Þriðjudagur 07.09.2010 - 14:26 - FB ummæli ()

Syngur hver með sínu nefi?

Haustið er komið og haustpestirnar líka. Veturinn er síðan aðaltími pesta og loftvegasýkinga. Um 20% af öllum komum sjúklinga til heilsugæslunnar og vaktþjónustu hennar 2009 var vegna öndunarfærasýkinga (Talnabrunnur Landlæknisembættisins). Um helmingur koma veikra barna til læknis er talin vera vegna miðeyrnabólgu eingöngu. Íslendingar nota mest allra á Norðurlöndunum af sýklalyfjum og hvergi er sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvaldanna meira. Af þessu tilefni hélt Læknafélag Íslands málþing um meðferð á loftvegasýkingum á fræðadögum sínum eftir áramótin síðustu. Sérfræðingar úr hinum ýmsum sérgreinum nálguðust vandamálið, hver með sínu nefi, en fjölluðu þó fyrst og fremst um hvenær og hvenær ekki ætti að nota sýklalyf. Kvef og veirusýkingar læknast af sjálfu sér og flestar vægar bakteríusýkingar í efri loftvegum einnig. Þetta á ekki síst við um  miðeyrnabólgurnar hjá börnum og skútabólgurnar hjá fullorðnum.

Í nýjasta hefti Læknablaðsins sem kom út í dag eru útdrættir málþingsins birtar en það bar heitiðSyngur hver með sínu nefi“. Allir sérfræðingarnir lögðu mikla áherslu á að læknar vandi til ávísana á sýklalyf því ómarkviss notkun þeirra leiðir til enn meira sýklalyfjaónæmis í framtíðinni. Læknar eru hvattir til að fara eftir nýjustu leiðbeiningum í þessum efnum og mælt er frekar með eftirliti með einkennum en sýklalyfjagjöf af minnsta tilefni.

Öll erum við sérstök og dálítið öðruvísi. Það á við um lækna eins og aðra. Flestir vilja gera sem mest fyrir sjúklinginn. Aðstæður geta hins vegar verið mismunandi, annars vegar hjá sjúklingi eða aðstandenda veiks barns og hins vegar hjá lækninum. Ósk um skjóta og örugga lækningu kemur oft frá sjúklingi en tímaleysi í viðtali og óöryggi í greiningu ráða mestu um ávísun á sýklalyf hjá lækninum. Leiðbeiningar eru einmitt gerðar til að hjálpa til við nákvæmari greiningu, samræma vinnubrögð varðandi úrlausnir og hvetja til íhaldssemi þegar kemur að því að velja sýklalyf. Oft er þörf en nú er nauðsyn að læknar „syngi ekki hver með sínu nefi“ þegar kemur að því að ákveða hvaða meðferð sjúklingur fær hverju sinni heldur að þeir styðjist við bestu þekkingu hverju sinni og noti klínískar leiðbeiningar,  m.a. klínískar leiðbeiningar Landlæknis um meðferð miðeyrnabólgu barna. Ef við eigum ekki að tapa orrustunni gegn sýklunum verðum við að taka öll höndum saman um að nota sýklalyf skynsamlega, ekki síst til að þau komi að gagni þegar þörfin er mest. Ofnotkun sýklalyfja hefur öðru fremur leitt til þeirrar stöðu sem við erum nú í, en upp undir helmingur alvarlegustu bakteríustofnanna, pneumókokkanna er orðinn ónæmur fyrir penicillíni og helstu varalyfjum á höfuðborgarsvæðinu.

Seint á haustin hvetur Landlæknisembættið fólk til að láta bólusetja sig gegn árlegri inflúensu. Breytir engu nú þótt fólk hafi fengið svíninflúensubólusetningu áður eða eigi það jafnvel eftir. Mesta hættan er á að gamalt fólk og ungbörn fái alvarlegar loftvegasýkingar í kjölfar slæmra veirusýkinga eins og inflúensu. Fólki eldra en 60 ára er einnig ráðlagt að fá bólusetningu gegn pneumókokkum (lungnabólgubakteríunni) og ungbörnum stendur til boða pneumókokka-bólusetning á kostnaðarverði ef óskað er eftir. Kostnaðurinn stendur hins vegar í sumum foreldrum þar sem þrjár bólusetningar sem þarf á fyrsta ári barnsins kostar um 37.000 kr. Í dag sitja þannig ekki allir við sama borð hvað þetta varðar, tengt efnahag. Á næsta ári er þó stefnt að því að börn sem fædd verða á því ári fái bólusetninguna ókeypis og verður hún þá gefin með öðrum bólusetningum í ungbarnaheilsuverndinni. Á öðrum stað í Læknablaðinu hefur verið sýnt með kostnaðarvirknigreiningu að slík almenn ungbarnabólusetning sé þjóðhagslega hagkvæm. Með almennri notkun á bóluefnunum á að vera hægt að draga verulega úr ótímabærum sýkingum af völdum pneumókokka í þjóðfélaginu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn