Þessa mynd tók ég á leiðinni í vinnuna í gærmorgun í Hafnarfirði. Stór og mikill regnbogi blasti yfir bænum í lengri tíma. Eitt augnablik staldraði maður við og hugsaði með sér hvað væri svona sérstakt við þennan dag. Regnboginn gerði gæfumuninn. E.t.v. hefði verið betra að dagurinn í gær hefði verið í dag. En vonandi gaf regnboginn í gær samt fyrirheit um eitthvað gott í dag.
Í dag er svo nýr dagur, vonandi góður og fagur. Stóridómur verður upp kveðinn og ákveðið hvort Landsdómstóll fái lokaorðið. Hæstiréttur hefur ekkert með málið að segja eins og í öðrum málum okkar mannanna og spurning hvort vísa hefði ekki átt málinu bara strax í til „hins æðsta dómstóls“ eins og fordæmi er fyrir þessa daganna. En auðvitað er best að vita allan sannleikann. Ef að líkum lætur varðandi niðurstöðuna og jafnvel hver sem hún verður á dómsdegi okkar Íslendinga að þá er samt skynsamlegt að fara að huga strax að erfðaskránni fyrir kynslóðina sem á að taka við. Alþingi gæti þurft að leita hjálpar varðandi fósturforeldra og nærtækast er að leita skjóls til ættingja og vina. Við tölum gömlu norsku og Norðmenn eru okkar nánustu skyldmenni. Samkvæmt venjunni ættum við að leita fyrst til þeirra.