta vörn hennar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · kirkjan · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn