Fimmtudagur 04.11.2010 - 20:02 - FB ummæli ()

Svarta myrkur

Í gærkvöldi var minnst á lífsfyllingu hér á eyjublogginu hjá Jónu Ingibjörgu. Stórfengleg ferð á suðurpólinn var sérstaklega tilnefnd. Ekkert síður allur undirbúningurinn og áhugamálið en ferðin sjálf. Eitthvað sem gæfi lífinu lit þegar skyldum sleppir. Eða eitthvað annað þarna á milli, eins og kom upp í hugann hjá mér í gærkvöldi.

Ferð á dimmri nóttu um hávetur á Íslandi er auðvitað ekki hægt að líkja saman við margra mánaða ferð í einsemdina á Suðurskautslandið eins og kom fram í Kastljósþætti í gær er viðmælandinn varð klökkur af tilhugsuninni einni saman og hann lýsti áformum sínum að fara aftur. Stutt ferð var farin í gærkvöldi þegar ég fór í kvöldgönguna með hundana mína og konan mín í útlöndum. Ef aðeins við opnum augun og gefum umhverfinu meiri athygli gerast undur og stórmerki.

Nálægðin rennur saman við jörðina, loftið, kuldann, snjóinn og svarta nóttina. Upp á Lágafellsheiðinni var algjör stilla og nýfallinn púðursnjór yfir öllu. Augun búin að aðlagast myrkrinu og hvíldinni fegin eftir daginn. Fæturnir samt svo sterkir að það lá við að maður gæti skautað yfir túnið á leiðinn upp heiðina og haldið þannig í við hundana sem hlupu lausir út um víðan völl.

Á bakaleiðinni blasti síðan við kirkjan mín, húsið mitt og minnisvarðinn um mátt okkar og megin. Minnisvarði liðinna kynslóða og vettvangur sögulegra atburða eins og greint er frá í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness. Í stríði og blíðu á besta stað í sveitinni. Uppljómuð í gulri flóðlýsingu. Kirkjan sem blasir við langt að og ég horfi til á hverjum degi, jafnvel oft á dag. Kirkjan sem á sér sál vegna þeirra gilda sem hún stendur fyrir, ein og sér, og bíður eftir að þjóna mér. Vinur minn í mörkinn en samt bara tómt hús. Hús sem á sér svo margar minningar en sem ég hef aldrei komið inn í.

Yfir kirkjunni blasti við undur og stórmerki. Himnastafurinn bláhvíti sem sjaldan hefur náð jafn langt upp í himininn og sem kenndur er við meistara Lennon (John Lennon, 1940-1980). Lítil skýjadula lág óvenju hátt á himninum og sem stafurinn náði upp í gegnum, lýsti upp, og hélt síðan áfram upp í geiminn, eins langt og augað eygði. Sameinaðist stjörnunum sem voru misbjartar en agnarlitlar. Í fjarska lágu þung snjóskýin í lögum út við sjóndeildarhringinn langt bak við Úlfarsfellið, skjannahvít á kolsvörtum himninum. Ekkert tungl til að trufla athyglina en hafbreiða gulra glitrandi ljósa frá höfuðborginni bar við hvíta jörð eins og risastór ábreiða. Ekkert áþreyfanlegt líf en litlar blikkandi eldrauðar ljósatýrur sáust frá hálsböndum hundanna sem voru óvenju fjörugir og hlaupu út um allt í dimmunni. Rauð ljós sem stungu í stúf við sortann og snjóinn og sem minntu jafnvel á jólin. Í fjarska sást líka skært grænt blikkandi ljós frá Öskuhlíðinni sem jók mikið á litadýrðina. Annars ekkert líf, allt frosið, kalt og hvítt en samt svo fagurt. Alveg eins og sorgin sem er hin hliðin á ástinni.

Og púðursnjórinn þyrlaðist upp í hvítt englaský í þrívídd upp við lappirnar mínar um leið og ég gekk fram hjá öllum vinunum mínum í kirkjugarðinum og sem ég kastaði á kveðju í leiðinni, unga sem gamla. Nálægðin var þægileg og ég fann til angurværðar en samt hvíldar. Vítamínsprauta og lífsfylling í núinu eins og svo oft áður. Tónlist Lennons er auðvitað lífsfylling út af fyrir sig sem hægt er að grípa til hvar og hvenær sem er. Einnig í huganum. Íslandsvinur eins og aðrir vinir mínir í kirkjugarðinum heima sem hlýjað geta mér um hjartaræturnar og skapað ómótstæðileg hughrif. Svarta minningu en samt svo bjarta.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn