Sunnudagur 12.09.2010 - 11:17 - FB ummæli ()

Túnin í sveitinni

ottarsstadir_totukofi_2010Í dag er rok og rigning. Haustverkin bíða og gera þarf allt klárt fyrir veturinn. Í sveitinni „í gamla daga“ var haldið upp á tímamótin þegar sumarverkunum var lokið, sérstaklega heyskapnum með svokölluðum töðugjöldum. Allir voru ánægðir með sitt ef náðist að heyjast og séð fram á að skepnurnar fengju nóg fyrir veturinn. Þá fengju mennirnir nóg einnig. Sum sumur voru þó köld og blaut. Stundum kólu heilu túnin á vorin og alger uppskerubrestur varð. Þá var skorið niður og hey flutt á milli landsfjórðungana til að bjarga því sem bjargð varð. Allir hjálpuðust að.

Ég man mjög vel sem strákur í sveit að sláttur túna vakti upp mikla eftirvæntingu og var eins og byrjun á uppskeruhátíð. Lesa þurfti í sprettuna og þroska grassins. Eins veðurspánna framundan, taka skeytin. Tekin var hrífa í hönd og gengið á eftir græna traktornum og rakað frá inn á túnið fyrsta hringinn svona til að nýta túnið sem best og til að snúningsvélarnar næðu að hirða allt grasið síðar. Það var gaman að raka frá og greiða nýsleginn grassvörðinn með hrífunni góðu. Sjálfa móður jörðina. Blöðrur í lófa var ekkert tiltökumál. Þar sem sláttuvélin komst ekki að var oft slegið með orfi og ljá. Brekkur og engi. Gengið á öll tún og tilfinningin varð betri og betri eftir því sem lengra gekk á heyskapinn. Eftir þurrkunina var síðan gengið á eftir rakstarvélunum og passað upp á að ekkert hey færi forgörðum. Túnið fínkembt og klappað. Og hrífan góða var orðin eins og hluti af manni eins og önnur góð verkfæri geta verið, eins og framlenging handanna og sem var aldrei skilin eftir á hvolfi. Það vitjaði ekki á gott.

Bóndinn minn var mjög laghentur maður og þótti gera fallegri bólstra og hey sem svo voru kölluð en nokkur annar. Það vantaði hlöður og gera þurftu heyin þannig úr garði að þau stæðust vetrarveður og mikla bleytu. Þau þurftu að hlaða á sérstakan máta og þau voru látin síga vel á milli þannig að heyið þjappaðist vel. Moka þurfti og hlaða heyin af listfengi á ákveðinn hátt með heygöflum og í áföngum. Að lokum urðu þau eins og stæðilegar byggingar á stóru túnunum. Kúptar á kollinn og í útliti eins og risa formbrauð. Maður var stoltur að vera í sveit þar sem flottustu heyin voru hlaðin og maður fékk að taka þátt.

Á veturna sótti maður síðan KFUM fundi og söng áfram kristmenn krossmenn. Æskulýðsfulltrúinn stappaði í mann stálinu og fjallaði um sögur úr biblíunni eins og t.d söguna úr gamla testamentinu að vitur maður byggir ekki hús sitt á sandi. Þetta vissi ég mæta vel og furðaði mig á boðskapnum. Í lokin vor sýndar myndir frá Bandaríska sendiráðuneytinu. Fræðslumyndir sem allar voru um geimferðir og árangur bandamanna í hernaði og á tæknisviðinu. Síðast kom svo teiknimyndin eða grínmyndin sem allir höfðu verið að bíða eftir.

Í seinni tíð er heyskapnum öðruvísi háttað. Vaðið er á túnin með stórtækum vélum og það mesta og besta af túnunum hirt en annað skilið eftir. Varla að nokkur maður taki upp hrífu og vélarnar sjá um allt frá a-ö. Oft tekur ekki nema nokkra daga að hirða túnin sem tók mánuði í sveitinni í gamla daga. Þar sem ekki var hægt að koma öllum vélunum að var ekki hægt að búa og jarðir sem annars höfðu verið góðar og nægt að framfleyta fjölskyldum mann fram af manni, yfirgefnar. Við þóttumst hafa efni á því enda gátum tekið að láni ótakmarkað fyrir vélarkaupum og nýbyggingum. Sjálfsagt voru þetta nútíma þægindi og allir gátu haft það gott og þurftu ekki að svelta eina einustu stund fyrr en þá nú.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn