Laugardagur 06.11.2010 - 22:33 - FB ummæli ()

Samráð

Eitt af því leiðinlegasta sem ég geri er að sitja fundi þar sem allt er fyrirfram ákveðið. Frekar verið að boða en leita ráðgjafar og samráðs. Ég sjálfur óska þess heitast að til mín sé leitað eftir ráðgjöf, sérstaklega í þeim efnum sem sérfræðiþekking mín nýtist best. En áhuginn virðist oft takmarkaður og sennilega er þannig ástatt um fleiri víða í heilbrigðiskerfinu og fleiri stjórnarstofnunum.

Þjóðfundur er virðulegt heiti á merkilegum atburði. Atburði sem seint mun gleymast og allra síst meðal þeirra sem tóku þátt. Þar er leitað eftir skoðunum fólks sem bergmálar þjóðarvilja og almennar væntingar um grunngildin. Vilja sem mun móta nýja stjórnarskrá og þannig framtíð okkar allra.

Ég er stoltur að dóttir mín fékk boð um að taka þátt og í fyrsta skipti er leitað til almennings um álit á einhverju sem skiptir öllu máli þegar betur er að gáð eða ættum við að segja þar sem botninum er náð. Á sama tíma og gamla pólitíkin er gengin sér til húðar. Pólitík sem byggðist á valdabrölti og klíkuskap, framapoti og vinagreiðum, hægri, vinstri. Nokkuð sem við sitjum upp með í dag og sem ennþá sitja við stjórn í landinu og stjórnkerfinu að miklu leiti. Umfram allt viljum við samráð og að leitað sé til grasrótarinnar og einnig þar sem sérfræðiþekkinguna er að finna.

Hrafna-Flóki fann Ísland eða voru það hrafnarnir hans? Hrafninn ætti að vera þjóðarfugl okkar Íslendinga ef litið er til Íslandsögunnar. Kolsvartur og undirförull, klár og skemmtilegur. Vinalegur en fjandsamlegur í senn. Flugfimur með afbrigðum og félagslyndur. Glysgjarn og stríðinn. Og þeir koma saman á þing. Um fáa fugla hefur verið jafn mikið ort og kveðið. Þjóðskáld okkar Jón Thoroddsen eldri samdi eina bestu krummavísuna sem jafnframt er þjóðvísa, „Krummi svaf í klettagjá„.

Hrafninn er stærstur spörfugla hér á landi og hann er alæta. Að því leitinu er hann ólíkur litlu spörfuglunum sem eru svo vinalegir í görðunum okkar og eru auk þess margir góðir söngfuglar. Þjóðfundurinn nú er fundur smáfuglanna í þjóðfélaginu og þeir syngja í einum kór. Kallað er eftir nýrri forgangsröðun lífsgilda okkar þar sem manneskjan og jöfnuður er í fyrirrúmi. Enginn vængjasláttur og ekkert krunk. Jafnframt hvatning til framfara fyrir land og þjóð. Áframhald uppbygging menntamála og góðs heilbrigðiskerfis. Styrking félagslegar hjálpar þeirra sem minnst mega sín. Uppbygging frá grunni en ekki ofan frá. Nálgun út frá þörfum en ekki græðgi og sérhagsmunum þrýstihópa. Fjölmenningarlegt umhverfi þar sem við bjóðum aðrar þjóðir velkomnar. Í kvöld og á morgun heyrum við af meginniðurstöðum fundarins um grunngildin.

Samráð var allt sem til þurfti og gott skipulag. Fundurinn sendir mikilvæg skilaboð um framhaldið. Því væri nær að vitna til ljóðs annars þjóðskálds okkar Jónasar Hallgrímssonar „Ég bið að heilsa“ er hann orti til stúlkunnar sinnar á Íslandi sem einnig gæti hafa átt að vera ættjörðin sjálf sem hann unni svo heitt en komst ekki til. Bað þess í stað þröstinn og vorboðann að skila kveðju í sumardalinn sinn.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn