Oft er það sjálfsagðasta í heimi sem fer forgörðum, ekki síst hjá okkur Íslendingum sem þrátt fyrri allt telst með betur stæðari þjóðum heims á alla almenna mælikvarða. Helstu heilsuógnirnar eru einmitt okkur sjálfum að kenna. Hjá ung- og leikskólabörnum er það meðal annars afleiðingar ofnotkunar sýklalyfja, nánar tiltekið alvarlegt sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda og óþarflega há sýkingartíðni. Hjá skólabörnum er það hreyfingarleysið. Um mikilvægi hreyfingar ættu þó allir fullorðnir að minnsta kosti að vita. Hreyfing skiptir sennilega mestu máli til að tryggja líkamlega og andlega góða heilsu ásamt grunnþörfunum svo sem aðgangi að hollu fæði og húsnæði auk aðgangi nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
Börnin okkar vita oft ekki þessar staðreyndir og spurningar hafa vaknað hvort foreldrar og kennarar séu nógu meðvitaðir um að koma þessum mikilvægustu staðreyndum um lífsins til skila. Fer umræðan forgörðum í hita og þunga daglegs lífs, mikils stress á heimilum sem oft er forgangsraðað eftir hagsmunum fullorðinna? Eins vakna spurningar um rétta forgangsröðun í skólastarfinu sem sífellt er verið að skera meira og meira niður?
Á nýloknu Vísindaþingi íslenskra heimilislækna í Stykkishólmi 8-9. október kynnti Hannes Hrafnkelsson rannsóknir sínar og félaga á mikilvægi hreyfingu barna. Rannsóknin var verðlaunuð sem athyglisverðasta og besta rannsókn heimilislækna í ár. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif íhlutunaraðgerða á heilsufar, líkamsástand og lífstíl 7 ára barna í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins og var rannsóknin framkvæmd í þremur áföngum í lok „góðæristímabilsins“ á árunum 2006-2008. Börn voru valin úr sex grunnskólum, börn úr 3 skólum í hvorn hóp.
Niðurstöðurnar sýndu sterk tengsl á milli aukinnar hreyfingar barnanna með íhlutun kennara við aukið þrek og þol barnanna samhliða aukningu á beinmassa þeirra. Margar aðrar rannsóknir hafa sýnt að hámarks beinþéttni næst venjulega um kringum tvítugsaldurinn. Grunnurinn er því lagður til strax í barnæsku og mikil beinþéttni er verndandi gegn beinbrotum síðar á ævinni. Kalkneysla og D-vítamín inntaka ráða auðvitað líka miklu fyrir alla aldurshópa. Marktækar breytingar sáust einnig hvað varðaði lægri blóðþrýsting hjá börnum í íhlutunarhóp í lok tímabilsins. Smá aukaleg hreyfing á skólatíma sem samsvaraði einni kennslustund á dag var allt sem til þurfti.
Gott þol samanborið við slæmt er talinn mikilvægasti mælikvarðinn í forspá á góðri heilsu hjá fullorðnum og mikilvægari en allir aðrir mælanlegir áhættuþættir fyrir hjarta og æðasjúkdómum samanlagt. Sama ætti að gilda um börnin þótt ung séu og því er ánægjulegt að sjá með rannsókn eins og þessari hvað gott þol hefur ótrúlega mikið að segja upp á mikilvægustu áhættuþættina, ekki síst beinheilsuna sem er sjálft burðarvikið okkar.
Rannsókn Hannesar og félaga sýndi líka vísbendingar um að strax eftir að skóla lýkur á vorin versnaði þol og beinmassi barnanna aftur í íhlutunarhópnum sem sýnir betur en nokkuð annað hvað það er mikilvægt að foreldrar passi alltaf upp á hreyfinguna og komi börnum út til að leika frekar en hanga yfir sjónvarpi og tölvuleikjum. Eins benda niðurstöðurnar á mikilvægi þess að grunnskólarnir beri meiri ábyrgð en þeir gera í dag á hreyfingu barna á daginn yfir veturinn þegar þau eru vel upp lögð til að hreyfa sig, enda skóladagurinn oft langur og oft áliðið og dimmt þegar heim er komið.
Hreyfing barna er sérstaklega mikilvæg til að viðhalda góðri heilsu og rannsóknin sem kynnt var á vísindaþingi heimilislækna sýnir hvað bein íhlutun í skólum getur skipt miklu máli.