Nú er kominn tími að snúa við blaðinu. Ræða eitthvað uppbyggilegt og gott. Eitthvað einfalt og fallegt, stórt og ævintýralegt. Segja börnunum sögur.
Barlómur hefur tröllriðið þjóðinni síðastliðin tvö ár og það er rétt eins og sumir segja í dag. „Það er komið nóg“. Með neikvæðninni endalaust eyðileggjum við okkur innan frá. En hver sagði að lífið ætti að vera auðvelt? Við eflumst við hverja raun og verðum sterkari og sterkari. Eða svo var sagt að minnsta kosti nema við værum alveg sveigð og beygð niður í duftið. En burtséð frá okkur sjálfum, hvað ætlum við að gera fyrir börnin?
Börnum á að segja ævintýri og hvernig konungssonurinn leystist úr álögum þegar prinsessan kyssti dauða svaninn. Ekki það að í dag væru sennilega aldrei skrifuð ævintýri eins og Muggur gerði þegar hann skrifaði frægasta ævintýri nokkurs Íslendings, Dimmalimm (1921). Sagan segir að hann hafi hugsað sér svaninn sem tákngerving íslensku þjóðarinnar sem var undir álögum Dana og kossinn hafi verið sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga og sigur til fullveldis, þótt opinbera sagan hafi átt sér einfaldari skýringar enda Muggur búsettur í Danmörku. Enginn myndi heldur þora að kissa dauðan fugl í dag af hræðslu við að smitast af fuglaflensu. Engum dytti heldur í hug að álögin gætu verið prinsinum sjálfum að kenna. En börn verða að fá að trúa og að hlutirnir geta breyst fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað.
Sögur af álfum og tröllum eru álíka trúverðugar og Íslendingarsögurnar og hafa sjálfsagt mótað barnshjörtun meira en Fóstbræðrasaga eða jafnvel Grettis saga Ásmundarsonar. Sögusvið ævintýranna blasa hins vegar alls staðar við, álfahólar og stórir steinar. Hamrahlíðarbjörgin og Esjan við mér þar sem Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir einn og átta eiga heima. Allt tákngervingar fallvaltrar velsældar og minnir á að alltaf komi að skuldadögunum. Nú í vaxandi skammdegi og myrkri, þegar alls konar vættir fara á stjá og spá okkur öllu illu, er líka góður tími að segja börnunum sögur af okkur sjálfum og ítreka þau spakmæli að kapp sé best með forsjá. Annars geti þau lent í jólakettinum eða lokast inn í álfasteinum um alla eilífð, þangað sem verið er að reyna að lokka þau með allskyns gylliboðum. Trúðu mér, ég veit þetta. Jafnvel sjálfur álfabiskupinn er ekki allur þar sem hann er séður.
Björk Guðmundsdóttir, söngkona, er ævintýrabarn okkar Íslendinga og sennilega er enginn Íslendingur frægari út í hinum stóra heimi, ekki einu sinni hin raunverulega Dimmalimm. Söguefnið sækir hún til íslensku ævintýranna og óspilltrar náttúrunnar. Náttúrubarn af guðs náð ef svo má segja. Sjálfstæð og fáum háð í list sinni. Eitthvað sem ætti að geta verið öllum börnum fyrirmynd í dag og uppspretta og hvatning frjórra hugmynda á hinu nýskapaða ævintýralandi. Þar sem allt getur gerst og gerist vonandi.
Í lokaverkefni Ólafar J. Engilbertssonar til MA prófs hjá Háskóla Íslands í hagnýtri menningarmiðlun, Sögueyjan heldur sjó (2007) segir; „Tenging Bjarkar Guðmundsdóttur við íslenska náttúru kallar á samsvaranir við fjallkonuna. Sé sú mynd sem Björk gefur af íslenskri náttúru í sínum verkum borin saman við fjallkonuna á 18. öld er ekki annað hægt að segja en að ímynd fjallkonunnar hafi gerbreyst. Í stað auðsveiprar og allt að því undirgefinnar fjallkonu á 18. öld má segja að íslensk náttúra og menning spegli sig nú í hinu alþjóðlega, en leggi um leið áherslu á sérstöðu sína. Á rauða dreglinum í Hollywood var Björk bæði Dimmalimm og svanurinn; menningin og náttúran, engum undirgefin. „