Flestir hafa einhvern tímann haft gaman af því að púsla. Fyrst með stórum kubbum og síðan litlum þar sem heildarmyndin getur orðið ansi stórfengleg að lokum. Eftirvænting ríkir að leggja til síðasta kubbinn og heildamyndin verður loks skýr og falleg. Oft tekur mikið á þrautseigjuna og þolinmæðina. En það tekst að lokum og maður fyllist stolti yfir árangrinum og vill helst að myndin hangi upp á vegg það sem eftir er. Fæstir kæra sig um að byrja upp á nýtt á sömu mynd.
Fyrir rúmlega tveimur árum brotnaði hinn ímyndaði veruleiki minn eins og flestra annarra í brotabrot. Reyndar taldi ég hann þá ekki ímyndun heldur raunveruleikann blákaldann. Heimsmynd minni var reyndar langt í frá lokið, en hún var komin vel áleiðis. Sífellt var samt orðið erfiðara að finna réttu kubbana og manni var farið að gruna að sumir væru gallaðir eða þá að það vantaði einhverja kubba í kassann. Staða, sem flestir sem hafa unun af púsluspilum, kvíða mest af öllu.
Hvernig gátu stjórnarstofnanir og bankar hrunið eins og spilaborgir? Hvernig höfðu peningar geta orðið til úr engu? Búðarleikir með börnunum og spil eins og Matador verið í raun raunverulegri en sjálfur raunveruleikinn? Stálið og steypan verðminna en jörðin sem húsin stóðu á? Hégóminn og montið fékk þó aftur einhverja þýðingu. Náungakærleikurinn og raunverleg trú uppvakin. Nokkuð sem kirkjan neitar að hafi ekki alltaf verið til staðar.
Ég elska uppvakninguna og að skilja aðeins meira í eðli mannsins, tilfinningum og væntumþykju. Umfram allt virðingu á raunverulegum eignum hvers annars og þýðingu á veraldlegum verðmætum í mannlegum samskiptum. Skilningi á því að þegar ævikvöldið nálgast að þá ættum við að eiga rétt á því að geta horft stolt um öxl yfir farinn veg, en ekki sviðna jörð. Að við ættum að hafa geta orðið börnunum góð fyrirmynd og byggt upp sterkt og réttlátt þjóðfélag. Við áttum einu sinni allt, en þóttumst geta gert allt síðar.
Í dag eru margir Íslendingar ofboðslega ríkir en langflestir fátækir. Lántakendur og fjármagnseigendur oft þeir sömu. Misréttið er víða og brotunum hefur engan veginn verið raðað rétt saman aftur. Heildarmyndin er heldur ekki skýr og við höfum enga fyrirmynd til að fara eftir. Við byrjuðum einhvers staðar í miðri mynd í stað þess að raða upp í rammann fyrst. Við ætlum nú loks að fara að flokka kubbana eftir litum og útlínum. Framundan eru spennandi tímar en verkið hefur því miður tekið allt of langan tíma. Við erum líka hrædd um að einhverjir hafi stolið kubbum úr spilinu. Eða höfum við sjálf týnt einhverjum púslum í látunum? Í þetta sinn vonum við, að minnsta kosti, að myndin sé sönn og falleg.