Þriðjudagur 28.09.2010 - 14:10 - FB ummæli ()

Örlagastrengir og litla Ísland

10428spider_web Það eru myrkir dagar framundan. Og kvíðinn í þjóðfélaginu er þegar orðinn mikill. Hræðsla um það ókomna, reiði, ásakanir og leit að einhverju sem heitir réttlæti. Endalausar slæmar fréttir um að almenningur sé að gefast upp. Þetta kom meðal annars fram í Kastljósviðtali gærkvöldsins um skuldir heimilana. Kvíðaviðbrögð eru einnig algengari hjá skjólstæðingum heilsugæslunnar þessa daganna en áður. Það er þungt í mörgum og geðhræringar daglegt brauð. Þráðurinn oft ansi stuttur og margir reiðast af minnsta tilefni. Ævisparnaðurinn kannski uppurinn eða gjaldþrot. Flestir af eldri kynslóðinni finnst þó hlutskipti barnafólksins það dapurlegasta í þessu öllu saman. En allir verða að hjálpast að, enginn er eyland. Við sitjum öll í sama netinu.

Kvíðaviðbrögðin geta líka brotist út með þunglyndi og einangrun. Verkkvíðinn er algengastur og jafnvel það einfaldasta sem áður var svo einfalt verður flókið og vex manni í augum. Ofsakvíði og örvænting grípur suma. Oft eru þó þær kvíðaraskanir fyrir enda ótrúlega algengar meðal fólks í venjulegu árferði. Fobíur sem hátt í 20% af mannfólki þjáist af í einhverri mynd eru hluti af algengustu kvíðaröskununum sem lýsir sér í ofsakvíðaköstum við ákveðnar aðstæður. Eitthvað sem er svo nærtækt í undirmeðvitundinni en á ekki endilega við raunverulega fyrri slæma reynslu að styðjast heldur kvíðaviðbrögð og óstjórn sem hefur yfirfærst á ákveðnar aðstæður af einhverjum ástæðum. Þessi tegund kvíða er oft bundinn í erfðir eins og margir aðrir geðrænir sjúkdómar sem hrjá okkur einhvern tímann á lífsleiðinni. Innilokunarkennd og lofthræðsla eru algeng dæmi um fóbíur en ein algengasta fóbían er þó gagnvart saklausum kóngulóm.

lirfanMargir muna eflaust eftir þekktri íslenskri teiknimynd um litlu ljótu lirfuna (2002) sem var svo saklaus og grimmu kóngulónni. Mynd sem átti að gera það svo gott í útlöndun og sem sjálfsagt er að sýna öllum íslenskum börnum í dag til að læra af.

Þegar fólk fær ofsakvíðakast að þá missir það tökin á sér og hugsunin verður stjórnlaus. Nokkuð sem við sjáum fleiri og fleiri gera í umræðu dagsins. En við hverju er að búast þegar maður kemst að því að lífið var tálsýn. Og hvað um kreppufóbíur í framtíðinni? Slæmur draumur sem var þó ekki martröð eftir allt saman heldur ískaldur veruleikinn. Þjóðin þarf fyrst og fremst sálfræðihjálp til að skilja og til að geta fyrirgefið. Aðeins glæpamennina sjálfa sem leiddu þetta allt yfir okkur þarf að finna og refsa en við skulum láta nægja að skamma þá vammlausu sem fyrra sig hvort sem er ábyrgðinni sem við fólum þeim. Þeir hafa þegar fengið sinn dóm hjá þjóðinni.

En af hverju skyldu svona mörgum vera illa við köngulær? Sennileg skýring, sem auðvelt er að ímynda sér, eru aðstæður fórnarlambsins sem óvart festist í netinu og á sér ekki undankomuleið. Verður bitinn og síðan étinn eða geymdur. Örlagaþræðirnir sem við óttumst mest liggja nefnilega víða í lífinu og taka á sig ótrúlegustu myndir. Spunameistarar þess kerfis sem við höfum lifað í eru margir og áttu sér þó misjöfn markmið. Og bráðin var jafnvel heimurinn allur. Aðrir hugsuðu þó fyrst og fremst að maka krókinn fyrir sig og sína.

Kóngulær eru ótrúleg skordýr sem flestum finnst afskaplega ljótar. Löngum hefur maður dáðast að verkviti þeirra og áræðni við erfið skilyrði. Spunameistarar með verkfræðigáfur. Slíkur getur vefur þeirra verið, úthugsaður í krók og kima. Talning á böndum og þverböndum liggur við upp á millimeter og styrktarstrengir til að vefurinn þoli sem mest álag. Allt byggist þetta á því eina takmarki að veiða bráðina. Myndin hér að ofan sýnir kónguló spinna vefinn sinn með hekluböndum enda notar hún alla fæturna til verksins og hnýtir vel á milli. Nýlega uppgötvaði íslendingur nýja tegund af kóngulóm sem spinnur sterkari streng en nokkur önnur og er þráðurinn margfalt sterkari en nokkur annar þráður og efnasamsetningin vísindamönnum ráðgáta eins og reyndar íslenska fjármálahrunið er mörgum fræðimönnum ennþá daginn í dag. Þráðurinn nýi á að vera margfalt sterkari en stál og margfallt sterkari en nokkuð annað efni. Af hverju vorum við ekki búinn að fá þennan þráð í okkar öryggisnet sem er þrátt fyrir allt hálf íslensk uppfynning.

Margir eru fastir í neti skulda þessa daganna. Margir sjá ekki fram á að geta greitt úr skuldafeninu og sökkva í raun dýpra og dýpra með hverjum mánuðinum sem líður. Margir eru svektir og finnst þeir hafa verið lokkaðir í netið, grunlausir um afleiðingarnar. Fáir trúðu því að frumskógarlögmálið, að éta eða verða étin, ætti að gilda árið 2010. En auðvitað er ekki öll nótt úti og við erum okkar spunameistarar líka. Lítum jákvæðum augum til kóngulóarinnar. Hún getur kennt okkur margt þótt ekki væri nema að það að vera þolinmóð. Okkar tími mun koma aftur og við eigum að vera dugleg að spinna okkar örlagaþræði inn í framtíðina. Náttúran er alltaf söm við sig. Við lifum hins vegar í mennsku samfélagi þar sem við hjálpumst að en stöndum ekki ein að öllu eins og kóngulóin. Örlagavefurinn sem við erum í núna mun smá saman slitna upp og við verðum frjáls aftur. Spurningin er aðeins um hvaða leiðir við veljum og hvort við ætlum að rífa okkur upp úr þessu ein og óstudd sem þjóð eða hvort við fáum hjálp vinaþjóða okkar eins og svo oft áður í sögunni þegar harðnaði í dalnum. Kónguló, kónguló, vísaðu mér á berjamó.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn