Engin heilbrigðisógn er meiri í hinum vestræna heimi en offitan enda oft talað um offituna sem alvarlegasta heimsfaraldur 21. aldar. Offitunni tengjast margir algengustu sjúkdómarnir í dag sem sífellt verða algengari og alvarlegri. Ber helst að nefna æðakölkun, hjartasjúkdóma, háþrýsting, sykursýki, heilablóðföll, gigtsjúkdóma og krabbamein. Þunglyndi og kvíði ásamt skort á nauðsynlegri hreyfingu tengist offitunni sterkum böndum svo oft er erfitt að átta sig á orsök og afleiðingu. Allir þessir sjúkdómar eru á góðri leið með að sliga heilbrigðiskerfið í dag vegna mikils kostnaðar.
Alvarlegustu tíðindin fyrir okkur Íslendinga er að þjóðin hefur sífellt verið að þyngjast og er nú svo komið að nærri fjórði hver Íslendingur er orðin of feitur. Ísland sker sig úr meðal annarra norrænna þjóða og skipar hvorki meira né minna en 9. sætið á heimslista yfir feitustu þjóðir heims. Augljóst er að sú staða skapaðist af neyslu Íslendinga á algengustu matvælunum og hreyfingarleysi um árabil. En staðan var allt önnur fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Við vorum öflug þjóð og öðrum þjóðum heilbrigðari. Þökkuðum við því óspilltri náttúru landsins, útivistarmöguleikum, góðum fiski og hollu fæði. Og sem betur fer fæddust börn óvíða heilbrigðari. En hvað fór úrskeiðis?
Íslendingar vöknuðu upp af góðum draum og þurftu allt í einu að horfast í ísköld augu raunveruleikans haustið 2008. Fáum grunaði hvernig gæti farið fyrir þjóð sem talin var meðal auðugustu þjóða heims. Sú sýn byggðist á falsspámennsku í fjármálalífinu um áabil og heilaþvotti á því hve frábærir við Íslendingar erum í einu og öllu. Staðreyndirnar blasa hins vegar við í dag. Augljóslega þarf nú að skera niður velferðarþjóðfélagið og spóla þarf til baka um nokkra áratugi til að getað byrjað upp á nýtt. En getur verið að önnur gildismöt en sem snertu fjármálalífið hafi farið forgörðum og að við höfum farið offarir í nútímavæðingunni í ýmsum öðrum sviðum meðal annars sem snúa að heilbrigðismálum? Svari hver fyrir sig í dag í nýju og víðara samhengi.
Offitan er eitt af þeim efnum sem er til umfjöllunar á Vísindaþingi Íslenskara heimilislækna í Stykkishólmi sem hófst í dag. Rúnar Helgi Haraldsson, mannfræðingur er aðalhöfundur rannsóknar á tengslum lífshátta og lífsreynslu offitusjúklinga hér á landi. Um er að ræða rannsókn á mjög feitu fólki því auðvitað má ekki heldur gleyma tilhneyingu til offitnunar sem bundið er í erfðum en sem væntanlega hefur ekki breyst svo mjög á síðustu árum þótt umhverfið hafi breytst mikið. Fyrstu niðurstöður sem Halldór Jónsson, heimilislæknir og meðhöfundur ásamt fleirum kynnti í morgun, benda til að auk ákveðins stjórnleysis að þá ráði persónulegir þættir mestu ekki síst neikvæð reynsla í æsku og mikil streita til lengri tíma, svo sem kynferðisleg misnotkun, áfengissýki í umhverfi og einelti í skóla sem síðan leiða til sjálfsímyndarskaða hjá stórum hóp sem á við mikla offitu að stríða . Margt annað má auðvitað nefna sem mikið er í umræðunni í dag svo sem óöryggi um sína eigin kynvitund sem leitt getur auðveldlega til þunglyndis. Margir virðast svo deyfa neikvæðar tilfinningar með fæðu. Frumniðurstöður rannsóknarinnar benda til að mikinn stuðning þarf við þennan sjúklingahóp í heilsugæslunni sem og annars staðar, einkum hvað varðar hina persónulegu þætti.
Ástandið í þjóðfélaginu er alvarlegt í dag. Kvíði og depurð getur meðal annars birst í mikilli reiði sem við sjáum svo víða og fer dagversnandi. Langvarandi vanlíðan barna í fjölskyldum sem óttast afkomu sína dag frá degi segir sína sögu og sem einmitt reyndist Finnum í kreppunni hjá þeim á áttunda áratug síðustu aldar dýrkeyptust þegar til langs tíma var lítið. Verri geðheilsa heillar kynslóðar var afleiðingin hjá þeim með öllum þeim fylgikvillum sem með fylgja og við sjáum svo augljóslega í dag ef við bara viljum. Lengi getur vont versnað hjá okkur en við getum spornað gegn þessari þróun ef vilji er fyrir hendi og allir taka þátt jafnframt því að minnka þá heilbrigðiskostnað stórkostlega í framtíðinni. Hreint land, fagurt land og fögur sál í heilbrigðum líkama eru einkunnarorð sem við ættum að taka okkur í munn að nýju til að öðlast sjálfsvirðingu og til að geta byggt upp land og þjóð.