Öll mál eiga sér tvær hliðar. Sérstaklega gildir þetta þegar við deilum hvort við annað. Oft komumst við að einhverri niðurstöðu. Stundum höfum við haft rangt fyrir okkur en erum þá reynslunni ríkari á eftir. Stundum vitum við betur en látum í minni pokann. Allt of oft bökum við samt vandræði eða látum gabba okkur.
Ég verð að viðurkenna að mér leið einkennilega fyrir hrun. Ekki það að ég yrði áskynja um yfirvofandi hættu, reyndar alveg grunlaus eins og flestir aðrir Íslendingar. Það var bara svo margt sem ég skildi ekki og sumt skil ég reyndar ekki ennþá daginn í dag. Það sem mér fannst einkennilegast var sú upplifun að einhvers staðar á lífsleiðinni var eins ég hafði misst af stóra tækifærinu. Ég skildi t.d. aldrei hvað margir gátu orðið ofboðslega ríkir á stuttum tíma. Ekki það að ég öfundaði þá svo mikið enda hafði ég nóg fyrir mig og mína, heldur meira tilfinningin að ég væri eftirbátur skólabræðra minna, skussi á vissan hátt og kynni ekki að ávaxta peningana mína. Oft var samanburðurinn við menn og konur sem voru töluvert yngri en ég var sjálfur og sem tengdust því miður fjármálaheiminum, á einn eða annan hátt í svokallaðri útrás.
Gildismatið á venjulegri vinnu í þjóðfélaginu var orðið furðulegt. Ég notaði það sem afsökun fyrir mig að ég væri aðeins að sinna því sem ég hafði lært og sem skapaði mér mikla starfsánægju. Margir virtust bara svo ofboðslega klárir og voru alltaf að koma fram á opinberum vettvangi til að minna á sig og sín gildi.
Stofnanir eins og bankinn minn Landsbankinn, sem ég taldi algerlega óskeikula stofnun og sem maður trúði í blindni að stundaði fjármálstarfsemi undir ríkiseftirliti. Hann er nú kominn til sérstakrar rannsóknar hjá Ríkissaksóknara. Ég var meira að segja grunlaus hvert stefndi þegar bankinn minn gat ekki lánað mér eina litla milljón króna haustið 2007 vegna skorts á lausafé, eða svo sagði útbússtjórinn. En þetta var mín tilfinning þá, slíkur var heilaþvotturinn búin að vera enda fjölmiðlar og stjórnmálamennirnir duglegir að spila hann upp.
Gæði vísindanna í landinu var mælt í peningalegum ávinningi. Genarannsóknir þóttu hvað fínastar og sem áttu að skaffa tugmilljarða króna verðmæti síðar. Menn voru tilbúnir til að selja sálir almennings og ríkistryggja framkvæmdirnar í þessu sjónarmiði. Smjaðrað var fyrir stjórnendum mennta- og heilbrigðistofnana og allskonar samningar gerðir sem tryggja átti framúrskarandi árangur okkar í vísindaheiminum. Hagnýtar rannsóknir í heilsugæslunni og lýðheilsurannsóknir skiptu engu máli. Allir aðrir sem ekki meikuðu það vel fjárhagslega með einum eða öðrum hætti voru álitnir „lúserar“ í kapphlaupinu og máttu ekki haft hátt. Ýmsir menntamenn í opinberri þjónustu m.a. læknar voru smá saman rændir sjálfstæði sínu á vinnustöðunum með millistjórnendum hverskonar. Þeir voru ekki lengur áhrifamenn í þjóðfélaginu sem hlustað var á. Og það var skortur á að heilbrigðis- og menntastofnanir þjónuðu samfélaginu sjálfu.
Margur læknirinn treysti hins vegar kollegum sínum úr háskólanum að vita betur hvað fjármálin varðaði og að þeim væri að takast að breyta lögmálum fjármálaheimsins. Það var huggun í harmi að breytingarnar um eilífða hagsæld síðar kæmi þá að minnsta kosti börnunum okkar og barnabörnum til góða. Annað kom á daginn. Og sem betur fer kom hrunið fyrr en síðar enda innistæðan engin í þjóðarbúinu og ég gat farið að skilja hlutina aftur. Ég fagna því að minnsta kosti nú að fá að vera aftur með.
Ég lærði að baka brauð og margt fleira í sveitinni. Í raun gekk maður í felst störf úti sem inni. Ef veðrið var vont fór maður í inniverkin í útihúsunum, þvoði þvotta, skúraði gólf og eldaði ásamt því að passa yngstu börnin. Jafnvel í girðingarvinnu úti í haga. Alla góðviðrisdaga var það útivinnan sem kallaði enda nóg að gera hjá ungum hjónum sem voru að byrja sinn búskap með takmörkuð fjárráð. Frá níu ára aldri fannst manni þetta sjálfsagt. Lestur með olíulampa seint á kvöldin á haustin þegar mogginn var það eina sem kom með mjólkurbílnum tvisvar í viku og var lesinn upp til agna. Leikur og búrekstur í eigin búi með leggi og skeljar þegar tími gafst. Sauðburður, heyskapur, fjárréttir og hrossagöngur á haustin en alla daga mjaltir og kúarekstur upp í fjalli. Hvað gat gefið ungum dreng meira veganesti út í lífið?
Tímarnir í dag eru breyttir nú tveimur árum eftir hrun. En hvað hafa foreldrar kennt börnunum sínum til að standa á eigin fótum í framtíðinni og sem nú er fyrirsjáanlegt að þau verða að gera? Skemmtun og afþreying flesta daga og krakkar mega ekki vinna. Varla unglingar heldur og vinnuverndarákvæði um hvað má leggja á þau mikið líkamlegt erfiði. Hvaða skilaboð skyldu þau hafa fengið sl. áratugi í góðærinu? Efnileg, það vantar ekki. En á hvað grunni byggja þau og kunna þau brauð að baka?
Nú má vel halda að ég sé afskaplega sjálflægur einstaklingur, sem ég reyndar er, og ég miði allt út frá mínum þrönga sjónarhorni. Það breytir þó ekki umræðunni í daga um mikilvægi fjölmenningarsamfélags, ekki síst að sjóndeildarhringur okkar Íslendingar hefur verið afskaplega takmarkaður og þröngur, þrátt fyrir allar útrásirnar. Okkur hefur þrátt fyrir allt sjálfshólið vantað umtalsverða þekkingu og víðsýni, ekki síst í því að geta verið til á sjálfbjargan hátt sem þjóð. Varnaglar eins og menntastofnanir og jafnvel kirkjan hefðu auðvitað átt að vera búnar að bregðast við og vara við stefnu þjóðarskútunnar á sínum tíma, en þær gerðu það ekki. Enn og aftur erum við þannig minnt á þá þröngsýni sem fellst í því að treysta kirkjunni okkar of mikið fyrir samfélagsmenntun barnanna okkar eins og umræðan snýst um í dag. Við þurfum að vera mikið betur upplýst og ábyrg sem þjóð meðal þjóða. Nú þurfum við fyrir alvöru nýja útrás, réttara sagt innrás fjölþjóðlega strauma með nýja þekkingu og viðhorfum, til landsins en ekki frá. Sennilega verður ekki hjá því komist að leita ásjár og eftir samvinnu við vini okkar í Evrópu til að það takmark náist. Aðeins þannig förum við að hegða okkur á ábyrgari hátt.
Okkur vantar nýtt blóð og meiri þekkingu, meiri víðsýni, meira þolgæði og meiri þroska. Við sem þjóð erum sem unglingarnir okkar í dag. Þeirra er líka framtíðin. Við höfum undirbúið hana afar illa. Við skuldum líka gamla fólkinu afsökunarbeðni. Samt átti mín kynslóð að kunna allt og geta allt. Kynslóðin sem er nú eins og milli steins og sleggju. Svo kom næsta kynslóð sem fór auðveldu leiðina. Hún er núna undir hamrinum. Þetta er allt hryllileg blanda af góðu og slæmu, nýju blóði og gömlu, nýja tímanum og gamla. Í dag vantar okkur jafnvel sjálf grunngildin til að standa á. Allar stjórnarstofnanir veikburða. Enginn góður leiðtogi. En okkur verður að takast það samt, með einum eða öðrum hætti.
Kanntu brauð að baka?
Já, það kann ég.
Svo úr því verði kaka?
Já, það kann ég.
Ertu nú alveg viss um?
Já, það er ég.
Eða ertu ef til vill að gabba mig?